Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvar eru þessir frjálsu markaðir?

Mynd: Pexels / Pexels

Hvar eru þessir frjálsu markaðir?

21.11.2019 - 09:43

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson fjallar um ástarsamband auðæfa og ríkisvalds.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Farðu í venjulegt partí á Íslandi og það eru allar líkur á því að það verði Doritos á boðstólum. Farðu í partí í einhverju öðru landi og það eru hér um bil engar líkur á því að þar verði borið fram Doritos í skál. Þetta er þjóðarsnakkið okkar sem við treystum á gegnum súrt og sætt, enda kostar pokinn innan við 200 kall. Þegar ég var í menntaskóla man ég eftir því að hafa staðið furðu lostinn fyrir framan búðarrekkana og velt þessu fyrir mér: Af hverju er allt snakk svona ofboðslega dýrt, nema Doritos? Af hverju er það langódýrast? Er þetta ekki framleitt í annarri heimsálfu? Svo sá ég ljósið dag einn. Svarið bara kom til mín, þar sem ég stóð kjamsandi með poka af Nacho Cheese í hönd og virti fyrir mér umbúðirnar. „Þetta eru maísflögur!“ Það hlaut að vera ástæðan fyrir því að Lays snakk kostaði 798 krónur en Doritos 165. Lays voru kartöfluflögur. Það hlutu að vera til einhverjir íslenskir kartöflukapítalistar sem ríkið verndaði með því að setja ofurtolla á innfluttar kartöfluflögur. En það gilti ekki um maís. Það voru engir maískapítalistar á Íslandi.

Eitt af því sem kemur fram í Samherjaskjölunum er að fyrirtækið hafi ekki viljað keppa um kvóta á markaði í Namibíu, því það hefði verið of dýrt. Til var mun ódýrari leið, sem var að fara beint gegnum sjávarútvegsráðherrann, sem jafnframt hafði vald til þess að breyta tonnum á hvern aðila eftir geðþótta. Þarna voru mættir íslenskir mittisúlpukapítalistar á höttunum eftir kvóta og vitaskuld var það síðasta sem þeim datt í hug að taka þátt í einhverju sem kallast gæti frjáls markaður. Nei, það var auðvitað alltof dýrt – miklu ódýrara að fara bakdyraleiðina gegnum ráðherra með geðþóttavald og sleppa þannig við vesenið og kostnaðinn sem fylgir frjálsum markaði.

Augljóslega voru þeir ekki vanir frjálsum markaði heldur hér í Norður-Atlantshafi, þar sem þeir hafa ávaxtað sitt pund dyggilega studdir og varðir af ríkisvaldi sem upphaflega gaf þeim auðlind hafsins og er tilbúið að beita annað fólk ofbeldi ef það lætur sér detta í hug að anda á hlunnindi þessarar ofurauðstéttar. En sú staðreynd að auðmenn kæri sig lítið um frjálsa markaði þegar þeirra eigin hagmunir eru í húfi, er auðvitað ekki bundið við Samherjamenn. Þetta er heilkenni sem einkennnir hegðun stórfyrirtækja. Þau tala fyrir mikilvægi frjálsra markaða og takmarkaðra ríkisafskipta, en þegar til kastanna kemur, þá vilja þau að ríkið skýli hlunnindum þeirra og verndi þau frá óvissu, ófyrirsjáanleika og samkeppni hins frjálsa markaðar. Þess vegna vilja þau eiga „sinn mann í ríkisstjórninni“ – þau vilja barnfóstruríki fyrir sig sjálf.

