Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvasst í dag og vegir víða lokaðir

01.03.2020 - 07:54
Mynd með færslu
Fjarðarheiði. Mynd úr safni. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Áfram verður hvasst á landinu í dag, sérstaklega við Suður- og Suðausturströndina og í Skagafirði, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Gular viðvaranir verða í gildi víða um landið í dag. Vindhraði verður víða 13 til 20 metrar á sekúndu og þar sem ekki hefur hlánað aðeins ofan í snjó skefur mjög auðveldlega, það gæti átt við inn til landsins og á fjallvegum.

Alvanalegt er í austanátt að vindhviður nái sér á strik í Öræfum og undir Eyjafjöllum og hafa vindhviður í Sandfelli í Öræfum farið í allt að 50 metra á sekúndu í nótt. Á Suðausturlandi tók viðvörunin gildi í gærkvöld og stendur til miðnættis. Einnig gæti hvesst verulega á Kjalarnesi og við Hafnarfjall síðar í dag.

Gul viðvörun er í gildi í á Ströndum og Norðurlandi vestra og verður til miðnættis. Þar geta hviður farið í allt að 40 metra á sekúndu við fjöll. Sums staðar verður skafrenningur og varasöm akstursskilyrði.

Á Miðhálendinu verður austan 15 til 25 metrar á sekúndu, él eða skafrenningur og slæmt ferðaveður. Þar verðru gula viðvörunin í gildi frá 20:00 í kvöld til miðnættis.

Á Suðurlandi er spáð 18 til 25 metrum á sekúndu í dag, stöku skúrir eða él og sums staðar skafrenningur.

Á Faxaflóa tekur viðvörunin gildi á hádegi. Þar spáir suðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu en að hvassara verði í vindstrengjum vikð fjöll. Sums staðar skafrenningur og varasöm akstursskilyrði.

Svipað veður verður á landinu á morgun, en svo verður heldur rólegra veður þegar líður á vikuna.

Vetrarfærð í öllum landshlutum og ófærð

Vetrarfærð er í öllum landshlutum. Ófært er um Hófaskarð á Norðausturlandi. Þjóðvegur 1 um Mývatnsöræfi og Möðrudalsöræfi er lokaður og sömuleiðis Vopnafjarðarheiði. Fjarðarheiði er einnig lokuð. Nýjar upplýsingar um stöðuna á þessum vegum berast þegar líður á morguninn.

Á Suðausturlandi hefur þjóðvegi 1 yfir Skeiðarársand og í Öræfasveit verið lokað, frá Fosshóteli á Núpum að Jökulsárlóni. Veginum frá Markarfljóti að Vík var lokað um klukkan 09:45 í morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: vedur.is

Fréttin hefur verið uppfærð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir