Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í startholunum með eldisstöðvar á Kópaskeri

09.10.2019 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Frank Bradford
Undirbúningur fyrir uppbyggingu seiðaeldisstöðvar á Kópaskeri stendur nú sem hæst og tillaga að deiliskipulagi hefur verið kynnt. Í tillögunni er gert ráð fyrir rúmlega 34.000 fermetra lóð fyrir fiskeldisker og þjónustuhús. Mikill vöxtur er í greininni og fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ráð fyrir að fiskeldi tvöfaldist á næstu tveimur árum.

Útflutningsverðmæti í fiskeldi að aukast

Gangi spár eftir verður útflutningsverðmæti í fiskeldi um 40 milljarðar króna árið 2021, eða sem nemur hátt í þremur prósentum af heildarútflutningi. Á þessu ári reiknar ráðuneytið með að útflutningsverðmæti fiskeldis verði hátt í 20 milljarðar króna.

Fiskeldi Austfjarða, sem hyggst opna eldisstöð á Kópaskeri, rekur nú þegar tvær eldisstöðvar, önnur þeirra er í Þorlákshöfn og hin í Kelduhverfi við Öxarfjörð. Gangi áform þeirra upp verða sett upp sextán útiker og tvö hundruð fermetra þjónustuhús á Kópaskeri. Áætlað er að stöðin skapi 15 störf.

Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að sótt verði um framkvæmdaleyfi um leið og sveitarstjórn Norðurþings hefur lokið við deiliskipulagið. 

„Við erum náttúrlega bara að ýta á kerfið að klára þetta og um leið og kerfið er búið að afgreiða málið þá byrjum við bara," segir Guðmundur.