Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Í blómagarði Eggerts Péturssonar

Mynd: Eggert Pétursson / Eggert Pétursson

Í blómagarði Eggerts Péturssonar

26.03.2020 - 13:35

Höfundar

Heimildarmyndin Eins og málverk eftir Eggert Pétursson var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Stockfish á dögunum. Þar er ferli listmálarans gerð skil.  

Eggert Pétursson er fyrir löngu orðinn víðfrægur fyrir blómamyndir sínar. Fyrir skemmstu tók Gunnlaugur Þór Pálsson kvikmyndagerðarmaður sig til og fylgdi honum um landið undir leiðsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur grasafræðings. Útkoman er heimildarmynd sem sameinar upplifun á íslenskri náttúru og flórumengi mynda Eggerts. 

„Mér finnst myndirnar hans Eggerts svo fallegar. Þær kalla á mann einhvern veginn og fara beint inn í hjartað,“ segir Gunnlaugur. „Ég var búinn að vinna að mynd um jökla með Helga Björnssyni jöklafræðingi og kynnst konu hans, Þóru Elleni. Þá kom í ljós að hún og Andri Snær höfðu verið með prógram í HÍ um náttúruna og list Eggerts. Þarna var komin hugmynd um að blanda þessu saman. En svo skoða ég líka feril Eggerts. Hann ekki bara blómamálari heldur fyrst og fremst hugmyndalistamaður.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Pétursson

Myndin er nokkuð nákvæm skráning á vinnuferli Eggerts. 

„Það er það. Það er gaman að fylgjast með þessu. Fyrst er þetta hugmynd sem verður til í minnisbókinni, síðan málar hann og síðan er þetta komið í sýningarsalinn. Það er mjög gaman að sjá hvernig þetta tvinnast hjá honum.“

Ólafur Rögnvaldsson kvikmyndatökumaður var Gunnlaugi til halds og trausts en í myndinni er mikið lagt upp úr nærmyndum af náttúru og málverkum Eggerts. 

„Ég hlakka svo til að sjá þetta á stóru tjaldi, við erum komin ofan í allt. Þetta er allt þarna eins og í alvörunni. Svo er það tónlistin, sem Atli Örvarsson og Sindri Már Sigfússon - Sin Fang – semja. Tónlistarkaflar myndarinnar eru alveg einstakir. Ég er mjög stoltur af þessari mynd. Ég sagði eitt sinn í bríaríi að þar sem bók Eggerts um Flóru Íslands var eitt sinn kölluð fallegasta bók Íslands ætla ég bara að segja að myndin mín sé fallegasta mynd Íslands.“ 

Fjallað var um myndina í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hættum ekkert að lifa lífinu fyrr en okkur er sagt það

Myndlist

Sýningin er hluti af sköpunarferlinu

Menningarefni

Sakaður um mikil níðingsverk