Danski rithöfundurinn Jonas Eika steig síðastur upp á svið í röð verðlaunahafa þegar Norðurlandaráð hélt árlega verðlaunahátíð sína. Í þakkarræðu sinni gagnrýndi hann danska ráðamenn, einkum Mette Frederiksen forsætisráðherra sem var viðstödd athöfnina og sat steinrunnin undir lestrinum.
„Ég beini orðum mínum að forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, sem stendur fremst í stafni jafnaðarstefnunnar, og hefur komist til valda með því að taka við rasísku orðfæri og stefnu fyrri ríkisstjórnar,“ sagði Eika í ræðunni og hélt áfram. „Mette Frederiksen kallar sig forsætisráðherra barnanna en rekur utanríkisstefnu sem sundrar fjölskyldum, hneppir þær í fátæktargildru og veldur því að bæði börn og fullorðnir verða fyrir langvarandi niðurbroti og ofbeldi í svokölluðum brottvísunarstöðvum landsins.“