Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvernig þekkja má falsfréttir

Mynd: https://pixabay.com/p-1903774/?n / https://pixabay.com/p-1903774/?n

Hvernig þekkja má falsfréttir

17.05.2017 - 16:58

Höfundar

Í þriðjudagspistli sínum fjallar Karl Ólafur Hallbjörnsson um falsfréttir og þekkingu. Hann spyr: „Hvernig veit maður eitthvað? Hvernig veit maður hvað maður veit? Hvað vitum við með algjörri vissu og hvað vitum við bara líklega?“

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar: 

Þetta eru spurningar sem við getum að líkindum ekki svarað í einni svipan — engu fremur en aðrir hugsuðir sem hafa velt spurningum af þessu tagi fyrir sér í gegnum fyrnindin. Vinsælt hefur verið að gera greinarmun á þeirri þekkingu sem við öðlumst fyrir tilstilli skynfæranna og svo þeirrar þekkingar sem við komumst yfir án notkun skynfæranna. Stærðfræðileg þekking, til dæmis, heyrir undir þá síðari, meðan vísindaleg þekking heyrir undir hina fyrri. Við beitum ýmist skynfærum okkar til þess að athuga hvernig hlutir hegða sér í raunheiminum eða skynseminni sjálfri til þess að rannsaka sjálfa sig eða eigin hreyfingar, nánar tiltekið.

En þessar pælingar eru of óhlutstæðar til þess að eiga erindi við okkur í dag. Frekar vil ég pæla í því hvernig við meðaljónin getum öðlast þekkingu sem við þurfum ekki að efast of mikið um, þekkingu á raunheiminum og sannleikanum innan um allar pólitísku sögurnar sem hagsmunaaðilar segja okkur, þekkingu á sjálfum okkur og fólkinu í kringum okkur og svo framvegis og svo framvegis. Sérstaklega hefur vaknað upp þörf á því að hafa fasta og nokkuð örugga persónulega þekkingarstaðla upp á síðkastið. Svokallaðar falsfréttir, fyrirbæri sem á ensku kallast Fake News, hafa í sumum tilfellum veitt öfgafullu stjórnmálafólki yfirhöndina í lýðræðislegum kosningum, meðvitað dreifandi misvísandi upplýsingum undir flaggi fjölmiðla og trúverðugri fréttaveita.

Deilingar ljá falsfréttum trúverðugleika

Falsfréttirnar eru vægast sagt gífurlega skaðlegar lýðræðislegum samfélögum, forsendur hverra eru örugg og sönn miðlun atburða í gegnum fréttaflutning og aðra fjölmiðlun. Þegar einhver skrifar falsfrétt er hann því að gera öllum aðeins erfiðar fyrir að lifa í því sem kalla mætti frjálst og opið samfélag. Hins vegar er ábyrgðin ekki öll þeirra megin. Það er því miður ekki svo einfalt. Falsfréttirnar lifa nefnilega aðeins góðu lífi að því leyti sem þeim er dreift, hratt og stuttlifað, gegnum samfélagsmiðla. Þegar einhver smellir á deila-takkann við falsfrétt er hann því ekki aðeins að tryggja að hún fari þó ekki nema aðeins á flug, heldur er hann einnig að ljá falsfréttinni ákveðinn trúverðugleika eða vægi. Fólk, nefnilega, gerir oftast ráð fyrir því að þeir sem fréttinni deila telji sig gera það í fullum vitsmunalegum rétti og í góðri trú — og þannig myndast einskonar þögult samkomulag þar sem allir deila einfaldlega frá þeirri fréttaveitu sem þeir telja trúverðugastar og allir aðrir gera ráð fyrir að það sé að líkindum eitthvað sannleikskorn í fréttaflutningnum.

Það er á þennan hátt sem ég tel að falsfréttir nái ákveðnu flugi — í gegnum deilingar vel meinandi fólks sem er svo samþykktur af öðru fólki sem er tregt til að vera gagnrýnið á trúverðugleika fréttaflutnings af ótta við að þeirra eigin trúverðugleiki verði næst fyrir gagnrýnissveðjunni. Annar þáttur sem sumum, eins og til dæmis frjálslyndu stuðningsfólki Hillary Clinton, fannst bera ábyrgð á því hvernig fór fyrir málum í kjölfar forsetakosninga Bandaríkjamanna voru flokkunaralgrím og fréttaveitur samfélagsmiðilsins Facebook. Þeim fannst sem það ætti að koma á hlut samfélagsmiðilsins að flokka og eyða þeim fréttum sem ættu ekki við staðreyndir að styðjast.

Mynd með færslu
 Mynd: .
InfoWars er ein af fjölmörgum vefsíðum sem Wikipedia flokkar sem falsfréttir.

Eins vandkvæðasöm og þessi krafa yrði í praxís er hún þó einnig frekar yfirborðskennd lausn og ekki vænleg til langtímaárangurs. Þótt til séu ósvífnir falsfréttamenn sem skrifa meinlegar fréttir skiptir það ekki jafn miklu máli og fólkið sem býr ekki yfir svo miklu sem snefli af gagnrýninni hugsun og deilir áfram þruglfréttum sem eiga ekki við neinar staðreyndir að styðjast. Það er þessi þáttur, þekkingar- og menntunarþátturinn, skilningur á eðli frétta, sem skiptir allra mestu máli, og sannarlega róttæk lausn tæki á þeim skorti með bættu menntakerfi eða einhverju álíka.

Vafasamar fréttir grassera í lokuðum hópum

Falsfréttafaraldurinn er ekki jafn skæður á Íslandi og hann er annarsstaðar, sér í lagi í Bandaríkjunum, en af og til sér maður fólk deila hlutum sem eru augljóslega vafasamir ef ekki beinlínis bersýnilega falskir. Sérstaklega grasserar þessi menningarkimi falsfrétta innan tiltölulega lokaðra hópa fólks sem deilir sömu skoðunum og myndar og staðfestir skoðanir sínar aðeins með tilliti til afstöðu annars fólks — eins og í Facebookhópum fyrir fólk með sambærilegar stjórnmálaskoðanir eða lífsafstöðu. Ég hef þó séð fréttir af falssíðum notaðar hér og þar á opinberum svæðum — og mér er sérstaklega minnisstætt að hafa séð fyrrverandi þingmann af Alþingi okkar Íslendinga deila vægast sagt vafasamri frétt fyrir tiltölulega skömmu síðan. Það ætti til að mynda að vera lágmarkskrafa okkar sem lýðræðissamfélag að sjá til þess að fulltrúar okkar á þingi gleypi ekki við slíkri augljósri ekkisens þvælu.

En hvað getum við gert, við einstaklingarnir sem erum að berjast við að afla okkur sem nákvæmastrar þekkingar um samfélagið sem umlykur okkur? Hvernig getum við verið viss um hvort falsfréttir sé að ræða eður ei? Höfum við óbreyttu borgararnir einhver úrræði til að vinna með í þessum efnum — eða erum við eins og peð sem látum einfaldlega ráðskast með okkur, föst í greipum huldufólks sem viðhefst bak við tjöldin? Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé til einföld leið til þess að vera gagnrýninn og upplýstur samfélagsþegn. Hún er í nokkrum liðum, sem ég vil telja upp og ræða stuttlega.

Leitið að fleiri fréttum

Til að byrja með er sjaldnast gáfulegt að deila frétt sem maður er hvorki búinn að lesa vandlega í gegn eða í sumum tilfellum yfir höfuð— nokkuð sem margir brenna sig á, óskiljanlega — og að sama leyti er góð þumalfingursregla að henda í stutta Google-leit um málið á íslensku og ensku til þess að staðfesta að fleiri miðlar séu að fjalla um málið. Þetta tryggir að málið sé eitthvað sem allir eru að fjalla um, svo að tilvist þess að því leyti sem það er fréttaefni er í það minnsta ekki vafasöm. Fólk er þá að skrifa um atburðinn eða málefnið og fólk er að lesa um það. Ef fréttamiðillinn sem þú ert að lesa er bókstaflega sá eini sem er að fjalla um málið og sérstaklega ef margir tímar eða dagar séu liðnir síðan fréttin var birt þá eru allar líkur á því að þú sért að lesa óstaðfesta og falska þvælu.

Það sem þetta hefur líka í för með sér er að maður kemst í tæri við fleiri útgáfur af sömu fréttinni, og getur metið muninn milli einstakra frétta. Þannig getur maður verið handviss um meginþætti fréttaefnisins og samtímis séð hvaða aukalegu smáatriði eru vafasöm milli miðla og upplýsingagæða. Auðvitað er möguleiki á því að ein saga fari eins og eldur um sinu milli allra fréttamiðla og sé nokkurn veginn eins milli þeirra allra áður en það kemur í ljós að frumheimildir allra miðlanna voru uppspuni frá rótum. Þegar þetta gerist getum við neytendur fréttanna í það minnsta huggað okkur við þá staðreynd að það hafi verið miðlarnir sjálfir sem klúðruðu starfi sínu, og að ekki sé við okkur lesendur að sakast að hafa verið göbbuð eða misskilið málavexti. Sem betur fer gerist þetta síður en svo oft.

Bíðið með að deila

Að lokum er ein regla sem er að mínu mati mikilvægust: að bíða með að deila fréttinni sama hversu spennandi eða krassandi hún er, að minnsta kosti þar til maður hefur fengið nokkuð staðfest að eitthvað sé til í henni. Það liggur ekkert á að deila frétt á Facebook — maður þarf ekki að vera fyrstur. Síður en svo. Maður ber heldur enga ábyrgð á því að annað fólk lesi fréttina sem um ræðir — við getum gert ráð fyrir og réttilega svo að þau séu fær um að afla sér upplýsinga af sjálfsdáðum, verandi meðlimir lýðræðislegs upplýsingasamfélags. Það er miklu mikilvægara að vera gagnrýninn og óviss um gæði fréttarinnar sem maður var að lesa en að vera sá sem deilir, sá fyrsti til að sýna öllum öðrum. Ef allir færu sér örlítið hægar í þessum hreyfingum værum við að ég tel komin langleiðina við að gera út af við falsfréttir og öll skaðlegu áhrifin sem þær hafa í för með sér.

Þessar þumalputtareglur miða aðeins að því að gera okkur kleift að vera gagnrýnin á okkar eigin hegðun, og eins og ég segi væri vandamálið afar smátt ef allir gætu fylgt þeim af sjálfsdáðum. Svo er hins vegar ekki. Allt of margir vita ekki hvað er í húfi við fréttaneyslu okkar og deilihegðun, fullyrða stórt og gleitt og geta haft verulega skaðleg áhrif á gæði lýðræðisins sem við búum öll við. Það er þá sem okkur ber nánast borgaraleg skylda til þess að rökræða við þetta fólk, rífa kjaft ef þess þarf, koma á þrætum um frétta- og staðreyndagildi frásagnarinnar sem um ræðir. Þetta krefst hins vegar hugrekkis, tíma og ákveðinnar þjálfunar í grundvallarretórík og rökhugsun, svo ekki er hægt að búast við því að allir séu tilbúnir að rökræða allt í þaula við alla. Engu að síður ber okkur að berjast gegn fáfræði og lygasögum eftir okkar bestu getu, að ég tel, og reyna að komast að sannleikanum í þágu almannaheilla.

En hvaða sannleik erum við að tala um? Sannleik hvers, og til hvers? Nú erum við komin hringinn, aftur byrjuð að pæla í þekkingarfræðilegum forsendum sannleikans sjálfs, og ég held að það sé komið gott hjá okkur í bili. Áður en þið segið fólki frá því sem ég talaði um hér í dag skuluð þið þó hugsa ykkur vel og vandlega um: ætli pistillinn hafi búið yfir einhverju sannleikskorni?

Tengdar fréttir

Erlent

Ætla að sleppa aprílgabbi vegna falsfrétta

Norður Ameríka

Bildt segir Trump flytja falsfréttir