Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hvert er gjaldið fyrir Vestfjarðaveg?

31.03.2017 - 07:00
Mynd með færslu
Flæður og leirur við Teigsskóg Mynd: Ólafur Arnalds
Endurbætur á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit, frá Bjarkarlundi að Skálanesi, hafa staðið til um margra ára skeið en gamall malarvegur er kominn til ára sinna. Í vikunni skilaði Skipulagsstofnun áliti á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir veginum. Í umhverfismatinui voru teknar fyrir fimm leiðir og lagði Vegagerðin til leið sem er kölluð Þ-H. Skipulagsstofnun lagði hins vegar til í áliti sínu að farin yrði önnur leið sem er talin valda minni umhverfisáhrifum, D2.

Þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar hyggst Vegagerðin halda sínu striki.

Jarðgöng, vegur á láglendi og óraskað land

Leið D2 (gula) liggur næst veginum sem er þar fyrir og er talin hafa minnst neikvæð umhverfisáhrif. Hún þverar Þorskafjörð, liggur í jarðgöngum undir Hjallaháls, fer fyrir botn Djúpafjarðar, yfir Ódrjúgsháls,yfir botn Gufufjarðar og tengist Vestfjarðavegi á Skálanesi. Leið Þ-H (bleik) liggur að mestu um lítt raskað land, þverar Þorskafjörð, um Teigsskóg, Hallsteinsnes, þverar Djúpafjörð við mynni hans og þverar Gufufjörð, tengist svo Vestfjarðavegi á Skálanesi.

Lengi velkst um í kerfinu

Vestfjarðavegur hefur velkst lengi um í kerfinu og árið 2006 hafnaði Skipulagsstofnun veglínu um Teigsskóg. Lög hafa nú breyst á þann veg að álit Skipulagsstofnunar er ekki lengur úrskurður heldur álit en frá árinu 2006 hafa náttúruverndarlög einnig styrkst.

Hvað þýðir álit Skipulagsstofnunar?

Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir er næsta skref Vegagerðarinnar að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir verkinu til sveitarstjórnar, í þessu tilfelli til sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

„Framkvæmdaraðili er ekki bundinn því að sækja um leyfi fyrir þeirri útfærslu að framkvæmdatillögu sem að Skipulagsstofnun mælir með í áliti sínu,“

segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsstjóri, í Samfélaginu á Rás 1. Framkvæmdaaðili getur því sótt um framkvæmdaleyfi fyrir hverri af þeim fimm veglínum sem fjallað er um í matinu. Ásdís Hlökk segir að sveitarstjórn Reykhólahrepps geti hins vegar ekki veitt framkvæmdaleyfi, lögum samkvæmt, nema að geta fært fyrir því rök að hversu miklu leyti er forsvaranlegt að víkja frá áliti Skipulagsstofnunar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsstjóri

Ekki bara Teigsskógur

Gufudalssveit er rík af náttúruminjum og sérstæðri náttúru og um hana gilda ýmis verndarákvæði. Niðurstaða álits Skipulagsstofnunar er að allar leiðirnar valda neikvæðum umhverfisáhrifum. Hún bendir á að náttúruverndarlöggjöf tekur með afgerandi hætti á náttúrufyrirbærum eins og leirum og votlendi, sem og birkiskóglendinu, Teigskógi, sem verður fyrir neikvæðum áhrifum af leið Þ-H. Leirurnar gegni, til dæmis, miklu vistfræðilegu hlutverki.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Ólafur Arnalds
Leirur við Teigsskóg

Ásdís segir að um svæðið fari farfuglaflokkar vor og haust, þarna sé arnarvarp og æðarvarp. Leið Þ-H þverar þrjá firði en veglína D2 einn. Meðal umsagnaraðila í umhverfismati Vegagerðarinnar var Hafrannsóknastofnun, sem telur að ekki hafi verið sýnt fram á að áhrif þverana á lífríkið verði óveruleg og leggst því eindregið gegn framkvæmdinni.

Þar sem umhverfismatið hefur það að markmið að draga, eins og kostur er, úr neikvæðum umhverfisáhrifum:

„Þá getum við ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að sú framkvæmd sem hefur minnst neikvæð áhrif á náttúrufyrirbæri – hún sé sú leið sem ber að velja,“

segir Ásdís Hlökk.

Reykhólahreppur veitir framkvæmdaleyfi

„Í náttúruverndarlögum segir að náttúrufyrirbærum sé óheimilt að raska nema að nauðsyn krefji,“

segir Ásdís Hlökk. Hún segir að Skipulagsstofnun telji að ekki hafi verið sýnt fram á að það sé nauðsynlegt að raska vistkerfum og náttúruminjum með leið Þ-H þar sem það er möglegt að fara leið D2 sem veldur minna raski.

