
Íbúar kalla eftir fjármagni til heilsársvegar
Ófært er í Árneshrepp í þrjá mánuði á ári, frá janúar og fram í mars, þegar Vegagerðin heldur ekki uppi reglulegum snjómokstri. Hreppsnefnd hefur þá gripið til þess að kosta mokstur úr hreppnum til hálfs á móti Vegagerðinni.
„Það er einungis gert þegar mikil þörf er á. Á síðasta ári var kostnaður vel á aðra milljón sem er verulegt fyrir hreppinn.“ Segir Arinbjörn Bernharðsson, sem á sæti í hreppsnefnd.
Arinbjörn kallar flugið lífæð hreppsins yfir vetrarmánuði. Þegar ófært er reiða íbúar sig á flugsamgöngur til að sækja alla þjónustu og nauðsynjar. Vörur komast í búð og fólk kemst á milli. Um tuttugu búa í hreppnum yfir vetrarmánuði.
„Heilsársvegur yrði framfaraskref. Það er samt mikilvægt að tryggja heilsársaðgengi alla leið í Trékyllisvík. Veiðileysuháls leysir aðeins hluta vandamálsins.“ Segir hann.
