Eggert Pétursson er fyrir löngu orðinn víðfrægur fyrir blómamyndir sínar. Fyrir skemmstu tók Gunnlaugur Þór Pálsson kvikmyndagerðarmaður sig til og fylgdi honum um landið undir leiðsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur grasafræðings. Útkoman er heimildarmynd sem sameinar upplifun á íslenskri náttúru og flórumengi mynda Eggerts.
„Mér finnst myndirnar hans Eggerts svo fallegar. Þær kalla á mann einhvern veginn og fara beint inn í hjartað,“ segir Gunnlaugur. „Ég var búinn að vinna að mynd um jökla með Helga Björnssyni jöklafræðingi og kynnst konu hans, Þóru Elleni. Þá kom í ljós að hún og Andri Snær höfðu verið með prógram í HÍ um náttúruna og list Eggerts. Þarna var komin hugmynd um að blanda þessu saman. En svo skoða ég líka feril Eggerts. Hann ekki bara blómamálari heldur fyrst og fremst hugmyndalistamaður.“