Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúar Grýtubakkahrepps afhentu ráðherra mótmælaskjal

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta F. Flosadóttir
Órofin samstaða er í Grýtubakkahreppi gegn tillögu samgönguráðherra að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 1000. Íbúar áttu fund með ráðherra í gær. Sveitarstjóri furðar sig á almennri vanþekkingu þingmanna á málefnum sveitarfélaga.

Um 130 íbúar í Grýtubakkahreppi mættu á fund með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á Grenivík í gær. Umræðuefnið var framtíð sveitarstjórnarstigsins og sameiningar sveitarfélaga. 

Passlega heitur fundur

Í hreppnum er mikil andstaða við þingsályktunartillögu ráðherrans og áætlanir um að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélögum verði 1000. Sveitarstjórn sendi ráðherra heimboð og ósk um fund með íbúum í september. Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri, segir fundinn hafa verið málefnalegan og góðan.

Ágætis umræður hafi myndast og hitinn verið passlegur. Margt hafi komið fram, bæði frá íbúum og sveitarstjórn sem hafi gefið ráðherra nokkuð breiða mynd af samfélaginu og góða yfirferð yfir sjónarmið íbúa. Eins hafi Sigurður Ingi talað fyrir sínum tillögum.

Órofin samstaða íbúa stóð upp úr

Á fundinum afhentu íbúar Sigurði Inga skjal þar sem þau mótmæla því að verða svipt kosningarétti og stjórnarskrárvörðum sjálfsákvörðunarrétti með fyrirhuguðum aðgerðum. Ekki hafi komið nein rök sem haldi, en þau þurfi að vera ansi sterk fyrir slíkri aðgerð. Undir skjalið skrifuðu 186 íbúar, til samanburðar kusu 193 manns í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þröstur segir órofna samstöðu íbúa hafa staðið upp úr eftir fundinn.

Í aðra röndina hafi fundurinn verið mjög góður, í hina hafi íbúar orðið fyrir vonbrigðum með að afstöðu ráðherra hafi ekki verið haggað. Hann hafi til að mynda ekki viljað samþykkja að verið væri að taka sjálfsákvörðunarréttinn af sveitarfélaginu við sameiningu, það segi sig hins vegar sjálft að 300-400 manna samfélag verði alltaf minnihluti í þúsund manna samfélagi. 

Mildaði fundurinn þína afstöðu? „Nei, nei ég er alveg jafn þver og ráðherrann“ segir Þröstur. Hans afstaða hafa í raun styrkst við að finna 100% stuðning samfélagsins. 

Í áfalli yfir vanþekkingu þingmanna

Hann segir sveitarstjórn í hálfgerðu áfalli eftir að hafa fylgst með umræðum um tillöguna á Alþingi í gær. Þá helst yfir vanþekkingu þingmanna á málefnum sveitarfélaga. Það sé imprað á því hvað eftir annað að sveitarfélög verði að stækka og sameinast til að geta veitt íbúum þjónustu. Aldrei komi hins vegar fram hvaða þjónustu þurfi að veita. Enda sé upplifun íbúa sú að þeir fái mjög góða þjónustu.