Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Í góðu samræmi við það sem Eflingu var boðið áður

10.03.2020 - 10:26
Mynd: RÚV / RÚV
Samninganefnd Eflingar og Reykjavíkurborgar klappaði á táknmáli þegar hún skrifaði undir kjarasamning í nótt. Hjá Ríkissáttasemjara eins og annars staðar er breytt verklag vegna COVID-19 faraldursins. Borgarstjóri segir samninginn í góðu samræmi við það sem borgin hafði boðið Eflingu áður.

Efling og borgin sömdu um 15 þúsund króna sérgreiðslu í lægstu launaflokkum sem fer lækkandi eftir því sem ofar dregur. „Af því að við höldum í svokölluð hæfnisþrep að þá eru allir að fara yfir 400 þúsund krónur í lok samningstímans. Þetta er í mjög góðu samræmi við það sem við höfum verið að bjóða og ég nefndi dæmi um í Kastljósi. Þó að útfærslan hafi verið núna til umræðu síðustu sólarhringa,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Eflingarfólk hefur verið í verkfalli í þrjár vikur sem hefur haft mikil áhrif á starfsemi leikskóla borgarinnar. Dagur segir að COVID-19 hafi óneitanlega sett pressu á samninganefndirnar. „Núna þegar við erum á daglegum fundum í neyðarstjórn borgarinnar til að búa samfélagið undir útbreiðslu COVID-19 þá fer veruleiki verkfalla og vinnudeildna afar illa saman við það sem gera þarf í því,“ segir Dagur jafnframt.

Síðustu tvo sólarhringa hefur Reykjavíkurborg samið við sex þúsund félagsmenn eða 65% starfsfólks borgarinnar. Það var samið um styttingu vinnuvikunnar fyrir dag- og vaktavinnufólk á sömu nótum og samið hefur verið um að undanförnu. „Þetta er í mínum huga tímamóta samningar,“ segir Dagur.