Á hjálpardekkjum skattgreiðenda

Fyrr í mánuðinum sagði fyrrverandi forstjóri og eigandi hins fallna WOW air að það hefði verið mun hagkvæmara fyrir íslenska ríkið „að koma að björgun WOW air“ en að sjá á eftir flugfélaginu hverfa ofan í niðurfall markaðarins með tilheyrandi atvinnumissi fyrir fjölda fólks. Ég hef nákvæmlega engar forsendur til að meta það. Það má vel vera að þetta flugfélag hefði reynst skattgreiðendum aðeins léttbærara ef ríkið hefði bjargað því. Reyndar held ég að WOW-ævintýrið hefði verið hagkvæmast fyrir okkur öll ef flugfreyjur, flugþjónar, flugstjórar og flugvirkjar og svo framvegis hefðu fengið að taka þátt í ákvörðunartöku fyrirtækisins. Eitthvað segir mér að þá hefði það ekki sturtað sjálfu sér svona hratt niður. En það sem skiptir máli er að hér talar maður sem augljóslega er ekki sáttur við lögmál og afleiðingar frjáls markaðar. Hann vildi fá að reka flugfélag á hjálpardekkjum skattgreiðenda í alþjóðlegri samkeppni. Og kannski ekki að ósekju. Fjöldi flugfélaga út um allan heim, sem WOW var í samkeppni við, er annaðhvort ríkisrekinn eða þiggur reglulega hjálp frá ríkinu. 

Eitthvað segir mér hins vegar að í hliðarveruleika þar sem WOW air gekk vel og skilaði milljónahagnaði, hefði forstjórinn ekki skrifað Facebook-færslu um að það væri eðlilegt að íslenskir skattgreiðendur nytu góðs af því vegna þess að þeir stæðu straum af alls konar kostnaði og innviðum sem flugfélagið reiddi sig á og mynduðu það samfélag sem hýsti starfsemi þess. Nei, eitthvað segir mér að honum hefði þótt fullkomlega eðlilegt að sitja einn að þeim arði. 

Þetta er það sem kallað er „too big to fail“, það er að segja ríkistrygging fyrir rekstri stórfyrirtækja, einkavæddur gróði, en sósíalískt tap, og náði epískum hæðum í efnahagshruninu 2008. Það er að segja: Eigendur stórfyrirtækja sitja einir að þeim gróða sem áhættustarfsemi þeirra getur skapað eða gerir kleift að skálda upp, en almenningur situr uppi með tapið þegar illa fer. Þetta fyrirkomulag er svo eitt og sér hvati til þess að stunda enn þá meiri áhættuhegðun í rekstri, því þegar á botninn er hvolft mun tjónið ekki lenda á þeim sem taka áhættuna. 

Við höfum reyndar lært ýmislegt

En mýtan um dýrð hinna frjálsu markaða er lífsseig. Daginn eftir umfjöllunina örlagaríku um ævintýri Samherja í Namibíu birtust greinar eftir þingmenn og ráðherra íslensks hægri flokks á síðum Morgunblaðsins. Tilefnið var 30 ára afmæli falls Berlínarmúrsins. Þessir kjörnu fulltrúar voru annars vegar sammála um að sósíalismi væri fullreyndur og gjaldþrota hugmynd og svo hins vegar að það væri mikilvægt að við hættum aldrei að berjast fyrir frjálsum mörkuðum og stæðum traustan vörð um markaðshagkerfið, eða kapítalismann. 

Það var óneitanlega svolítið sérstakt að lesa þetta morguninn eftir uppljóstrunina um Samherja. Græskulaus lesandi gat ekki annað en spurt sig: Hvaða frjálsu markaði? Hvað eigið þið eiginlega við með frjálsum mörkuðum? Þið tilheyrið stjórnmálaflokki sem hefur ráðið öllu á Íslandi síðan ég lærði að tala og hann einblínir fyrst og fremst á að halda íslenskum mörkuðum kirfilega lokuðum og læstum með tilheyrandi ríkisinngripum og ofbeldi, allt saman svo tilteknir valdir aðilar og fyrirtæki geti mergsogið almenning í friði hvort sem það er gegnum niðurgreiðslur, styrki, skattaundanþágur, tilgangslaus gæluverkefni eða varinn einkarétt á nýtingu auðlinda og svo framvegis.

Frjálsir markaðir? Hvaða frjálsu markaðir?

