Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Icelandair fellir niður 80 flugferðir í mars og apríl

06.03.2020 - 16:27
epa02747627 An SAS Airbus 330 aircraft takes off behind Iceland Airs stranded Boeing 757 aircraft named after the volcano Eyjafjallajokull parked at a remote stand at Arlanda airport north of Stockholm, Sweden, 23 May 2011. The Eyjafjallajokull aircraft is parked at Arlanda, not able to return home, since the ash cloud from the volcano Grimsvotn closed the airports on Iceland 22 May.  EPA/Johan Nilsson SWEDEN OUT
 Mynd: EPA - Scanpix Sweden
Icelandair hefur ákveðið að aflýsa 80 flugferðum í mars og apríl vegna COVID-19 veirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. Það er um 2% af flugáætlun félagsins þessa tvo mánuði. Áætlaðar flugferðir félagsins í mars og apríl eru rúmlega 3.500 samtals.

Icelandair er nú að greina hugsanlegar sviðsmyndir og móta aðgerðir til að draga úr þeim áhrifum sem þessi þróun kann að hafa á starfsemi félagsins. Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér fyrr í vikunni kom fram að afkomuspá félagsins væri ekki lengur í gildi. 

Icelandair flutti um 131 þúsund farþega til Íslands í febrúar, sem er um 27 prósent aukning á milli ára á meðan farþegum frá Íslandi fjölgaði um 4 prósent. Farþegum Icelandair til Íslands hefur fjölgað um 23% á milli ára fyrstu tvo mánuði ársins. Tengifarþegum fækkaði um 17% á milli ára í febrúar. Sætanýting félagsins er um 75% fyrstu tvo mánuði ársins og hefur aukist um eitt prósentustig á milli ára.

„Sá möguleiki að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum og viðhaldið sveigjanleika í leiðakerfinu er einn helsti styrkleiki Icelandair. Þannig höfum við með góðum árangri lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og aukið fjölda ferðamanna til Íslands umtalsvert undanfarið ár. Nú stöndum við frammi fyrir óvissu vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þeim áhrifum sem hún kann að hafa á starfsemi okkar. Heilsa og öryggi starfsmanna og viðskiptavina okkar er ávallt forgangsmál. Við vinnum nú að því að greina stöðuna, meta hugsanleg áhrif og mögulegar aðgerðir. Áhersla okkar er á að lágmarka áhrif á viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa félagsins,“ segir Bogi Nils Bogason.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV