Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hvetja fólk til að klaga utanvegaakstur

24.07.2015 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reynt hefur verið að draga úr utanvegaakstri með útgáfu einblöðungs sem sýnir ferðamönnum hvernig og hvar má aka. Þá stendur til að setja upp skilti sem gefa bannið til kynna. Umhverfisstofnun hvetur fólk til að upplýsa ferðamenn sem gera sig líklega til að aka utan vega eða láta lögreglu vita.

Utanvegaakstur er með öllu bannaður á Íslandi. Borið hefur á því undanfarin ár að ferðamenn virði ekki lögin og aki utan vega. Stundum að því er virðist algjörlega að ástæðulausu, jafnvel í einhvers konar ævintýramennsku eða leik.

Svo eru ferðamenn sem aka utanvegar til að sneiða hjá einhverju á veginum, eins og pollum. Þá spilla þeir oft landi eða festa sig í drullu eða mýri.

Í fyrra brugðu landverðir í Vatnajökulsþjóðgarði á það ráð að setja upp merkingar á Þríhyrningsleið, þar sem ferðamönnum var bent á að halda sig alltaf við veginn. Þá settu þeir upp staura til að afmarka veginn og takmarka möguleika ferðamanna á að aka út fyrir hann. Í vetur settist svo Umhverfisstofnun, Vegagerðin, Vatnajökulsþjóðgarður, Samtök ferðaþjónustunnar og lögreglan niður og ræddu leiðir til að sporna gegn utanvegaakstri. Gerður var einblöðungur sem sýnir hvar og hvernig má keyra á Íslandi. Honum er dreift er til ferðamanna um allt land. 

Honum er dreift til ferðamanna um allt land, í skála, á bílaleigur og í skemmtiferðaskip. Þá hefur Vegagerðin fyllt upp í polla undanfarið, sérstaklega á Sprengisandsleið - og fleira er í pípunum.

„Við erum með stór upplýsingaskilti við alla innganga að hálendinu en síðan erum við að hanna og leggja lokahönd á skilti sem verða sett upp á nokkrum tugum staða til þess að vara ferðamenn við því að þeir megi ekki keyra utan vega,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Ekki er ljóst hvort skiltin verði sett upp í sumar. „Það er stutt sumarið á hálendinu, ég veit ekki hvað við náum langt í ár en þetta ætti að vera tilbúið næsta vor.

Umhverfisstofnun hvetur fólk til að vera vakandi fyrir utanvegaakstri. Það er ekki verra ef fólk getur rætt við þann sem er að aka utan vegar og bent fólki kurteislega á það að þetta er ekki eitthvað sem er leyfilegt að gera,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Eins geti vitni að utanvegaakstri látið vita. Við hvetjum fólk til þess að taka myndir og skrá myndir niður hjá sér bílnúmer og upplýsingar sem gætu komið að gagni og koma þessu í hendur á lögreglu.

 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir