Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvatti Samherja til að upplýsa um sinn þátt í málinu

13.11.2019 - 21:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra telur ekki vafasamt að hann sem ráðherra hafi haft samband við forstjóra Samherja eftir að Stundin hafði samband við hann í tengslum við umfjöllun um Samherjaskjölin. Hann hafi hvatt „til þess að fyrirtækið gangi fram og upplýsi um sinn þátt í þessu leiðinda máli“. Kallað sé eftir því að fyrirtækið svari fyrir þær ávirðingar sem bornar séu á það.

Kristján Þór var stjórnarformaður Samherja fyrir 19 árum og er æskuvinur Þorsteins Más Baldurssonar, forstjóra fyrirtækisins. Hann segist hafa farið í höfuðstöðvar Samherja árið 2014 út af persónulegu erindi og hitt Namibíumennina, sem voru til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik í gær á leiðinni út. Hann hafi ekkert vitað um það í hvaða erindagjörðum þeir voru þarna. 

Hér má horfa á Kastljós í heild. 

„Ég sagði það strax og mér var trúað fyrir þessu vandasama embætti að ef einhver álitamál kæmu upp á mitt borð sem sjávarútvegsráðherra varðandi þetta fyrirtæki, þá myndi ég að sjálfsögðu óska eftir því að það verði gerð einhver úttekt á hæfi mínu til þess að takast á við það. Og ef einhver vafamál kæmu upp þá myndi ég segja mig frá því máli. Hingað til hefur ekkert verið kvartað undan embættisfærslu minni í þessu starfi.“ 

Gagnrýnt hefur verið að Samherji heldur á 15 prósentum á öllum aflaheimildum á Íslandi. Hámarkið er 12 prósent. Þetta er Samherji, Bergur-Huginn, Útgerðarfélag Akureyrar og Síldarvinnslan. Af hverju er ekki brugðist við því? „Ég hef víst brugðist við því. Skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir um meðal annars þennan þátt fiskveiðieftirlitsins. Ég setti á fót stóran starfshóp og stóran bakhóp við hann undir forystu fyrrverandi ríkisendurskoðanda. Þau eiga að skila mér tillögum til úrbóta á þessu regluverki. Ég kann ekki skýringar á því hvers vegna þetta hefur ekki verið gert á árum áður en ég hef tekið á í þessu máli.“

Heldur þú að almenningur treysti þér til þess að sinna þessu starfi í ljósi tengsla þinna við Samherja? Kristján segir að engin ný vitneskja sé fólgin í því að hann hafi verið stjórnarformaður fyrirtækisins fyrir um tveimur áratugum. Hann sé fyrsti þingmaður kjördæmisins og hafi hlotið það umboð í síðustu kosningum. 

Kristján segir að ljót mynd hafi verið dregin upp af starfsemi Samherja í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld. „Ég hef ekki dregið neina dulu á það. Það er sorglegt að horfa á þetta og það er gríðarlega mikilvægt að þetta verði rannsakað og allir hlutir dregnir upp á borð. Sem betur fer erum við með eftirlitsstofnanir sem eru þegar byrjaðar að vinna í málinu. Við erum með héraðssaksóknara og skattrannsóknastjóra sem eru byrjuð að vinna í málinu áður en þátturinn er sendur út. Ég treysti því að þessar stofnanir vinni að því að samkvæmt því regluverki sem að stjórnvöld hafa dregið upp og meginreglan verður að vera sú, hvort heldur að það er þetta mál eða einhver önnur, að við rannsökum mál og sjáum þá á grundvelli rannsókna hvort það sé tilefni til ákæru og ef svo er þá verður að draga viðkomandi fyrir dóm. Þannig eigum við að vinna og standa vörð um það vinnulag.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV