Hvetur fólk til að draga fram spilin og dreifa huganum

24.03.2020 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Sveitarstjóri Norðurþings segir að mikil samstaða sé í sveitarfélaginu um að verjast kórónuveirunni. Það hafi hrist upp í fólki þegar ástralskur ferðamaður lést á sjúkrahúsinu á Húsavík á dögunum. Hann hvetur fólk til að draga fram spil með börnunum og dreifa þannig huganum.

Hertar reglur um samkomubann hafa haft mikil áhrif í Norðurþingi eins og annars staðar. Skólastarf er skert sem og önnur þjónusta sveitarfélagsins. Þá hafa hvalaskoðunarfyrirtækin hætt siglingum og Sjóböðunum verið lokað.

Skjót viðbrögð hafi skipt máli

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir að skjót viðbrögð eftir að ástralskur ferðamaður lést á sjúkrahúsinu á Húsavík, líklega af völdum kórónuveirunnar, hafi skipt sköpum og tekist hafi að hefta frekari útbreiðslu. Enginn þeirra tuttugu og þriggja sem fóru í sóttkví í kjölfarið hefur greinst með veiruna. Kristján segir þetta atvik hafa hrist upp í fólki og mikil samstaða sé í samfélaginu um að fylgja öllum leiðbeiningum.

19 starfsmenn HSN á Húsavík enn í sóttkví

19 starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eru í sóttkví, tveir heilbrigðisstarfsmenn frá Akureyri og tveir lögreglumenn. Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN segir að býsna vel hafi gengið að leysa úr málum í kjölfarið. Þó vissulega sé þrengra um úrlausnir en áður. Starfsemin sé enn að mestu mönnuð með starfsfólki á staðnum, samið hafi veri við afleysingalækna að vera lengur, verkefnum verið breytt, fólk fært milli deilda o.s.frv. Þá hafi komið liðsstyrkur í sjúraflutningana frá Akureyri. Auk þess séu starfsmenn í sóttkvínni tölvutengdir og geti unnið rafrænt að einhverju marki.

„Kennum börnunum að spila vist, kana og rommý“

Í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins hvetur Kristján Þór íbúana til að draga fram spilin. „Færum augun örlitla stund af skjánum og rifjum upp heiðvirð spil til að kenna börnunum okkar eins og vist, kana og rommý.“