Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvílir á öðrum hreyflinum eftir að hjólabúnaður brast

07.02.2020 - 16:05
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson / Víkurfréttir
Neyðarástandi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli þegar farþegaþota Icelandair lenti á flugvellinum á fjórða tímanum í dag. Hjólabúnaður virðist hafa brotnað í lendingu. Flugvélin liggur nú út á annan vænginn á flugbraut á Keflavíkurflugvelli.

Farþegi sem fréttastofa ræddi við sagði að hægri hlið flugvélarinnar hefði lyfst frá jörðu í lendingu og síðan skollið aftur niður. Þá hafi eldneistar sést frá hreyflinum. Flugvélin stöðaðist síðan úti á miðri flugbraut. Farþeginn sagði að ekki hefði fundist mjög mikið fyrir þessu og að fólk hefði verið mjög rólegt um borð.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að 166 farþegar hafi verið í flugvélinni. Um og upp úr klukkan fjögur var unnið að því að koma stigabílum að flugvélinni til að hleypa farþegum frá borði. 

Flugvélin er á flugbrautinni þar sem hún lenti. Eftir að farþegum hefur verið hleypt frá borði verður farið að undirbúa flutning flugvélarinnar af flugbrautinni. 

Samkvæmt yfirlýsingu frá Icelandair urðu engin slys á fólki. Viðbragðs- og áfallateymi hafa verið virkjuð og Rannsóknarnefnd samgönguslysa er farinn af stað til að rannsaka málið.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort að hjólabúnaðurinn brotnaði í lendingu eða áður en til hennar kom. 

Fréttin var síðast uppfærð 17:31.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV