Íbúar hvattir til að hreinsa niðurföll

05.02.2020 - 15:13
Innlent · Akureyri · Asahláka · færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Akureyrarbær hvetur íbúa til að hreinsa frá niðurföllum í hláku sem nú gengur yfir landið. Asahláka er í bænum og unnið að því að sandbera.

Akureyringar eru hvattir til þess að brjóta klaka frá niðurföllum við heimili og á bílastæðum svo vatn komist leiðar sinnar og hindra þannig að allt fari á flot. Starfsmenn bæjarins eru á ferðinni í sömu erindagjörðum.

Unnið að því að hreinsa og sandbera

„Miklar hitabreytingar hafa orðið síðasta sólarhringinn, snúist í hlýindi og rigningu sem hefur í för með sér asahláku. Þónokkur snjór hafði þjappast á götur Akureyrarbæjar í frostinu sem nú hefur breyst í þungt krap. Fyrir vikið voru margar götur illfærar í morgun,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. 

Snjómoksturstæki hafi því verið á ferðinni síðan snemma í morgun og unnið að því að hreinsa götur. Þá eru íbúar beðnir að fara varlega vegna mikillar hálku. Fimm sandburðarvélar séu í gangi og reynt að sandbera stíga og gangstéttir sem allra fyrst.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi