Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í stöðugum ótta á eigin heimili

31.08.2015 - 22:21
„Það er ekki oft sem ég hugsa sem svo að nú sé þetta búið. Að nú fái ég frið,“ segir Kamila Modzelewska. Hún sagði í kvöld sögu sína í Kastljósi en hún hefur í þrjú ár sætt ónæði, hótunum og skemmdarverkum. Í tvígang hefur fyrrverandi maður hennar sætt nálgunarbanni og hún jafnoft flúið heimili sitt
Kamila er ein fjölmargra kvenna sem ár hvert þurfa að flýja heimili sitt vegna ofsókna fyrrverandi maka, sem ekki býr lengur á heimilum þeirra. Í þættinum lýstu hún og lögmaður hennar þrautagöngu hennar undanfarin þrjú ár. Þrátt fyrir tugi tilkynninga og kæra Kamilu sjálfrar, félagsmála- og skólayfirvalda í heimabæ hennar neitaði lögreglan lengi vel að leggja nálgunarbann á fyrrverandi eiginmann hennar.

Tugir tilkynninga til lögreglu

Á þessum tíma hefur gengið á með smáskilaboðum, tölvupóstum og símhringingum sem innihalda svívirðingar eða hótanir í garð Kamilu og annarra fjölskyldumeðlima hennar. Fyrrverandi eiginmaður hennar hefur margsinnis elt hana og setið fyrir henni við heimili hennar og annars staðar. Eigur hennar hafa verið skemmdar ítrekað, nafn hennar verið falsað á opinbera pappíra auk þess sem enn er til rannsóknar gróf líflátshótun mannsins gegn Kamilu, sem hann viðhafði við 7 ára gamla dóttur sína. Öll þessi atvik hefur Kamila ýmist tilkynnt eða kært. Auk þess hafa félagsmálayfirvöld, grunnskóli dóttur hennar og leikskóli hinnar, kvartað, kært eða kallað til lögreglu vegna ónæðis hans. Maðurinn var meðal annars kærður fyrir að veitast að leikskólastarfsmanni með ofbeldi. Á myndbandi sem sýnt var í Kastljósi kvöldsins sést maðurinn í samtali við sex ára gamla dóttur sína, kalla Kamilu og móður hennar „heimskar" og segja stúlkunni að amma hennar muni deyja. Móðir Kamilu hefur ítrekað fengið sendar samskonar hótanir síðustu ár.

Gögn ekki lögð fyrir dóm

Nú síðast í vor hafnaði dómari því að leggja nálgunarbann á manninn í þriðja sinn, meðal annars vegna þess að lögregla hafði ekki lagt fyrir dómarann gögn sem Kamila hafði aflað. Meðal annars myndbandsupptökur af því þegar kveikt var í bíl hennar utan við hemili hennar og dætra hennar í vor. Lögmaður Kamilu sagði í Kastljósi að mál Kamillu og fleiri slík sýni galla í kerfinu. Með ólíkindum sé hversu erfiðlega gangi að fá nálgunarbann hjá lögreglu; jafnvel þó lögð séu fram fjölmörg dæmi sem hvert og eitt falli undir skilyrði fyrir beitingu bannsins. Heimild til að setja á nálgunarbann sé túlkuð allt of þröngt af lögreglu og dómstólum. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir að mál Kamilu sýni að jafnvel þótt fórnarlömb heimilisofbeldis og ofsókna bregðist hárrétt við öllum leiðbeiningum lögreglu, verði það ekki til að tryggja þeim frið. Árangur af nálgunarbanni velti því miður oftar en ekki á vilja ofbeldismannsins til að halda ofsóknum sínum áfram, enda séu fjölmörg dæmi þess að seint og illa sé brugðist við brotum á nálgunarbanni.

Kynferðisbrotakæra felld niður

Kamila og fyrrverandi eiginmaður hennar kynntust á Íslandi árið 2005. Þau eignuðust saman tvær dætur, árin 2007 og 2011. Að sögn hennar beitti maðurinn hana ítrekað ofbeldi þann tíma sem þau bjuggu saman. Árið 2012 ákvað hún að yfirgefa manninn og leitaði skjóls í Kvennaathvarfinu. Þar dvaldi hún í fjóra mánuði ásamt dætrum sínum. Í viðtali við eldri stúlkuna þar vaknaði grunur um að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi föður síns, en hún var þá fimm ára gömul. Barnaverndaryfirvöld í Mosfellsbæ kærðu málið og fóru fram á að stúlkan færi í viðtal í Barnahúsi, en málið var rannsakað af lögreglu fram í byrjun árs í ár, að málið var fellt niður. Sérfræðingur sem haft hefur stúlkuna til meðferðar undanfarin ár segir stúlkuna hafa sætt kynferðisofbeldi en gegn eindreginni neitun föður hennar taldi ríkissaksóknari málið ekki líklegt til sakfellingar fyrir dómi.