Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hver er bjartasta vonin 2020?

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett

Hver er bjartasta vonin 2020?

19.02.2020 - 14:42

Höfundar

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Silfurbergi í Hörpu miðvikudagskvöldið 11. mars, fyrir tónlistarárið 2019 sem var einstaklega blómlegt. Rás 2 hefur tilnefnt fimm flytjendur til verðlauna sem bjartasta vonin og þeir eru: Hipsumhaps, Gróa, krassasig, K. Óla og Zöe.

Hipsumhaps

Tvíeykið Hipsumhaps frá Álftanesi kom eins og þrumufleygur inn í íslenskt tónlistarlíf snemma í fyrra með fyrstu plötu sinni, Best gleymdu leyndarmálin. Platan, sem mætti flokka sem indípopprokk, hefur fengið mikla spilun víða og hefur Hipsumhaps haldið nokkra tónleika sem hafa verið vel sóttir. Textarnir hafa fengið mikið lof þar sem þeir fjalla um hversdagsleikann, ástina og lífið sem þá langar í. 


Gróa

Þessi þriggja kvenna pönksveit hefur verið að gera það gott síðan hún kom fyrst fram á Músíktilraunum árið 2017. Þær spila heiðarlegt pönk, eða eins og Arnar Eggert sagði í dómi, „Gróa er alvöru pönkhljómsveit.” Gróa á að baki tvær breiðskífur, Gróa og Í glimmerheimi og er hluti af hinum gróskumikla jaðartónlistarhópi post-prenti. Seinni plata hljómsveitarinnar, Í Glimmerheimi, hlaut hin virtu Kraumsverðlaun í fyrra. 


Krassasig

Kristinn Arnar hefur verið að gera það gott síðan hann gaf út plötuna Mmmm með hljómsveitinni og fjöllistahópnum Munstri. Nú er hann sóló undir listamannsnafninu Krassasig og gerir einstaklega vandað popp. Lögin Brjóta heilann og Hlýtt í hjartanu náðu bæði miklu flugi á Rás 2 og streymisveitum. Krassasig var þar að auki valinn af Landsbankanum til að spila á Iceland Airwaves í fyrra.


K.óla

Katrín Helga Ólafsdóttir, K.óla, gaf út sína fyrstu breiðskífu í fyrra, plötuna Allt verður alltílæ sem hlaut Kraumsverðlaunin. Katrín hefur verið með hljómsveitinni Milkhouse þar sem hún spilar á hljómborð og syngur. Hún er sömuleiðis hluti af listhópnum postdreifingu og gerir metnaðarfulla rafpopptónlist með skondnum textum. K. Óla rataði á lista The Grapevine Music Awards 2020 í flokknum “You should have heard this” og stefnir á að gefa út plötuna Plastprinsessan vaknar á þessu ári. 


Zöe

Zöe Ruth Erwin er einstaklega fær upptökustjóri og lagahöfundur. Hún vakti fyrst athygli fyrir lagið Let Me Fall sem hún samdi fyrir kvikmyndina Lof mér að falla eftir Baldvin Z. Þá hefur hún samið og tekið upp tónlist fyrir annað tónlistarfólk á borð við Elísabetu Ormslev. Undanfarið hefur Zöe einnig kennt námskeið í upptökutækni og hljóðblöndun. Hún skapar áhugaverðan og myrkan hljóðheim af einskærri snilld og hefur vakið athygli fyrir lögin sín Summer Funeral og Aint Gonna Rain Anymore. 

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Tónlist

Íslensku tónlistarverðlaunin 2019

Tónlist

Hver er bjartasta vonin 2019?