Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Iceland Airwaves í fyrra og fyrr

Mynd með færslu
 Mynd: Rás 2

Iceland Airwaves í fyrra og fyrr

18.10.2019 - 15:09

Höfundar

Í Konsert þessa vikuna förum á Iceland Airwaves í fyrra, og reyndar á Airwaves 2005 líka.

Í Konsert í kvöld förum á Iceland Airwaves í fyrra, og reyndar á Airwaves 2005 líka.

Nú styttist heldur betur í Airwaves 2019, hún fer fram dagana 6. - 9. nóvember og í vikunni var appið gert opinbert og dagskráin er komin á netið. Það eru 130 bönd sem spila á hátíðinni í ár og hvert band sérvalið af kostgæfni.

Það er spilað á svipuðum stöðum og undanfarin ár, á Gauknum, á Hard Rock Café, á Hressó, Kex Hostel, í Iðnó, Gamla bíó, í Listasafninu og í Valshöllinni á Laugardagskvöldinu þar sem Of Monsters And Men er aðalnúmerið.

En það sem við ætlum að hlusta á í Konsert í kvöld eru tvennir tónleikar sem fóru fram á Airwaves í fyrra- í Gamla bíói miðvikudagskvöldið 7. nóvember, með Valdimar og Árstíum.

Seinna í þættinum rifjum við svo upp merkilega tónleika sem fóru fram á Grand-Rokk á Iceland Airwaves árið 2005, Grand-Rokk sem löngu er búið að rífa. Það var merkilegur staður og þar spiluðu margar áhugaverðar hljómsveitir oft og lengi.

Og á Airwaves 2005 spilaði þar hjómsveitin Jakobínarína sem var afskaplega skemmtileg hljómsveit sem sigraði í Músíktilraunum einmitt þarna fyrr þetta sama ár.

David Fricke ritstjóri Rolling Stone sá Jakobínurínu spila á þessum tónleikum þarna á Grand-Rokk og skrifaði afskaplega fallega um sveitina á eftir, og í kjölfarið gerðust allskyns skemmtilegir hlutir hjá þessari mögnuðu hljómsveit. Jakobínarína fór á Eurosonic Festival í Hollandi í janúar 2006, strákarnir fengu svo plötusamning við Parlaphone og fóru nokkrar ferðir til útlanda að spila. Þeir gáfu út eina stóra frábæra plötu en svo liðaðist sveitin því miður í sundur allt of snemma. Það má geta þess að þarna þegar Jakobínarína spilaði á Airwaves 2005 voru meðlimirnir allir vel innan við tvítugt.

Ágúst Fannar Ásgeirsson - hljómborð
Björgvin Ingi Pétursson - bassi
Gunnar Bergmann Ragnarsson - söngur
Hallberg Daði Hallbergsson - gítar og raddir
Heimir Gestur Valdimarsson - gítar
Sigurður Möller Sívertsen - trommur

Undir lok þáttarins heyrum við svo í Liverpool-sveitinni The Zutons spila í Listasafninu á Airwaves 2005 Þar sem þeir frumfluttu t.d. lagið Valerie sem Mark Ronson og Amy Winehouse áttu eftir að gera heimsfrægt, en lagið er eftir Zutons.