Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Í fyrsta og eina skiptið sem við tökum þátt“

Mynd: RÚV / RÚV

„Í fyrsta og eina skiptið sem við tökum þátt“

07.02.2020 - 12:51

Höfundar

„Ég held að allir elski Eurovision. Meira að segja þeir sem segjast hata Eurovision elska Eurovision,“ fullyrðir Stefán Jakobsson söngvari rokksveitarinnar Dimmu sem tekur þátt í fyrri undanúrslitum Söngvakeppninnar annað kvöld með lagi sínu Almyrkva.

Það kom mörgum aðdáendum rokkhundanna í Dimmu á óvart að þeir væru á meðal keppenda í Söngvakeppninni í ár en þeir verða síðastir á svið í fyrri undankeppninni annað kvöld og flytja lag sitt Almyrkva. Þó að þungarokkið hafi ekki verið áberandi í keppninni síðustu ár segist Stefán vera mikill aðdáandi Eurovision og fylgjast með ár hvert alveg frá 1986 þegar Ísland tók þátt í fyrsta sinn og söngflokkurinn ICY hafnaði eftirminnilega í sextánda sæti með Gleðibankann. Hann fullyrðir þó að þátttaka Dimmu í Söngvakeppninni í ár sé í síðasta skipti sem sveitin muni freista þess að fá að flytja framlag Íslands í Eurovision. Þeir munu þó væntanlega fylgjast með keppninni um ókomin ár með poppskál heima í sófa, hvort sem þeir verða reynslunni ríkari eftir að hafa stigið á svið fyrir Íslands hönd í Rotterdam eður ei.

Mynd:  / 

Stefán segir eftirlætis Eurovision-lag sitt fyrr og síðar án nokkurs vafa vera framlag Ísraels frá árinu 1987, lagið Shir Habatlanim, sem margir þekkja einfaldlega sem „Hube hulle,“ sem er mikið stemningslag sem enn slær í gegn á mannamótum meira en þrjátíu árum síðar. „Það er eitt af lögunum sem maður fær á heilann þegar hann á síst von á því,“ segir hann. En af lögum úr Söngvakeppninni hérlendis ber hins vegar annað lag af, að mati Stefáns og annarra liðsmanna sveitarinnar. Það er lagið Andvaka sem Guðrún Árný Karlsdóttir flutti árið 2006, sama ár og Silvía Nótt bar sigur úr býtum í keppninni hér heima. „Frábært lag. Við erum allir sammála um að þetta sé besta íslenska lagið,“ segir hann ákveðinn og aðrir í sveitinni taka undir.

Til að hita upp fyrir undankeppnina annað kvöld mættu keppendur í Stúdíó 12 á dögunum og léku ábreiðu af sínu eftirlætis Eurovision-lagi og það var því viðeigandi að liðsmenn Dimmu skyldu flytja sitt eftirlætis lag, Andvaka.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sopi af mjólk í hvert sinn sem kynnarnir skipta um föt

Popptónlist

„Rosa stórt að komast inn svona ung“

Tónlist

Samstarfið einkennist af ástarspennu