Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Í 10. sæti á hinsegin mannréttindalista

17.05.2013 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland er í tíunda sæti í árlegri úttekt Evrópusamtaka hinsegin fólks á stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Evrópu. Bretar eru á toppnum með 77 stig af 100. Formaður Samtakanna ´78 segir að tíunda sætið hljóti að vera Íslendingum vonbrigði.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, dró regnbogafána hinsegin fólks að hún við tónlistarhúsið Hörpu í morgun í tilefni alþjóðadags gegn hómófóbíu og transfóbíu. Evrópusamtök hinsegin fólks gefa í dag út árlega úttekt á stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Evrópu, svokallaðan Regnbogapakka. Þar eru Rússar neðstir en Bretar tróna á toppnum með 77 stig af 100. Ísland er í tíunda sæti með 56 stig. 

„Það er verið að skoða löggjöf og stefnu stjórnvalda, svona hinn opinbera ramma í rauninni um málefni hinsegin fólks, og við komum út í 10. sæti, sem ég get ímyndað mér að Íslendingum finnist vera vonbrigði,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna ´78.

Það er samt sem áður einu sæti betur en í fyrra. Það skýrist til dæmis af nýlegum réttarbótum eins og löggjöfinni um transfólk og einum hjúskaparlögum. En fleira þarf til: „Stjórnarskráin okkar tekur auðvitað alls ekki á neinn hátt á málefnum hinsegin fólks, berum orðum að minnsta kosti, og svo til dæmis vantar aðgerðaáætlun, svona stefnu gegn hatursorðræðu og hatursglæpum. Svo vantar líka allsherjar mannréttindastofnun á Ísland, fólk heldur kannski að Mannréttindaskrifstofa Íslands sé sú stofnun en hún er rekin af frjálsum félagasamtökum.“

Anna Pála segir að þessi niðurstaða endurspegli ekki endilega stemmninguna í samfélaginu. Full þörf sé þó á að minna á að enn eru til staðar fordómar í garð hinsegin fólks. En af hverju 17. maí? „Árið 1990, 17. maí, fjarlægði Alþjóða heilbrigðismálastofnunin samkynhneigða af lista yfir geðsjúkdóma.“