Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvasst og flughált víða um land

19.01.2020 - 08:21
Innlent · Ófærð · Óveður · veður
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Útlit er fyrir hvassviðri eða storm með vætusömu veðri í dag, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Austanlands rofar til eftir hádegi og þar verðu rjafnframt hlýjast. Búast má við að hiti mælist þar yfir 10 stig í hnjúkaþey á völdum stöðum. Enn er óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum og líkur á töluverðum vatnavöxtum á sunnan- og vestanverðu landinu í dag og á morgun.

Vegna vætu og hláku er bent á það í spá Veðurstofunnar að leysingar- og regnvatn þurfi að komast leiðar sinnar og því þurfi að ganga úr skugga um að fráveitukerfi virki sem skyldi til að forðast vatnstjón.

Flughálka getur myndast þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó. Heldur dregur úr vindi í kvöld og fer að kólna á landinu. Á morgun er spáð hvassri suðvestan átt, með éljum en bjartviðri um landið austanvert. Hiti nálægt frostmarki. 

Ekki hafa verið verið vandamál vegna vatnavaxta eða óveðurs í nótt, samkvæmt uppkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Vestfjörðum og á Akureyri. Mjög hvasst hefur verið í nótt víða um land og veðurviðvaranir í gildi. Varað hafði verið við mikilli úrkomu og leysingum. 

Flughált er á Kjósarskarðsvegi, Krýsuvíkurvegi og á Grafningsvegi efri, Sólheimavegi og Skálholtsvegi, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Á Vesturlandi er þungfært á Vatnaleið og Fróðárheiði, flughált í Svínadal og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum er víða flughált, eins og í Önundarfirði, Dýrafirði Strandavegi og Innstrandavegi og í Reykhólasveit í Brjánslæk. Þungfært er á Hálfdán og Kleifaheiði. Á Þröskuldum er flughált og hvassviðri og á Gamlufallsheiði er ófært vegna flughálku og veðurs. Búið er að opna Flateyrarveg og Súðavíkurhlíð. Flughált er á Steingrímsfjarðarheiði.

Á Norðurlandi er flughált á Þverárfjallsvegi og mjög hvasst, annars staðar á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á vegum.

Á Norðausturlandi er flughált frá Lóni í Kópasker og á Hófaskarði og Hólasandi.

Á Austurlandi er flughált á Upphéraðsvegi í Fellabæ og á Egilsstöðum að Eiðum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir