Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvítabirnir – vildu ekkert með þá hafa

20.07.2016 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Grænlensk stjórnvöld vildu ekki sjá hvítabirni frá Íslandi þegar starfshópur um viðbrögð við landgöngu hvítabjarna hér leitaði til þeirra fyrir átta árum. Þetta segir fulltrúi Náttúrufræðistofnunar í starfshópnum. Heildarstofnstærð hvítabjarna hafi ekki breyst mikið en menn hafi líklega meiri áhyggjur af þeim nú en þá vegna hlýnunar.

Eftir að tveir hvítabirnir gengu hér á land árið 2008 skipaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi umhverfisráðherra, starfshóp til að gera viðbragðaskýrslu. Niðurstaðan var að skynsamlegast væri að fella hvítabirni.

Alltaf væri hætta af björnum sem hingað kæmu, engu skipti fyrir austurgrænlenska hvítabjarnastofninn þótt nokkur dýr væru felld hér, veiðikvóti væri gefinn út árlega á hvítabirni úr stofninum og kostnaður við björgun hvítabjarna myndi hlaupa á tugum milljóna króna.

„Það þrengir að hvítabjörnum vegna breytinga á umhverfi þeirra. Ís er að bráðna vegna hlýnunar og þvíumlíkt en tölurnar hafa ekki breyst mikið, fjöldinn. En menn hafa meiri áhyggjur af hvítabjörnum í dag en þá kannski“, segir Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands og fulltrúi stofnunarinnar í starfshópnum sem gerði skýrsluna. Hann telur að rúmlega 20 þúsund hvítabirnir séu nú til.

Starfshópurinn athugaði kosti þess að deyfa dýrin og flytja til heimkynna sinna. „Það var leitað til grænlenskra stjórnvalda varðandi þann möguleika að flytja dýrin þangað og því var nú tekið vægast sagt mjög fálega. Þeir vildu ekkert sjá þau. Ég efast um að það hafi breyst.“

Guðmundur segir að hvítabirnir á Svalbarða séu alltaf skotnir komist þeir í mannabyggð. Þeir séu til alls vísir og það sama eigi við hér þar sem erfitt sé fyrir þá að finna æti. Hann segir erfitt að átta sig á því nú hvaða áhrif meiri bráðnun íss hafi á komur hvítabjarna. Fimm hafa komið hingað svo vitað sé síðasta áratug. „Vissulega er þetta meiri fjöldi heldur en áratugina á undan en ég held þetta sé nú kannski meira tilviljun að það hafi komið þetta mörg dýr á svo skömmum tíma.“

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands - RÚV
Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands