Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hver er Jonas Eika?

Mynd með færslu
 Mynd: Lil B. Wachmann

Hver er Jonas Eika?

30.10.2019 - 16:48

Höfundar

Jonas Eika, 28 ára gamall rithöfundur, hlaut á þriðjudag virtustu bókmenntaverðlaun Norður-Evrópu. Honum tókst að varpa skugga á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs með þakkarræðu sinni, þar sem hann hélt reiðilestur yfir norrænum ráðamönnum.

Danski rithöfundurinn Jonas Eika steig síðastur upp á svið í röð verðlaunahafa þegar Norðurlandaráð hélt árlega verðlaunahátíð sína. Í þakkarræðu sinni gagnrýndi hann danska ráðamenn, einkum Mette Frederiksen forsætisráðherra sem var viðstödd athöfnina og sat steinrunnin undir lestrinum.

„Ég beini orðum mínum að forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, sem stendur fremst í stafni jafnaðarstefnunnar, og hefur komist til valda með því að taka við rasísku orðfæri og stefnu fyrri ríkisstjórnar,“ sagði Eika í ræðunni og hélt áfram. „Mette Frederiksen kallar sig forsætisráðherra barnanna en rekur utanríkisstefnu sem sundrar fjölskyldum, hneppir þær í fátæktargildru og veldur því að bæði börn og fullorðnir verða fyrir langvarandi niðurbroti og ofbeldi í svokölluðum brottvísunarstöðvum landsins.“

Mynd: SVT / SVT
Ræða Jonas Eika á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2019.

Ræða hans hefur vakið mikla athygli og sitt sýnist hverjum. Pia Kjærsgaard, fyrrverandi forseti danska þingsins, segir að Jonas eigi að skammast sín og hann sé trúðslegur rithöfundur.

Mette Frederiksen er sjálf ekki sammála höfundinum, sem ætti ekki að koma á óvart. „Ég ætla ekki að eiga í deilu við verðlaunahafa á annars hátíðlegu og ánægjulegu kvöldi,“ sagði hún á blaðamannafundi eftir verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs.

En hver er þessi ungi rithöfundur sem tekist hefur svo hressilega að ýfa fjaðrir norrænna ráðamanna?

Stuttur en gifturíkur ferill

Jonas Eika er fæddur í Haslev í Danmörku árið 1991. Ferill hans er ekki langur en samhliða ritstörfum hefur hann starfað sem stuðningsfulltrúi. Hann útskrifaðist frá Forfatterskolen í Kaupmannahöfn, einum þekktasta ritlistarskóla á Norðurlöndum, árið 2015 og gaf þá út sína fyrstu skáldsögu, Lageret Huset Marie.

Bókin er vinnustaðarsaga og fjallar um næturvaktafólk í hátæknivæddri birgðageymslu. Þar lýsir höfundurinn aðstæðum starfsfólks í gluggalausri byggingunni, áhrifunum sem vinnan og umhverfið hefur á sálarlíf og líkama þess, þar sem vinnan er að því er virðist endalaus og vaktaskiptin það eina sem brýtur upp daginn. Bókina byggir Eika á eigin reynslu sem lagerstarfsmaður. Þar kynntist hann vélvæddu umhverfi og fékk innsýn í sjálfvirkan heim steypu, stáls og stafrænu sem hann nýtti til að deila á kapítalískan veruleika og stöðu einstaklingsins innan hans. Bókin vakti eftirtekt og þótti afar góð frumraun.

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Eika hefur þegar unnið til fjölda verðlauna, þar má nefna verðlaun Bodil og Jørgen Munch-Christensens, sem veitt eru rithöfundum sem eru að taka sín fyrstu skref, árið 2016, Montanas bókmenntaverðlaunin, Michael Strunge verðlaunin og Den svære Toer verðlaunin árið 2018 og Blixen-verðlaunin í ár.

Arðrán og misrétti

Efter solen, bókin sem færir honum verðlaun Norðurlandaráðs og rúmar sex milljónir króna í verðlaun, er önnur bók hans. Hún kom út árið 2018 og samanstendur af fjórum löngum smásögum. Bókin þótti merkileg nýlunda í dönskum bókmenntum. Sögusvið hennar er í grunninn kunnuglegur veruleiki og gerist hún í Kaupmannahöfn, Mexíkó, Lundúnum og Nevada. Efter solen hefur verið lýst sem vísindaskáldskap þar sem höfundurinn dregur upp myndir af veruleika sem er svampkenndur og gegndræpur, í senn kunnuglegur og framandi. Í henni fjallar hann um arðrán og misrétti og eru sögurnar eftir því myrkar og ofbeldisfullar.

Mynd: norden.org / norden.org
Fjallað var um bókina í Orðum um bækur á Rás 1.

Jórunn Sigurðardóttir fjallaði um bókina í Orðum um bækur á Rás 1. „Höfundurinn Jonas Eika er svo flinkur við framsetningu þessara ólíkindaheima, gerir það af svo mikilli alvöru og nákvæmni og aukinheldur á einstöku og afar frumlegu tungumáli, að frásögnin rígheldur í öllum sögunum.“

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Pia Kjærsgaard: „Skammastu þín, Jonas Eika“

Tónlist

Gagnrýnir dönsk stjórnvöld fyrir kynþáttahatur

Umhverfismál

Greta afþakkar verðlaun Norðurlandaráðs

Tónlist

Gyða Valtýsdóttir fær verðlaun Norðurlandaráðs