Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hvetja Breta til að sækja í íslenskan þorsk

02.10.2019 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Bresku hafverndarsamtökin hvetja neytendur í Bretlandi til að kaupa síður þorsk og fleiri tegundir af bresku hafsvæði og sækja fremur í íslenskan. Ýmsar fisktegundir, þar á meðal þorskurinn, eiga undir högg að sækja og mikilvægara nú en nokkru sinni, að mati samtakanna, að vernda breska stofna nú þegar Bretar virðast á leið úr Evrópusambandinu.

Samtökin birtu árlegan lista í morgun yfir þær tegundir sem eiga undir högg að sækja og neytendur ættu að forðast. Þar eru ofarlega á blaði þorskur úr Norðursjó og villtur atlantshafslax en neytendum bent á tegundir í blóma eins og síld, rauðsprettu og lýsing, sem er bolfisktegund sem veiðist víða í Atlantshafinu en lítið við íslandsstrendur. 

Breska blaðið Guardian fjallar um ábendingar samtakanna í dag en þar kemur fram að þorskur úr Norðursjó eigi undir högg að sækja og gæti horfið úr hillum breskra verslana á næsta ári. Þorskur er mjög vinsæll í Bretlandi, enda Bretar sólgnir í fisk og franskar. Þeir þurfa þó ekki að hafa miklar áhyggjur því megnið af þorskinum, sem er síðar djúpsteiktur og baðaður sítrónusafa, kemur annars staðar frá. 

Charlotte Coombes, framkvæmdastjóri bresku hafverndarsamtakanna, segir að nú styttist líklega í að Bretar yfirgefi Evrópusambandið og viðbúið að breytingar verði á veiðilöggjöf og breskum fiskistofnum. Hún segir mun mikilvægara nú en áður að neytendur horfi til þess hvaðan fiskurinn kemur og hvort hann sé villtur eða úr eldi. Neytendur eru hvattir til að draga úr neyslu á villtum laxi, því hann eigi undir högg að sækja, og ná sér heldur í eldislax sem er lífrænt ræktaður.