Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íbúar Dalvíkurbyggðar gera upp óveðrið í desember

30.01.2020 - 11:44
Íbúafundur í janúar á Rimum þar sem íbúar gera upp aðventustorminn 2019
 Mynd: Íris Hauksdóttir
Helsti lærdómur eftir óveðrið mikla í desember er mikilvægi þess að hafa góða og virka vettvangsstjórn á heimaslóðum, segir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Íbúar í Dalvíkurbyggð gerðu aðventustorminn upp á vel sóttum fundi í gærkvöld.

Á fundinum voru fulltrúar, meðal annars frá Veitum, Landsneti, RARIK, björgunarsveitinni, lögreglunni, slökkviliðinu, Rauða krossinum og Búnaðarsambandinu ásamt sóknarprestinum. Á fundinum var farið yfir það með íbúum hvað fór úrskeiðis og hvað hefði mátt betur fara. Um 90 manns mættu og sköpuðust miklar umræður. 

Sambandsleysi óboðlegt

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir rafmagn og fjarskipti það helsta sem brást. „Og það er ekki eitthvað sem við meigum láta íbúana lenda aftur í, að vera sambandslausir til lengri tíma og koma hvorki frá sér upplýsingum né fá upplýsingar neins staðar frá“.

Virk vettvangsstjórn mikilvæg

Viðbrögð hafi hins vegar almennt verið góð. Allt hafi gengið upp hjá Veitum og almenn ánægja var með aðkomu Rauða krossins að fjöldahjálparstöðinni. Aðgerðastjórn almannavarna á Akureyri hafi staðið sig mjög vel, aðgerðum hafi verið vel stýrt en helsti lærdómurinn sé hversu mikilvæg virk vettvangsstjórn á heimasvæði er; „Þar sem að þeir þekkja svæðið eins og lófann á sér og aðstæður íbúa. Þannig að það sé hægt að hafa þetta samráð og samvinnu og samtal á vettvangi og skipta með sér verkum og veita upplýsingum út í byggðarlagið“.

Þar hafi Dalvíkurbyggð geta gert betur þar sem vettvangsstjórnin var óvirk. Almannavarnarnefnd hafi tekið yfir þessar formlegu vettvangsstjórnir sem voru á heimasvæðum. Ný vettvangsstjórn hafi hins vegar verið skipuð núna og verður virk þótt engin neyð blasi við.

Mikilvægt að ræða hamfarirnar

Fundurinn hafi verið ákaflega góður og mikilvægt að ræða málin, ekki síst fyrir andlega líðan fólks þar sem hamfarir og langur tími í neyð geti haft slæm sálarleg áhrif til lengri tíma litið.

Rauði Krossinn, Búnaðarsamtökin og presturinn hafi verið með mjög gott innlegg í því hvernig menn þurfa að gæta að sér eftir svona áföll sem Katrín segist hafa heppnast fullkomlega. Fundinum hafi lokið um tíu leitið en fólk hafi setið áfram og rætt málin sín á milli fram yfir ellefu.