Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ÍAV átti lægsta boð í tvöföldun Suðurlandsvegar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Tilboð í annan áfanga breikkunar Hringvegar á milli Hveragerðis og Selfoss voru opnuð í gær. Íslenskir aðalverktakar áttu lægsta boð í verkið sem felst í nýbyggingu Hringvegar að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á rúmlega sjö kílómetra vegkafla.

Tilboðið nam tæplega 97 prósentum af áætluðum verkkostnaði. Tilboð Suðurverks og Loftorku og tilboð Ístaks voru nokkuð hærri.

 

Vegamótum fækkað

Gerð verða ný vegamót við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri ásamt nýju hringtorgi við Biskupstungnabraut. Lagður verður nýr tæplega 5 km Ölfusvegur með hjólareinum ásamt breytingu á Þórustaðavegi og Biskupstungnabraut.

Byggð verða þrjár nýjar brýr á Gljúfurholtsá og Bakkárholtsá, undirgöngum fyrir bíla við Þórustaði og við Kotströnd þar sem Ölfusvegur fer undir nýjan Hringveg.  Þá verða byggð tvenn sérstök undirgöng fyrir reiðleiðir og gönguleiðir. Einnig eru breytingar á lögnum veitufyrirtækja innifalin í verkinu.

Áætlað upphaf framkvæmda er vorið 2020 og verklok eru haustið 2023.

Til að ljúka breikkun Hringvegar og aðskilnaði akstursstefna frá Biskupstungnabraut að Kömbum er svo gert ráð fyrir að Hringvegur verður færður til suðurs við Hveragerði í nýja veglínu samkvæmt aðalskipulagi Hveragerðisbæjar. Sú framkvæmd er í undirbúningi og gert er ráð fyrir henni á samgönguáætlun árið 2023.

Myndband af fyrirhuguðum framkvæmdum frá Vegagerðinni má sjá hér að neðan.