Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvernig komst einn maður yfir þetta allt?

Mynd: RÚV / Steinsteypuöldin

Hvernig komst einn maður yfir þetta allt?

07.11.2019 - 09:21

Höfundar

„Það þekkja allir þessar byggingar, þær eru margar orðnar tákn fyrir stofnanir og staði; Háskóli Íslands, Hallgrímskirkja er eitt helsta tákn Reykjavíkur og Akureyrarkirkja fyrir Akureyri. En það eru kannski færri sem gera sér grein fyrir því að sami maðurinn hafi skapað öll þessi form,“ segir Pétur Ármannsson arkitekt og fræðimaður um gríðarlegt lífsstarf Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

„Það er í rauninni alveg ótrúlegt hverju þessi maður afkastaði og náði í gegn, þó að hann hafi auðvitað ekki gert allt sem hann setti fram,“ segir Pétur Ármannsson í viðtali í Víðsjá á Rás 1 en sýning á verkum Guðjóns Samúelssonar er nú uppi í Hafnarborg í Hafnarfirði. Yfirlitssýningin er sett upp í tilefni þess að nú er öld liðin frá því í að Guðjón lauk háskólaprófi í byggingarlist árið 1919 og var í framhaldinu skipaður húsameistari ríkisins.  

Pétur Ármannsson er annar tveggja sýningarstjóra og hefur undanfarin ár helgað sig rannsóknum á störfum Guðjóns Samúelssonar og stefnir að því að gefa út tveggja binda rit um hann á næsta ári. 

Goðsögn

Pétur segir nafn húsameistarans hafa yfir sér goðsagnakenndan blæ. Guðjón hafi verið frumkvöðull á mörgum sviðum og átti veigamikinn þátt í nútímavæðingu íslensks samfélags.

„Það er sérstaða sýninga um byggingarlist er að maður er ekki að sýna listhlutinn sjálfan heldur er maður að sýna vitnisburð um tilurð hans og þá huglægu vinnu sem liggur að baki,“ segir sýningarstjórinn en á sýningunni eru teikningar, ljósmyndir, líkön, og fleiri gripir sem tengjast lífi og starfi Guðjóns.

Einnig er vitnað til orða hans um eigin störf en Guðjón var hins vegar alla tíð dulur á persónulega hagi sína. „Hann helgaði sig starfinu en það er svo merkilegt með þennan fræga mann að allt sem snýr að hans eigin persónu er að miklu leyti sveipað dulúð. Hann skildi ekki eftir nein persónuleg bréf eða dagbækur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arkitektafélag Íslands
Hrein form í Sundhöllinni í Reykjavík.

Lagði grunn að nútímanum

Pétur segir að Guðjón hafi haft gríðarlega metnað fyrir hönd Íslendinga. „Hann skynjaði sitt mikilvægi sem fyrsti fagmaður hér á landi á þessu sviði til þess að sýna fram á Ísland væri þjóð meðal þjóða í menningarlegum skilningi.  Hann er hluti af tæknivæðingu og innviða uppbyggingu landsins. Hann var viss um að fallegt umhverfi væri forsenda fyrir því að skapa gott samfélag. Hann leit svo á að hann væri að leggja gruninn að nýrri þéttbýlis- og bæjarmenningu á Íslandi.“ 

Nánari upplýsingar um sýninguna Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins má nálgast á heimasíðu Hafnarborgar en einnig verður fjallað um sýninguna í þættinum Lestarklefanum á föstudag kl. 17:03 á Rás 1 og menningarvef RÚV. Þar ræða Anna Lea Friðriksdóttir, Loji Höskuldsson og Samúel Jón Samúelsson um sýninguna, nýjustu plötu hljómsveitarinnar Grísalappalísu sem heitir Týnda rásin og kvikmyndina Laundromat eftir Steven Soderberg sem fjallar um Panama-skjölin.