Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvernig Björn Bragi snýr aftur

Mynd: Tix.is / Tix.is

Hvernig Björn Bragi snýr aftur

17.09.2019 - 14:40

Höfundar

Björn Bragi Arnarsson skemmti fyrir fullu húsi í Gamla bíói um helgina á uppistandssýningu undir nafninu Björn Bragi Djöfulsson, tæpu ári eftir að myndband af honum káfa á 17 ára stúlku fór á kreik. Hvernig snýr svo umdeildur maður aftur, eftir að hafa verið nappaður við kynferðislega áreitni? Björn Bragi er auðvitað ekki sá fyrsti til að gera það.

Viðvörun: textinn hér að neðan, sem og innslagið hér að ofan inniheldur spilliefni úr sýninguninni Björn Bragi Djöfulsson. 

Þeir Louis CK og Azis Ansari eru dæmi um þekkta grínista sem þurft hafa að svara fyrir misgjörðir sínar á síðustu misserum. Stigsmunur er á ásökununum í þeirra garð; Louis CK gekkst meðal annars við því að hafa misnotað áhrifastöðu sína og fróað sér fyrir framan konur en Ansari þrýsti ítrekað á konu að stunda með sér kynlíf, þrátt fyrir að hún hafi sagt nei. 

Mörgum þótti hegðun Ansari ekki til þess fallinn að fá á sig #metoo-stimpilinn svokallaða, hegðunin þótti eiginlega bara hversdagsleg og líklega er það einmitt vandamálið. Hann, rétt eins og Louis CK og Björn Bragi, gekkst þó við hegðuninni og dró sig í tímabundið hlé frá sviðsljósinu. 

Grófari en áður

Þegar CK sneri aftur, með 15 mínútna sett níu mánuðum eftir að ásakanirnar gegn honum komu fram, lét hann í fyrstu eins og ekkert hefði í skorist. Á mánuðunum sem liðu urðu brandararnir hans hins vegar grófari en áður. Hann gerði lítið úr hegðun sinni með línu um að finnast gaman að fróa sér og leiðinlegt að vera einn en tappann tók úr þegar hann gerði grín að unglingum sem lifðu af Parkland-skotárásina. 

„Ef þú þarft einhvern tíma að fá fólk til að gleyma því að þú hafir fróað þér,“ sagði grínistinn í setti mánuði síðar, „segirðu brandara um krakka sem voru skotnir.“

Mynd með færslu
Louis CK gerðist grófari í gríninu við endurkomu sína.

Hvíslað um góða fólkið

Endurkoma Azis Ansari var tekin upp fyrir Netflix. Ansari er þekktur fyrir orkumikla framkomu en í Netflix-þættinum situr hann mest allan tímann á barstól og nánast hvíslar í hljóðnemann. Hann opnar og lokar þættinum með umræðu um hneykslismál sitt, bæði með léttu glensi og á alvarlegu nótunum.  

Netflix-þátturinn er tekinn upp á eina einustu myndavél. Í stað jakkafatanna sem Azis klæddist í fyrri Netflix þætti sínum sem tekinn var upp í Madison Square Garden, er kominn afslappaður Metallica stuttermabolur. Öllu umhverfinu er ætlað að skapa nánd, upplifun af því að Ansari sé íhugull, þroskaðri. Breyttur maður. 

Ein stór breyting felst í því hvernig hann talar um það að vera „woke“. Þar sem áður fór einn mest „woke“ maður geirans situr sá sem fengið hefur að kenna á „góða fólkinu“ og lýsir því yfir að siðapostular gangi stundum of langt í netreiði sinni. Hann er kannski ekki að tala beint um reiðina sem hann upplifði, en hann er samt að tala um hana. 

Mynd með færslu
Azis Ansari kemur fram sem breyttur maður í Netflix þætti sínum.