„Þarna þarf Reykhólahreppur að fara yfir það hvernig hann vill nálgast þetta mál og hvort hann sjái á þessu fleti sem að aðrir hafa ekki séð,“

segir Ásdís Hlökk. Þegar veglínu B, sem er lík Þ-H leiðinni, var hafnað árið 2006 þá endaði matsferlið þannig, sem hefur nú verið breytt. Úrskurður Skipulagsstofnunar var þá bindandi fyrir Reykhólahrepp og sveitarstjórn Reykhólahrepps því ekki leyfilegt að veita framkvæmdaleyfi. 

Mynd með færslu
Reykhólar Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Reykhólar

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir Þ-H veglínu Vegagerðarinnar standast stefnu Reykhólahrepps og að sveitarstjórn muni leitast við að veita framkvæmdaleyfi fyrir þeirri leið með rökstuðningi:

„Við viljum geta rökstutt það að fara þessa leið. Við getum tekið til fleiri þætti en koma fram í áliti Skipulagsstofnunar eins og umferðaröyggi og byggðasjónarmið. Við viljum geta grundvallað framkvæmdarleyfið þannig að það standist.“

Ingibjörg Birna segir vilja sveitarstjórnar vera að fá láglendisveg og að vegagerðin gangi hratt og vel. Þótt hún sjái jarðgöng sem skynsaman kost þá sé ekki hægt að láta fólk bíða lengur. Ingibjörg Birna gerir ráð fyrir því að þegar framkvæmdaleyfi verður gefið út þá verði í framhaldinu ráðist í vinnu við að deiliskipuleggja vegina og breyta aðalskipulagi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veglína Þ-H er græn og D2 appelsínugul

Vegagerðin færir rök fyrir leiðarvali 

Niðurstaða umhverfismats Vegagerðarinnar er, eins og álit Skipulagsstofnunar, að leið D2 valdi minni umhverfisáhrifum en leið Þ-H. Vegagerðin færir ýmis rök fyrir því af hverju hún velur leið Þ-H í stað D2. 

  • Leið D2 kemur síst út varðandi kröfur um umferðaröryggi, þótt allar leiðirnar standist þær. 
  • Leið Þ-H er öll á láglendi. Þrátt fyrir göng undir Hjallaháls á leið, D2, þá nær hún í 168 metra hæða á Ódrjúgshálsi og er tveimur kílómetrum lengri en hinar leiðirnar.  
  • Leið Þ-H er 4,5 milljörðum ódýrari en leið D2 og ekki gert ráð fyrir svo dýrri leið, eins og D2, samkvæmt samgönguáætlun. 

Í frétt Vegagerðarinnar um leiðarval segir:

„Að öllu samanlögðu, og í ljósi þess að allar leiðir hafa neikvæð áhrif á umhverfið, telur Vegagerðin leið Þ-H vænlegasta kostinn sem auk þess er hægt að fara í nú þegar meðan aðrir kostir krefjast meiri vinnu og mun meira fjármagns.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Séð úr Teigsskógi yfir Þorskafjörð að vetrarlagi

Gagnrýna að kostnaðarrök ráði leiðarvali

Landvernd var meðal þeirra sem gagnrýndu að kostnaðarrök réðu leiðarvali í umhverfismati. Þá segir Ásdís Hlökk að Skipulagsstofnun horfi ekki á kostnað í mati á umhverfisáhrifum. Hún varpar jafnframt fram þeirri spurningu, óháð þessari framkvæmd, hvort að það eigi að horfa á byggingarkostnað og rekstrarkostnað í mati á umhverfisháhrifum:

„Þá þurfum við að fara að leggja eitthvert mat á náttúruna sem að við röskum á móti og það gerum við ekki í mati á umhverfisáhrifum – ekki hingað til.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Inn Djúpafjörð frá Ódrjúgshálsi

Skólaakstur eykst með Þ-H leið

Í matsskýrslu Vegagerðarinnar segir að Vegagerðin fari að kröfu heimamanna, sveitarstjórnar Reykhólahrepps: „Heimamenn leggja mikla áherslu á að vegur verði lagður á láglendi og því ekki víst að framkvæmdaleyfi fengist til að leggja veg yfir Ódrjúgsháls.“ Ekki eru allir heimamenn í Reykhólahreppi þó sammála. Leifur Z. Samúelsson er íbúi í Djúpadal í Djúpafirði. Hann er á þeirri skoðun að veglína D2 eigi að verða fyrir valinu. Verði leið Þ-H fyrir valinu þá verður afleggjarinn að Djúpadal 7,5 kílómetrar og lengir, til dæmis, skólaakstur krakkanna í sveitinni um 30 kílómetra á dag. Leifur hefur ekki áhyggjur af Ódrjúgshálsi eða að langur tími geti liðið þar til göng geta orðið að veruleika þar sem hann telur að leið Þ-H geti jafnframt valdið deilum og dregið framkvæmdir á langinn - eins og hefur gerst. Leifur telur flesta heimamenn á því máli að þeir vilji fá veg sem fyrst, sama hvaða vegur það svo verður.

Friðbjörg Matthíasdóttir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri Vesturbyggðar

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð, telur að íbúar í sunnanverðum Vestfjörðum vilji láglendisveg um Gufudalssveit. Fólk óttist það að ef það á að ráðast í jarðgangagerð þá verði ekki lokið við vegaframkvæmdir á næstunni. Hún segist styðja það að Vegagerðin óski eftir framkvæmdaleyfi á Þ-H leiðinni.

„Það er skýlaus krafa okkar til stjórnvalda að ef það koma upp einhverjir hnökrar á undirbúningnum á næstu vikum þá verði ekki fleiri tafir, heldur leyst strax úr málunum. Við vitum að það getur ýmislegt komið upp á en menn verða að vera klárir á því hver séu næstu skref til að það taki ekki önnur tíu ár að leysa úr málunum.“

Friðbjörg er á því að hagkvæmasti kosturinn eigi að vera fyrir valinu, það eigi ekki að ráðast í gerð jarðganga:

„Þá er verið að setja ansi háan verðmiða á umhverfissverndina,“

Brýn þörf á endurbótum

Á meðan vegurinn um Gufudalssveit hefur velkst um í kerfinu er vegurinn enn barns síns tíma.

 „Það velkist enginn í vafa um þörfina á úrbótum í samgöngumálum á þessu svæði og ég held að við getum öll verið sammála um það hversu bagalegt það er að það sé ekki komin úrlausn úr þessum málum,“

segir Ásdís Hlökk, skipulagsstjóri. Með auknum fjölda ferðamanna eykst álagið á veginum. Þá hefur umferð flutningabíla aukist mikið vegna uppgangs á sunnanverðum Vestfjörðum. Fréttastofan hitti nýlega flutningabílstjóra sem hefur ekið vegina um Gufudalssveit áratugum saman. 

Ásgeir Einarsson, flutningabílstjóri

Framkvæmdir gætu dregist

„Ef að þetta gengur á besta veg þá verður það í haust einhvern tímann. En við getum ekki svarað því almennilega, það eru margir steinar til að velta þangað til,“

segir vegamálastjóri.

Mynd með færslu
 Mynd:
Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri

Í rökum Vegagerðarinnar fyrir því að velja veglínu Þ-H er meðal annars tekið fram að Þ-H veglínan sé í samræmi við gildandi skipulag sveitarfélagsins. Samkvæmt Ingibjörgu Birnu, sveitarstjóra Reykhólahrepps, þá er gert ráð fyrir veglínu B, sem er einna líkust Þ-H línunni, í aðalskipulagi en það var samþykkt með fyrirvara um að Skipulagsstofnun samþykkti veglínu B, sem hún gerði ekki. Því þarf að ráðast í breytingar á aðalskipulagi fyrir þann kafla sem var háður samþykkt Skipulagsstofnunar og eru breytingarnar einnig háðar staðfestingu frá Skipulagsstofnun. Ef annmarkar eru á breytingum á aðalskipulagi er þeim vísað til umhverfis- og auðlindaráðherra. Þá má kæra framkvæmdaleyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Því er ljóst að framkvæmdir fara ekki af stað á allra næstu mánuðum.

 „Allir sem að þessu máli koma, sama frá hvaða sjónarhorni það er, myndu vilja sjá vegabætur sem allra fyrst á þessu svæði en því miður hefur þetta mál verið flóknara og erfiðara úrlausnar en við hefðum viljað,“

segir Ásdís Hlökk, skipulagsstjóri.

Fleiri hundruð blaðsíður af gögnum

Matsskýrsla Vegagerðarinnar, álit Skipulagsstofnunar, viðaukar og kort telja fleiri hundruð blaðsíðna. Álit Skipulagsstofnunar má nálgast á heimasíðu Skipulagsstofnunar og matsskýrslu Vegagerðarinnar ásamt fylgigögnum á heimasíðu Vegagerðarinnar.