Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair dregur enn frekar úr framboði á flugi

12.03.2020 - 08:47
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr/BriYYZ
Tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu, sem gildir í 30 daga frá föstudegi, mun hafa veruleg áhrif á flugáætlun Icelandair á tímabilinu. Í tilkynningu frá félaginu segir að það muni draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt.

Icelandair tilkynnti þetta til Kauphallarinnar í morgun. Um 490 flugferðir eru áætlaðar til Bandaríkjanna á tímabilinu.

„Ljóst er að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur veruleg áhrif á ferðalög um allan heim. Fjárhagsleg áhrif þessa á Icelandair Group eru enn óviss en eins og tilkynnt hefur verið um er félagið að greina mögulegar sviðsmyndir og mótvægisaðgerðir í ljósi stöðunnar,“ segir í tilkynningu félagsins.

Þar kemur einnig fram að fjárhagsstaða Icelandair Group sé sterk. Lausafjársstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna (301,6 milljónir bandaríkjadala) í árslok 2019 og er á sama stað í dag, að sögn félagsins.

Icelandair tilkynnti í síðustu viku að félagið hefði ákveðið að aflýsa 80 flugferðum í mars og apríl vegna COVID-19 veirunnar. Það nam um 2% af flugáætlun félagsins þessa tvo mánuði. Áætlaðar flugferðir félagsins í mars og apríl eru rúmlega 3.500 samtals.