Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvers er plágan megnug?

Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson / RÚV

Hvers er plágan megnug?

25.03.2020 - 10:30

Höfundar

„Hér verður því spáð að þegar þessi plága er afstaðin, þá sé eitt sem ekki verður breytt, og það eru íslenskur ójöfnuður og íslenskir valdastrúktúrar,“ segir Halldór Armand sem veltir fyrir sér hvaða varanlegu breytingar COVID-faraldurinn kunni að hafa á samfélagsgerðina.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„Ég er að koma frá hááhættusvæði,“ sagði ég við bílstjóra flugrútunnar meðan ég bjástraði við að koma töskunni minni fyrir í farangursgeymslu. Ég var með hanska og grímu fyrir andlitinu. Hann hörfaði skref í burtu þegar ég sagði þetta. „Já, er það já, hvaðan?“ „Þýskalandi,“ svaraði ég. Ég veit ekki af hverju ég sagði þetta við hann, mér leið eins og ég væri hættulegur og mér líkaði þessi tilfinning eiginlega, það voru einhver völd í þessu lúkki og þessari setningu. Mig langaði líka bara að sjá viðbrögð hans, mig langaði að sjá hversu hræddur hann væri, vegna þess að þetta var maður sem gat jú, ekki unnið heiman frá sér. Hann keyrði rútuna, allan daginn tók hann á móti svona eiturgemlingum eins og sjálfum mér inn í rútuna sína, og hver vissi hvað við bárum í farteski okkar. Hver vissi hvað var á seyði innra með okkur, hvað hafði sest á töskunar okkar eða úlpurnar á löngu ferðalagi?

Ég var ekki með nein einkenni, en ég hagaði mér eins og ég væri geislavirkur, eins og af mér stafaði geysilega hætta fyrir alla kringum mig. Ég yrði sóttur á BSÍ og planið var að þar myndi ég dauðhreinsa töskurnar mínar og setja þær sjálfur í bílskott, labba síðan á dvalarstað minn, og taka þar töskurnar upp úr skottinu og koma mér síðan í sóttkvíarathvarfið þar sem ég myndi verja næstu tveimur vikum, þar sem ég sit núna undir gamalli veggklukku og les þessi orð.

Fyrr um morguninn hafði ég verið í Amsterdam. Þangað hafði ég aldrei komið áður. Icelandair hafði sent mig þangað, líklega til að safna saman fólki í eina vél heim. Nokkrum klukkutímum áður hafði ég átt að millilenda í Frankfurt. Þar á undan London. Þetta breyttist hratt. Sífellt bárust nýir tölvupóstar með breytingu á fluginu. Ég hugsaði með mér að svona væri Ódysseifskviða í alþjóðavæðingunni. Hún færi fram í viðtengingarhætti. Ódysseifur hefði getað komið til Lótófaga og hefði getað strandað hjá Kalypsó, en ekkert af þessu hefði að lokum gerst vegna þess að miðanum hans heim til Íþöku hefði alltaf verið breytt áður en hann gat lagt af stað frá Tróju. Ódysseifur 21. aldar væri ekki að berjast við kýklópa og seiðkerlingar út um víðan völl, heldur væri hann bara einhver náungi að refresha emailinn sinn uppi í rúmi eins og ég. 

En núna var ég í Amsterdam í fyrsta skipti og vissi ekki af hverju. Ég gat ekki hugsað annað en að kannski væru þetta síðustu andartökin í alþjóðavæðingunni eins og við þekkjum hana. Ég var maður sem var staddur í Amsterdam, maður sem var staddur bara einhvers staðar í heiminum, og vissi ekki einu sinni af hverju. Ég var bara hérna af því einhver hafði ákveðið það, einhver sem ég sá aldrei og var aldrei í samskiptum við, heldur fékk ég bara flugmiðann sendan í tölvupósti án útskýringa.

Ég sprittaði lófa ferðafélaga míns. Kannski var þetta okkar Veröld sem var, þegar við sprittuðum hvorn annan á flugvellinum í Amsterdam, tveir ungir menn, sem voru bara einhvers staðar í heiminum, alls staðar og hvergi, án þess að hafa ákveðið það sjálfir, á leiðinni heim. 

Þegar ég bar töskurnar inn í sóttkvíarathvarf mitt rak ég augun í fyrirsögn á bakþönkum Fréttablaðsins sem lá á gólfinu í anddyrinu. „Neyslan þín er vinnan mín,“ stóð þar. Ég skil alveg að íslensk verslun sé uggandi yfir stöðu mála en að gefa í skyn að það sé eiginlega siðferðileg skylda fólks að slá ekki slöku við í neyslu á meðan banvæn plága gengur yfir heimsbyggðina og fjárhagur venjulegs fólks er í algjörri óvissu er, ja, hvað skal segja … Kannski er nóg að segja að það sé afar lýsandi fyrir það hvernig mannlegt samfélag er rekið. Það er ekki oft sem slíkur sannleikur er sagður upphátt. Mestöll markaðsmennska snýst um að sannfæra þig um að neysla þín færi þér hamingju og lífsfyllingu með því að leysa vanda eða uppfylla skort af einhverjum toga í lífi þínu. Staðreyndin er samt auðvitað, eins og allir vita, að eyðsla eins er fyrst og fremst lífsviðurværi annars. Þetta er í grófum dráttum það sem alþjóðlega hagkerfið grundvallast á. Við kaupum eitthvað sem okkur vantar eða langar í, og látum fólkið sem útvegar þessa hluti fá peninga, sem síðan notar þá til að kaupa sér eitthvað sem það vantar eða langar í og svona koll af kolli til eilífðar. Þetta er eilífðarvél sem má ekki stoppa.

Hún hreinlega má ekki stoppa í hálftíma. Þetta er eitt af því sem kórónaveirufaraldurinn sýnir svo vel; hreinlega hvað mannlegt samfélag er ferlega viðkvæmt undir yfirborðinu, hvað það eru mörg svið þess sem bókstaflega þola ekki að drepið sé á vélinni í eina sekúndu. Áður en maður nær að depla auga er ríkisvaldið byrjað að dæla milljarðatugum inn í bankakerfið og allt hringsnýst kringum það að bjarga fyrirtækjum. Mantran er þessi, það þarf að bjarga störfum fólks til þess að tryggja afkomu heimilanna. Þetta er er réttlætingin: Heimilum fólks er bjargað gegnum fyrirtækin, en ekki með beinni aðstoð.

Það er auðvitað satt, að vinna og afkoma heimila eru tengd fyrirbæri. En í þessari hugmyndafræði kristallast líka sýn á mannlegt samfélag þar sem fyrirtæki eru mikilvægari en manneskjur. Manneskjan og mannleg tilvera yfir höfuð er, samkvæmt þessari sýn, eins konar afurð  neysluhagkerfisins, en ekki öfugt. Á tímum banvænnar plágu, sem lamar samfélagið, er öll áhersla lögð á það að þú getir unnið, en ekki að þú getir lifað. Ríkisstjórnin hefði vitaskuld getað gert alls konar hluti sem hjálpuðu fólki og heimilum beint, en það var ekki gert. Vinnan kemur á undan lífinu. Af hverju skyldi það vera? Hverjum þjónar það á endanum?

Ég lagði frá mér töskurnar, lokaði útidyrahurðinni, klæddi mig úr hönskunum og dró niður grímuna. Ég gekk að stofuglugganum, sóttkví mín var hafin, ég skimaði út og sá engan. Það var enginn á ferli. Eina lífsmarkið sem ég sá var kona, sem var að þrífa hótelherbergi, skammt frá. Ég fylgdist með henni um stund gegnum tvær rúður. Já, þú þarft að mæta í vinnuna, hugsaði ég. Fólk sem vinnur við ræstingar getur ekki unnið heima hjá sér. Hverjir aðrir þurfa að mæta í vinnuna á þessum hættulegu tímum? Jú, rútubílstjórinn sem keyrði mig hingað. Kennarar. Heilbrigðisstarfsmenn. Fólkið sem annast gamla fólkið á dvalarheimilunum. Þótt mistur kórónaveirunnar liggi núna yfir framtíðarlandinu, óvissan um það sem koma skal sé algjör, þá dregur hún um leið svo margt annað skýrt fram í dagsljósið. 

Eins og til dæmis þetta, sem allir vita. Fólkið sem í dag þarf að fórna sér, fólkið sem er berskjaldað fyrir veirunni, fólkið sem getur ekki bara tekið símafund, er fólkið sem þarf í alvörunni að mæta í vinnuna alla daga, fólk sem vinnur samfélagi sínu raunverulegt gagn, fólk sem er ekki í bullstörfum, fólk sem á það sameiginlegt að vera á lágum launum. Hæst launaða fólkið í samfélaginu hins vegar, topparnir í viðskiptalífinu, bankageirinn, stjórnmálamenn, aðstoðarmenn stjórnmálamanna, ríkisforstjórar, millistjórnendur og svo framvegis, þurfa hins vegar ekki að mæta í vinnuna. Ef þeir ætla að mæta klukkan tíu í fyrramálið, þurfa að skreppa aðeins, eða vera heima eftir hádegi, eða hreinlega bara mæta ekki, þá eru allar líkur á því að ekkert gerist, afleiðingarnar verði engar, það skiptir á endanum engu sérstöku máli hvort þeir mæta eða ekki.

Skyldi eitthvað af þessu hafa breyst þegar plágan er afstaðin? Já, hverju skyldi plágan eiginlega geta breytt? Hvers er hún raunverulega megnug? Ætli það geti verið að íslenskt samfélag verði orðið jafnara og réttlátara þegar þokunni léttir? Skyldu allir þessir tugmilljarðar sem nú sogast upp úr vasa almennings skila sér á endanum í betra og sanngjarnara lífi fyrir þorra Íslendinga?

Já, hvers er plágan megnug að breyta?

Hér verður því spáð að þegar þessi plága er afstaðin, þá sé eitt sem ekki verður breytt, og það eru íslenskur ójöfnuður og íslenskir valdastrúktúrar. Sama fólk mun keyra lúxusjeppa í Leifsstöð á leiðinni í skíðaferð, og sama fólk verður áfram á sultarlaunum við að annast foreldra þess á meðan. Sama fólk mun fara með völdin, sama fólk verður valdalaust, sama fólk verður auðugt og sama fólk verður fátækt. 

Gripið verður til róttækra og fordæmalausra aðgerða til þess að ganga úr skugga um það að ekkert geti raunverulega breyst.

Nú á tímum sigrar allrasíst,
sá er trauðla öfgum verður háður.
Nýja-Ísland fæðist næsta víst,
nákvæmlega sem og það var áður.

Tengdar fréttir

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt II – ógerlegt að lifa spart

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt land

Pistlar

Ekkert er verra en góðar minningar

Pistlar

Að þrá úr fjarlægð