Í forgangi hjá Icelandair að greiða úr málum farþega

16.03.2020 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gríðarlegt álag er nú á samskiptasviði Icelandair, sem vinnur að því að svara fyrirspurnum farþega. Icelandair hefur fært starfsfólk til innan fyrirtækisins til þess að fjölga þeim sem vinna í því að greiða úr málum fyrir farþega.

Fyrirspurnir um breytingar á flugi rignir inn á samfélagsmiðla fyrirtækisins og mikið álag er á símkerfinu. Fréttastofa hefur fengið ábendingar frá óánægðum viðskiptavinum sem gagnrýna Icelandair fyrir seinagang í svörum og jafnvel misvísandi skilaboð, þrátt fyrir að viðskiptavinum sé beint á samfélagsmiðla til þess að fá lausn sinna mála.

Meðal annars hefur reynslusögum verið deilt á netinu þar sem kvartað er yfir þjónustu. Það hafi tekið 36 tíma að komast í samband við starfsmann fyrirtækisins og svörin hafi verið á þá leið að viðkomandi geti annað hvort hætt við flugið og tapað fargjaldinu, eða borgað mismuninn fyrir flug innan næstu mánaða.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að fyrirtækið sé að gera sitt allra besta í erfiðri stöðu.

„Við erum með þetta í algjörum forgangi, það er unnið dag og nótt og fólkið okkar er að gera sitt besta við krefjandi aðstæður. Það eru allir að leggjast á eitt hjá okkur,“ segir Ásdís.

Icelandair býður viðskiptavinum sínum að breyta miðanum sínum fram í tímann og út árið. Þá hefur fyrirtækið fellt niður breytingagjöld á farmiðum og við breytingu gildir þá fargjaldamismunurinn. Farþegum er bent á að hægt er að breyta farmiðum á netinu, en fréttastofa hefur heyrt af vandræðum farþega við það.

„Þessi staða er mjög óvenjuleg og eðlilegt að það sé álag. Við erum að gera okkar allra besta að svara fyrirspurnum eins fljótt og auðið er,“ segir Ásdís.

Ásdís bendir á að nýbúið er að setja upplýsingasíðu upp á heimasíðu fyrirtækisins. Þar eru uppfært hvaða flug eru felld niður og hvaða flug eru á áætlun sem sjá má HÉR. Farþegar geti þar einnig fengið svör við algengustu spurningunum sem brenna á þeim.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi