Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Í miklum samskiptum við Glitni frá 2003

21.10.2017 - 19:02
Mynd: RÚV / RÚV
Samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir slitastjórn Glitnis í lok árs 2008 skilgreindi FME þá sem komu að undirbúningi þjóðnýtingarinnar sem innherja, meðal annars þingmenn, embættismenn og ýmsa ráðgjafa. Nafn Bjarna Benediktsonar var á þessum lista. Í gögnum, sem fréttastofa hefur undir höndum, er ekki sjá að slitarstjórn Glitnis hafi talið Bjarna hafa framið lögbrot með viðskiptum sínum.

Gögnin gefa hins vegar nákvæma mynd af samskiptum Bjarna, viðskiptafélaga hans, og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins við starfsmenn og stjórnendur Glitnis. Bjarni átti samskipti við lykilmenn hjá Glitni til jafns í gegnum netfang sitt hjá Alþingi og netfang sem hann hafði á vegum BNT hf., þar sem hann var stjórnarformaður. Samskiptin spanna tímabilið frá 2003, þegar Bjarni er kjörinn á þing, fram yfir hrun árið 2008.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Áður hefur verið fjallað um umsvif Bjarna sem fjárfestis. Gögnin sýna hins vegar með skýrari hætti hversu virkur þátttakandi hann var í viðskiptum, til að mynda í gegnum aflandsfélagið Falson & Co.

Lagði til að nota Falson aftur

Greint var frá viðskiptum Falson og Co. í umfjöllun RÚV og Reykjavík Media um Panamaskjölin í fyrra. Í tölvupóstsamskiptum sem finna má í gögnunum, á milli Bjarna og viðskiptafélaga hans Baldvins Valdimarssonar, framkvæmdastjóra og eins eigenda Málningar ehf, og Ægis Birgissonar, fyrrverandi starfsmanns Glitnis og framkvæmdastjóra fjárfestingafélagsins Reik ehf. kemur í ljós að Bjarni er einn hugmyndasmiða viðskipta félagsins.

Þegar Bjarni skýrði hlutdeild sína í viðskiptum Falson & Co. vegna umfjöllunar um Panamaskjölin, sagði hann félagið hafa verið notað til fasteignakaupa í Dubai. Það var árið 2005. Í þessum tölvupóstsamskiptum kemur hins vegar fram að félagarnir stefndu að því að nota Falson & Co. til að fjárfesta í fleiri fasteignaverkefnum nokkrum árum síðar. Bjarni fór sjálfur til Miami þar sem hann skoðaði fasteignir sem hann stakk upp á að þeir þrír myndu fjárfesta saman í, í gegnum Falson.

„Er í Nicaragua á vegum þingsins. Stoppaði á Miami um síðust helgi á leiðinni niðureftir. Fékk kynningu á mjög spennandi díl. Spurning hvort við eigum að skoða hann saman í Falson. Þetta er á algjörlega brjáluðum stað neðst á South Beach,“ skrifar Bjarni í tölvupósti til félaga sinna í janúar 2008 þar sem hann leggur viðskiptin til. Í öðrum tölvupósti leggur Ægir Birgisson til að þeir félagar noti fjármuni sem fengust út úr viðskiptunum í Dúbai til að fjármagna viðskiptin í Miami. Samskipti Bjarna við þá sem selja þeim félögum íbúðina í Miami og sjá um vinnu við íbúðina fara í gegnum netfang hans hjá Alþingi en samskiptin við viðskiptafélagana í gegnum netfang hans hjá BNT hf.

Gögnin varpa líka ljósi á aðdraganda viðskipta Bjarna og félaga hans í Dúbaí. Þau benda til þess að Ægir Birgisson hafi haft veg og vanda að skipulagningu þeirra viðskipta. Í samskiptum hans við Brand Thor Ludwig, sem hélt utan um fjárfestinguna fyrir þá og stofnun Falson & Co., kemur skýrt fram að vilji er til að stofna félag á Seychelleeyjum.

„Gerum þetta líklega í Seychelles félagi - við verður 3 sem munum eiga það til jafns - fínt að láta Lais Lux sjá um þetta,“ segir Ægir við Brand. Brandur biður Ægi í kjölfarið að láta viðskiptafélagana velja sér nafn á félagið af lista Mossack Fonseca, panamísku lögmannsstofunnar sem stofnaði félagið.