Annar greinarhöfundurinn spurði „Hvað höfum við lært?“ í fyrirsögn greinar sinnar og átti þar við 20. aldar sósíalisma. Á móti hefði mátt spyrja: Hvað höfum við lært um kapítalisma frá falli múrsins? Svarið við því er: Ýmislegt. Til dæmis kvöldið áður en greinin birtist, þar sem við fengum í hendurnar kennslubókardæmi um það hvernig viðskipti fara raunverulega fram í því kerfi, sem linnulaust er logið að almenningi með áróðri að sé eitthvað sem kallast „frjálst markaðshagkerfi“. Það er að segja; öllum tiltækum ráðum er beitt til þess að komast yfir auðlindir annarra og tryggja að sá einkaréttur sé síðan varinn og helst tryggður með ríkisofbeldi. Nýta síðan fjölmiðla, auglýsingar og greiðviknar vitsmunaverur til þess að ljúga því stanslaust að almenningi úr öllum áttum að allt sé með felldu, starfsemi þeirra sé sannkölluð guðsblessun – eða „happafengur“, eins og þekktur íslenskur stjórnmálafræðiprófessor kemst að orði – fyrir almenning, og allt saman auðvitað afrakstur hins dýrðlega frjálsa markaðar.

Ríkiskapítalismi er réttnefni

Það sem kallað er kapítalismi í nútímanum ætti með réttu að vera kallað ríkiskapítalismi. Stórfyrirtæki og súperkapítalistar eins og til dæmis Samherji tala nefnilega fyrir frjálsum mörkuðum, takmörkuðum ríkisafskiptum, litlu ríki og svo framvegis, en vilja samt sem áður ekki að þessi atriði gildi um þeirra eigin starfsemi. Þau vilja sósíalisma og ofurríki fyrir sig sjálf, „sinn mann í ríkisstjórninni“, þau vilja geta sent ráðherra lagabreytingatillögur í tölvupósti, þau vilja geta hringt í forsetann og látið hann lobbýja fyrir sig við bankamenn Marokkó, en þau vilja lágmarksríki, lágmarksvelferð og hobbsískt „bellum omnium contra omnes“, stríð allra gegn öllum, fyrir alla aðra. 

Þau vilja borga eins litla skatta og hægt er, borga eins lítil gjöld og hægt er og taka þannig eins lítinn þátt í því að byggja upp samfélögin sem hýsa þau og hugsast getur, á sama tíma og þau vilja að miskunnarlaus kapítalismi og darwinísk markaðslögmál gildi um lífsbaráttu allra annarra, ekki síst fátæks fólks, sem oftar en ekki á engra annarra kosta völ en að leigja sjálft sig út til þeirra fyrir eins lítið kaup og atvinnuöryggi og hægt er, jafnvel flýja heimili sín og fjölskyldur. Samkvæmt þessari heimssýn hefur ríkið fyrst og fremst það hlutverk að þjónusta auðmagn og hlunnindi þess og veita starfsemi þess lögmæti, en ekki tryggja velferð þeirra sem standa höllum fæti og vera ramminn utan um það sem í heilbrigðum heimi kallast samfélag. 

Ef það sem fram kemur í Samherjaskjölunum reynist satt og rétt, þá er auðvelt að úthrópa stjórnendur fyrirtækisins og einblína á sekt þeirra. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir eru þátttakendur í kerfi sem er allt svona og allur hvati þess liggur í þessa átt. Eins og einn yfirmanna Samherja komst að orði við uppljóstrarann samkvæmt því sem segir í skjölunum: „Ef þú hefur tækifæri til þess að borga sjávarútvegsráðherra þá skaltu gera það strax.“ Og ég meina – að sjálfsögðu! Á hinum „frjálsa markaði“ er ómetanlegt að ríkisvaldið skuldi þér greiða. Því ef þú ætlar að vera heiðarlegur eða – guð hjálpi okkur – ástunda einhverja manngæsku á hinum „frjálsa markaði“, þá verðurðu hratt og örugglega þurrkaður út af þeim sem eru tilbúnir að grafa undan þér með öllum tiltækum leiðum. 

Sá rís hæst, sem leggst lægst. 
Meira Doritos, por favor.
Leiðin upp á hæsta tindinn liggur ávallt um myrkasta dalinn.
Stöndum vörð um frjálsa markaðinn, kæru vinir. Stöndum vörð um frelsið!

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Því meira sem þú átt – því meira færðu frítt

Pistlar

Hvað gerir kaupmanninn dapran?

Pistlar

Hatur fyrir lengra komna

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?