Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Í viðjum vanans  

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Í viðjum vanans  

21.01.2020 - 09:07

Höfundar

„Uppsetning Borgarleikhússins á Vanja frænda er eins nálæg ímynd hins klassíska leikhúss og hugsast getur. Áherslan er öll á að koma leikriti Tsjekhovs til skila í fallegum umbúðum og með góðum leik,“ segir Karl Ágúst Þorbergsson gagnrýnandi. Hins vegar vanti að tekin sé skýr leikstjórnarleg afstaða til verksins og stórum spurningum um mikilvægi þess sé ekki svarað.

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Fyrir skemmstu var sýningin Vanja frændi eftir Anton Tsjekhov frumsýnd á stóra sviði Borgarleikhússins. Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir sýningunni en hún stimplaði sig rækilega inn sem leikstjóri með uppsetningu á Ríkharði III í fyrra. Hundrað tuttugu og eitt ár er frá því verkið Vanja frændi var frumsýnt í Moskvu og er það löngu orðið klassík og talið eitt af meistaraverkum Tsjekhovs. Leikritið tekst á við tilvistarkreppu rússneskrar borgarastéttar í samfélagi sem er á hraðri leið til glötunar. Persónurnar ráfa um í kómískri óhamingju og iðjuleysi og þrá ekkert heitar en að finna tilgang lífs síns. Ljóst er því að snertifletir leikritsins við samtímann eru æði margir.

Leikritið segir frá heimsókn prófessors nokkurs, Aleksandrs, sem Jóhann Sigurðsson leikur og ungrar konu hans, Jelenu, sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikur, á sveitasetur sitt þar sem fyrir búa Vanja, leikinn af Vali Frey Gíslasyni, Sonja dóttir prófessorsins úr fyrra sambandi, leikin af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, María móðir Vanja, leikin af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Marína fóstra, leikin af Margréti Helgu Jóhannsdóttur og Jeffín vinnumaður, leikinn af Arnari Dan Kristjánssyni. Tekjurnar af setrinu sjá til þess að prófessorinn getur lifað sæmilegu lífi í borginni án þess í raun að gera neitt af viti sjálfur, enda hefur hann að sögn Vanja lítið sem ekkert gefið út um rannsóknir sínar. Prófessorinn þjáist af gigt og er því kominn í sveitina til að slaka á. Af því tilefni hefur læknirinn Mikhaíl Astrov vanið komur sínar á setrið þó að prófessorinn neiti að hitta hann, enda ekki nema von þar sem læknirinn ásælist unga konu hans. Og það sama á reyndar við um Vanja því svo virðist að fáir geti staðist fegurð hinnar ungu Jelenu. Að sama skapi sér Sonja ekki sólina fyrir lækninum og flækjast þá málin enn frekar. Eignalausi óðalsbóndinn Ilja, eða Vaffla eins og hann er kallaður, leikinn af Halldóri Gylfasyni, hefur einnig vanið komur sínar á setrið og eltir prófessorinn á röndum í augljósri aðdáun.  

Stefnuleysi, ástleysi og hnignun  

Persónurnar eiga það sammerkt að ráfa um stefnulaust á milli stofu, dagstofu og garðs í leit að einhvers konar hamingju, bugaðar af tilgangsleysi tilveru sinnar. Hnignun þess samfélags sem þau búa við er augljós og má í raun segja að það sé að liðast í sundur. Til að viðhalda úrsérgengnum lifnaðarhætti sínum leggur prófessorinn það til að sveitasetrið verði selt og fjárfest í verðbréfum en hefur ekki velt fyrir sér örlögum þeirra sem þar hafa búið. Upp úr sýður og Vanja grípur til örþrifaráða sem reyndar bregðast í samræmi við misheppnaða tilvist hans og vangetu til þess að láta verkin tala. 

Leikritið er í nýrri þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar og verður að hrósa honum fyrir góða þýðingu því 121 ára gamall textinn flæðir vel og virkar nálægur en ekki framandi, þrátt fyrir allt annað samhengi en þegar hann var upphaflega skrifaður.  

Þó að iðjuleysið og tilvistarkreppa allra persónanna sé fyrirferðamikið þema í leikritinu felst kjarni þess þó í þeim sögum um ást og ástleysi sem í því birtast. Í því samhengi taka karlarnir langmesta plássið og þó að ást Sonju á lækninum og óhamingja Jelenu fái einnig rými þá hringsóla þær eins og lítil tungl í kringum sólirnar Vanja, Astrov lækni og prófessorinn. Leitin að endurgoldinni ást virðist kristalla óhamingju aðalpersónanna og vona þær að ást réttrar manneskju eigi eftir að lækna þær af þeim lífsleiða sem hrjáir þær. Það er þó líklegra en ekki að lífsleiðinn eigi sér djúpstæðari rætur og stafi af þeirri samfélagsgerð sem persónurnar búa við, sem er að hruni komin og virðist gera allt líf þeirra að merkingarlausu hjómi. Þessi undiralda leikritsins nær hins vegar ekki í gegnum hinar fyrirferðarmiklu ástarsögur í sýningunni sjálfri. 

Þegar rýnt er í sýninguna vakna ýmsar spurningar. Ljóst er að sú lína sem lagt er upp með hefur það að markmiði að endurspegla texta og stílsnilli Tsjekhovs og þess persónugallerís sem leikrit hans bjóða iðulega upp á. Leikstíll verksins er þannig tiltölulega natúralískur, þrátt fyrir daður við brechtíska framandgervingu. Leikmynd og búningar vísa í óræðan sveitaheim 19. aldarinnar og þær vísanir og tákn sem stuðst er við spretta fyrst og fremst úr verkinu en koma ekki utan að, það er að segja úr okkar samtíma inn í verkið. Þessi stefna er einnig sýnileg í leikskrá þar sem öll áhersla en lögð á texta og höfundaverk Tsjekhovs. Þar er til dæmis ekki að finna ávarp frá leikstjóra. Það mætti því segja að þessi uppsetning haldi á lofti höfundaverki Tsjekhovs þar sem lögð er höfuðáhersla að vera trúr þeirri stefnu sem mörkuð er í leikritinu og klassískri nálgun og arfleifð Tsjekhovs innan sviðslistaformsins.

Snertifletir án samhengis 

Þessi nálgun er sannarlega góðra gjalda verð en hún getur haft það í för með sér að stórar spurningar, eins og varðandi mikilvægi uppsetningar leikritsins í dag og snertifleti við samtímann, verða áberandi og aðkallandi. Þannig getur sviðsetningin lokast af frá heiminum handan hennar og vísar aðeins í sjálfa sig en ekki í víðara samfélagslegt samhengi. Og eins og fyrr segir eru þessi snertifletir vissulega til staðar í leikritinu sjálfu og má í raun segja, eins og Gunnar Þorri kemur inn á í leikskrá, að samfélag Rússlands um 1900 sé um margt svipað ástandi heimsins í dag þar sem öfgarkenndar hugmyndir takast á og aðgerða- og andvaraleysi nokkurra kynslóða virðist ætla stefna heiminum í glötun.

Í sýningunni er því vissulega snert á þessum aðstæðum. Læknirinn Astrov er til að mynda mikill áhugamaður um skógrækt sem hann telur að muni bjarga heiminum og heldur innblásna ræðu um mikilvægi hennar og beinir orðum sínum beint til áhorfenda. Að sama skapi, og með sama hætti, talar Jelena beint til áhorfenda þegar hún fjallar um það hvernig aðgerðaleysi og rifrildi eigi eftir að tortíma öllu samfélaginu og leggja heiminn í rúst. Hér er því hægt að finna nánast beinar vísanir í hamfarahlýnun af mannavöldum og upprisu öfgahægristjórnmálaflokka, innan lands sem utan, sem ala á tortryggni og sundrung.  

Þessar vísanir spretta hins vegar beint úr heimi leikritsins og þeim er ekki fylgt eftir í leikstjórnarlegri stefnu í sýningunni. Þær eru ekki tengdar þeim táknheimi sem birtist okkur á sviðinu og ekki er tekin skýr afstaða til þeirra í tengslum við samfélag okkar í dag. Þær vísa inn í verkið en ekki út úr því, út í salinn, út í heim áhorfandans. Þó að reynt sé að ýta undir samband leikara og áhorfanda með brechtískum samskiptum þeirra í milli, talað er beint til þeirra, þá nær það samband ekki langt og áhorfendur verða í raun aldrei nálægur hluti af heimi persónanna. Á sama tíma er lögð mest áhersla á ástarsögurnar og falla aðrir þræðir verksins í skuggann af þeim.

Að sama skapi virðist notkun tákna í verkinu einna helst byggð á forsendum leikritsins. Myndmálið er því oft og tíðum samhengislaust og virðist þjóna myndrænni framsetningu senanna í stað þess að vísa út fyrir sýninguna. Í því sambandi mætti nefna rigningu undir lok verksins, kort af Afríku, stór vagnhjól sem rúllað er aftarlega á sviðinu, viðinn í sviðsmyndinni, brotakennda tónlistina, samóvarann góða og svo framvegis. Þessi tákn eru fyrst og fremst hugsuð til að staðsetja okkur í tíma og rúmi, í gamla daga í rússneskri sveit, eða til að úr verði fallegar lifandi myndir. Eins og áður segir: góðra gjalda vert en myndar ákveðið afstöðuleysi með samfélagslegri þýðingu verksins á okkar tímum og á stundum myndast óheppilegur lestur eins og til dæmis í tilfelli Afríkukortsins. Þó að minnst sé á Afríku í leikriti Tsjekhovs þá hafa slíkar vísanir, mæltar af munni yfirstéttar í miðri nýlendustefnu, allt aðra þýðingu í dag en á tíma Tsjekhovs.  

Með því að setja klassísk leikverk upp á þennan hátt skapast líka ákveðin hætta á því að sjónarhorn þess samfélags og samhengis sem verkið er skapað innan verði sett fram gagnrýnislaust. Oftar en ekki eru klassísk verk tekin og tætt í öreindir, raðað upp á nýtt og snúið á hvolf til þess eins að varpa ljósi á afstöðu samtímans til þeirra málefna sem tekin eru fyrir í leikritinu sjálfu. Sitt sýnist hverjum um þá nálgun. Stundum eru þessar breytingar minni háttar en geta þó haft mikil áhrif á merkingarsköpun sýninga. Í tilfelli Ríkarðs III sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í fyrra í leikstjórn Brynhildar var til að mynda lögð rík áhersla á mikilvægi kvenpersónanna og má auðveldlega líta á það sem svo að þær standi uppi sem eins konar sigurvegarar í lokin. Þar mátti greina ákveðinn leik með stöðu kvenna, feðraveldi og valdbeitingu.

Afstöðuleysi í fallegum umbúðum 

Í Vanja frænda fer hins vegar lítið fyrir sams konar endurliti á þau þemu sem þar birtast. Karlpersónur verksins eru þungamiðja allrar framvindu, það er þunglyndi þeirra og óhamingja sem knýr söguna áfram og konurnar virðast algjörlega háðar duttlungum þeirra og athygli. Svo vísað sé aftur í leikskrá verksins, þá má þar finna tilvitnanir í verkið og af þeim sex sem þar birtast er aðeins ein í konu. Af þeim fjórum konum sem birtast okkur á sviðinu eru tvær þeirra, eldri konurnar Fóstra og María, nánast mállausar og eru yfirleitt á jaðri sviðsins eða í bakgrunni. Eins er Jeffín vinnumaður, fulltrúi hinnar vinnandi lágstéttar, nánast ósýnilegur allt verkið. Það virðist því hafa vera tekin ákvörðun um að birta þá afstöðu sem er í texta Tsjekhovs án þess að taka hana til gagnrýnnar umræðu. Enn og aftur, gott og gilt, en býður um leið hættunni heim. Slíkt afstöðuleysi getur gert það að verkum að vafasöm viðhorf til samfélagsins, til dæmis varðandi stöðu karla og kvenna og forréttindi efri stéttanna, séu staðfest frekar en að þau séu tekin til listrænnar umræðu.  

Uppsetning Borgarleikhússins á Vanja frænda er eins nálæg ímynd hins klassíska leikhúss og hugsast getur. Áherslan er öll á að koma leikriti Tsjekhovs til skila í fallegum umbúðum og með góðum leik. Og það tekst og áhugafólk um klassíska endurspeglun á leikritum Tsjekhovs þar sem stílsnilld hans fær notið sín fær því hér mikið fyrir sinn snúð. Hins vegar vantar töluvert upp á að tekin sé skýr leikstjórnarleg afstaða til verksins og stórum spurningum um mikilvægi verksins innan okkar samfélags er ósvarað. Í því samhengi verður notkun á fagurfræði, leikstíl og myndmáli því óljós og þau tákn sem notuð eru samhengislaus. Skýrari afstöðu þarf til að tengja það við samfélaglega umræðu og bjóða áhorfendum í einhvers konar samtal um þau þemu sem þar birtast, merkingu þeirra og áhrif á samfélagið.  

Tengdar fréttir

Leiklist

Gamalt, ryðgað skilti

Leiklist

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann

Leiklist

Að geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu

Leiklist

Eyðileggur verkið og límir svo saman aftur