„Nafnalisti yfir SEY félög.  Sendið mér tillögu að 2 nöfnum – forgangsraðað,“ segir í tölvupóstinum. Athygli vekur að Brandur beinir því til þeirra allra þriggja að fara yfir listann yfir nöfn Seychelleyjafélaga en ekki bara til Ægis. Bjarni hefur borið því við allt frá uppljóstrun Panamaskjalanna að hann hafi staðið í þeirri trú að félagið hafi verið skráð í Lúxemborg. Hvergi er að finna í gögnunum að það hafi verið til umræðu að stofna félagið þar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Reyndu að vinna með Glitni

Bjarni hefur við nokkur tækifæri talað um það opinberlega að hann telji sjálfur ekki eðlilegt að vera virkur bæði í viðskiptalífinu og í stjórnmálum. Samskiptin við fólk í viðskiptalífinu, sem á köflum eru afar persónuleg, ná fram yfir hrunið - en það var heldur ekki fyrr en eftir hrun, í desember 2008 sem Bjarni lét af störfum sem stjórnarformaður N1. Í viðtali við Viðskiptablaðið þá sagði hann:

„Ég neita því heldur ekki að mér finnst á vissan hátt óheppilegt að vera mjög virkur þátttakandi í viðskiptalífinu eftir að bankarnir komust í hendur ríkisins. Það getur mögulega leitt til einhverrar tortryggni sem gæti bitnað á hagsmunum félaganna. Mér finnst það ekki góð staða.“

Í aðdraganda hrunsins reyndi N1 að fá Glitni til að vinna með sér að því að taka yfir fyrirtæki sem stæðu veikt vegna þrenginga. Hugmyndin var að fá bankann til að breyta lánum til félagsins í hlutafé og að gefa fyrirtækinu aðgengi að fyrirtækjum sem stæðu veik vegna efnahagsástandsins sem þá þegar var orðið slæmt. Í bréfi sem Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, í stjórnarformannstíð Bjarna, sendi Lárusi Welding 15. september 2008 leggur hann þetta til.

Tilgangurinn með þessu væri sá að tryggja að til væri gríðarsterkur (íslenskur mælikvarði) viðskiptaaðili með minni skuldsetningu en áður hefur sést sem gæti síðan stigið inní þau verkefni sem vit er í að leysa á verðum sem eru arðbær horft til lengri tíma. Með slíkum aðila mætti jafnvel halda fram að um leið væri verið að tryggja samgöngukerfi landsins þegar horft er til Icelandair.

Í samskiptum Lárusar við aðra starfsmenn Glitnis er tekið vel í þessa hugmynd. Hermann tekur fram að málið hafi ekki verið rætt í stjórninni á þessum tímapunkti og því aðeins um hugmynd að ræða. Bjarni er hins vegar meðal viðtakenda erindisins og ljóst að stjórnarformanninum var kunnugt um það.  Daginn eftir segir Hermann: „Boltinn er þá ykkar megin hvað þetta atriði varðar.“

Sendu drög að frumvarpi

Gögnin sýna líka áður óþekkt samskipti þingmanna Sjálfstæðisflokksins við starsfmenn Glitnis í kjölfar hrunsins. Meðal gagna sem þar koma fram eru tillögur þingmanna að lagafrumvarpi um meðferð innstæðna íslenskra og erlendra viðskiptavina bankans. Auk Bjarna Benediktssonar eru það Pétur H. Blöndal, Ólöf Nordal, og Sigurður Kári Kristjánsson sem eiga í þessum samskiptum.

„Að neðan hugmynd að frumvarpi sem unnið hefur verið af nokkrum þingmönnum með lögmönnum. Við höfum reynt að fá það í frekari vinnslu í gegnum ráðuneyti og vonandi hreyfist málið eitthvað en það gerist því miður hægt við þessar aðstæður. Hvenær á að halda fundinn ? Set Sigurð Kára með í póstinn, henn er inni í málinu. Kv Bjarni,“ segir í tölvupósti Bjarna til tveggja starfsmanna Glitnis 9. október 2008 þar sem frumvarpið er sent í heild sinni. Þremur dögum eftir að neyðarlögin voru lögð fram.

Gögnin gefa til kynna að þingmenn hafi verið í nánum samskiptum við þessa aðila. Í þeim má finna upplýsingar um að strax í byrjun árs 2008 hafi Bjarni og Illugi Gunnarsson, sem þá var þingmaður flokksins, beðið um fund með Lárusi Welding, sem var bankastjóri Glitnis, eins og Stundin hefur áður fjallað um. Viku síðar birtist fræg grein eftir þá félaga þar sem fjallað var um stöðu fjármálakerfisins.

Það virðist hafa skipt Glitni máli að Bjarni var alþingismaður á sama tíma og hann átti í viðskiptum. Þetta birtist meðal annars í tölvupóstsamskiptum starfsmanns Glitnis við Barclays bankann í Bretlandi vegna viðskipta BNT hf. þar í landi árið 2006. Þar tilgreinir starfsmaður Glitnis í London sérstaklega að Bjarni sé þingmaður þegar hann gefur upplýsingar um stjórnendur BNT.

 

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV