Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hvetur til olíuhreinsunar í Seyðisfirði

11.09.2019 - 12:32
DCIM\100GOPRO\GOPR5593.
 Mynd: Hlynur Vestmar Oddsson - Olíublaut æðarkolla
Breska sendiráðið er nú með til skoðunar hvort ástæða sé til að verða við ósk Seyðfirðinga um aðstoð við að verjast mengun úr breska tankskipinu El Grillo. Heilbrigðisnefnd Austurlands lýsir yfir áhyggjum af olíuleka úr flakinu sem sökkt var fyrir 75 árum.

 

Þrátt fyrir tvær tilraunir til að fjarlægja olíuna, síðast árið 2001, er talið að enn séu um 14 tonn af olíu í flakinu. Eins og fram hefur komið drápust kolluungar í Seyðisfirði i sumar og olíublautur fugl sást í firðinum. Heilbrigðisnefnd hvetur til þess að kannað verði hvort unnt sé að fara í frekari aðgerðir sem miða að því að fjarlægja olíu úr flakinu og fyrirbyggja að hún berist í lífríki fjarðarins. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Austurlands fær það á hverju ári talsvert af ábendingum síðsumars um olíubrák á firðinum. Olían linast upp og fer af stað þegar sjór hitnar.

Það er á ábyrgð Seyðisfjarðarhafnar að bregðast við þar sem mengunin er innan hafnarsvæðis og er til skoðunar að setja upp mengunarvarnagirðingar næsta sumar. Bæjaryfirvöld sendu breska sendiráðinu bréf og óskuðu eftir að hjálp við hreinsun eða mengunarvarnir en hafa ekki enn fengið svar. Samkvæmt upplýsingum úr sendiráðunum hefur bréfið verið móttekið og er málið til skoðunar.