„Gamlar mæður eru ekki hræddar við Björn Braga“

Nálgun Björns Braga á endurkomuna býr einhvers staðar á milli þeirra CK og Ansari en þó nær þeim síðarnefnda. Í flestum myndskeiðum sem finna má af uppistöndum Björns á netinu er hann til að mynda í upphnepptri skyrtu, jafnvel í jakkafötum, en á föstudaginn var hann örlítið afslappaðri. Í fráhnepptri köflóttri skyrtu yfir stuttermabol, við gallabuxur. Eins og áður sagði var Ansari einmitt í stuttermabol, Metallica stuttermabol, og Björn Bragi gekk á svið undir Metallica-laginu Sad but True.

Rétt eins og Ansari hóf hann settið með vísun í atvikið – eða öllu heldur í viðbrögðin við því – þegar hann talaði um kosti þess að fá Önnu Svövu Knútsdóttur til að hita upp fyrir sig. Hún væri eftir allt ekki bara kona, heldur gömul kona og móðir – hann treysti þannig á góða umfjöllun, þó ekki væri nema: Gamlar mæður eru ekki hræddar við Björn Braga. Anna Svava tuskaði Björn rækilega til í sínu setti sem þýddi kannski að Björn þurfti ekki að gera það jafn mikið sjálfur. „Hann hefur aldrei klipið í píkuna á mér,“ sagði hún. Hún gaf í skyn að hún væri sár yfir skorti á áreitni í sinn garð og taldi upp þekkta misindismenn sem höfðu heldur ekki áreitt hana þrátt fyrir að hafa tækifæri til.

Salurinn hló dátt og hafði sérlega gaman af öllu gríni hennar á kostnað Björns Braga. Áhorfendur voru honum þó vinveittir og kannski ekki að undra. Þeir sem síður eru tilbúnir að hlæja með honum borga sig væntanlega ekki inn á sýningarnar hans. Fyrir hlé gerði Björn Bragi mikið grín að þeim viðbrögðum sem hann mátti þola þegar myndbandið umrædda komst í fréttirnar. Eftir hlé var minna púðri eytt í slíkt og meiri tíma varið í að kryfja hvað hann var skemmtilega lúðalegt barn og unglingur.

Hann dró reyndar upp myndskeið af síðasta atviki sem hann þurfti að biðjast afsökunar á, því þegar hann líkti islenska landsliðinu við nasista í EM stofunni 2014, og endaði á lagi sem fór yfir flest efni kvöldsins. Áður en að því kom hélt hann þó smá tölu um það að hann dæmi ekki fólk sem segir eða gerir heimskulega hluti. Það lendi nefnilega flestir í því, þess vegna eigi maður ekki að dæma fólk. Rétt eins og ræða Ansari snerist þessi predikun ekki beint um Björn sjálfan, eða allavega ekki um áreitnina á Hlöllabátum. En samt, gerði hún það.

Aftökur á samfélagsmiðlum

Í kjölfar #metoo er mikið rætt um hvernig hvaða áhrif það hefur að „taka menn af lífi“ á samfélagsmiðlum. Louis CK hefur kannski átt einna erfiðast uppdráttar af þessum þrem mönnum en hann hefur engu að síður átt afturkvæmt. Það sama má segja um Azis Ansari og Björn Braga. Þeir eru sprelllifandi og svo virðist sem ferill þeirra hafi ekki borið varanlegan skaða af.

Það var fullt hús á fyrstu sýningu Björns Braga og einnig var uppselt á þá næstu. Hneykslið sem hegðun hans olli var fóður í stóran hluta kvöldsins og hann þurfti ekki að sýna mikla einlægni eða eftirsjá á staðnum til að fá áhorfendur með sér í lið. Kannski var nóg að hann hafði gert það í viðtölum og yfirlýsingu fyrir sýninguna. Kannski skipti það marga engu máli til að byrja með.

Ferill Björns Braga sem uppistandara virðist allavega svo sannarlega eiga afturkvæmt. Næsta spurning snýr einna helst að því hvort hann eigi eftir að hætta að segja brandara um að vera útskúfaður eða hvort það verði varanlegur hluti af hans persónu. 

Tengdar fréttir

Björn Bragi hættir sem spyrill í Gettu betur

Dagskrárstjóri RÚV: Mál Björns Braga í skoðun

Innlent

Björn Bragi biðst afsökunar á hegðun sinni