Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvetja ungt fólk til að kjósa um sameiningu

24.10.2019 - 09:42
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Ungt fólk á Austurlandi fékk að segja skoðun sína á mögulegri sameiningu fjögurra sveitarfélaga í svokölluðum skuggakosningum. Mikill meirihluti menntaskólanema vildi samþykkja sameininguna.

Kosið verður um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar á laugardaginn kemur. Í Menntaskólanum á Egilsstöðum fengu nemendur úr þessum sveitarfélögum kynningu á sameiningunni, fengu að spyrja samstarfsnefndina spurninga og stóðu fyrir skuggakosningu enda sumir yngri en 18 ára og ekki með kosningarétt.

„Okkur í ungmennaráði Fljótsdalshéraðs þykir ofsalega mikilvægt að ungt fólk fái að tjá skoðanir sína og það er eitt af því sem við stöndum fyrir í ungmennaráðinu; það er að ungt fólk fái að kjósa og segja sín skoðun einmitt. Og þegar við komumst að því að það var ekki ungmennafulltrúi í samstarfshópnum þá fannst okkur frekar mikilvægt að það væri allavega einhver staður þar sem ungt fólk gæti tjáð rödd sína, og þess vegna ákváðum við að efna til skuggakosninga,“ segir Kristbjörg Mekkín Helgadóttir, úr Fellum á Fljótsdalshéraði.

„Ég held að flestir séu ekki á móti sameiningunni ég held að flestir vilji þessa sameiningu. Bara að það sé betra fyrir allt fólkið, það er þægilegra og betra held ég,“ segir Askur Egilsson frá Djúpavogi.  

Í ME vildu 83% að sveitarfélögin yrðu sameinuð en þar eru nemendur úr öllum sveitarfélögunum fjórum. Í Grunnskólanum á Egilsstöðum greiddu nemendur í efstu bekkjum atkvæði og þar vildi mikill meirihluti líka sameiningu eða 81%. Í Seyðisfjarðarskóla var mjótt á munum en þar vildu 56% úr efstu bekkjum samþykkja sameininguna. 

Ekki var hægt að hafa atkvæðagreiðslu í Grunnskóla Borgarfjarðar vegna fámennis á elsta stigi. Og á Djúpavogi greiddu allir grunnskólanemendur atkvæði. Þar var sá póll tekinn í hæðina að gefa niðurstöðuna ekki upp fyrr en eftir kosninguna á laugardag til að skuggakosningin verði ekki skoðanamyndandi. 

Kristbjörg Mekkín telur mikilvægt að skoðanir ungs fólks fái að heyrst í umræðunni. „Þetta er náttúrulega á hafa áhrif á framtíðina okkar og það er mjög mikilvægt að við fáum að segja eitthvað í því hvernig framtíð okkar sé. Að ungt fólk taki sína ákvörðun sjálft og ekki út frá foreldrum af því að þú átt þína skoðun sjálfur. Með skuggakosningum þá er líka hægt að öðlast reynslu af alvöru kosningum og þetta er líka góð byrjun fyrir þá sem mega kjósa í kosningunum núna og að hvetja alla til að nýta kosningarétt sinn,“ segir Kristbjörg Mekkín.

Horfa á fréttatíma