Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvalurinn kominn rúma 100 metra frá landi

26.08.2019 - 16:14
Mynd með færslu
Frá björgunaraðgerðum í morgun þegar grindhvalurinn var mun nær landi.  Mynd: Haukur Holm - RÚV
Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu í dag við að bjarga grindhval sem rak að norðurströnd Seltjarnarness í morgun. Að sögn Steinunnar Árnadóttur, garðyrkjustjóra Seltjarnarnesbæjar, hefur tekist að koma honum í um 100 til 150 metra fjarlægð frá landi. Í morgun var hann mun nær. Björgunarsveit á bát reynir að vísa honum leiðina á meira dýpi en hann virðist leita til baka að landi.

Grindhvalurinn er ekki heill heilsu

Hvalurinn virðist vera heilsuveill, að sögn Þóru Jónasdóttur, sérgreinadýralæknis hjá Matvælastofnun, sem staðið hefur vaktina í fjörunni í morgun. „Þetta dýr er ekki í eins góðu formi og við hefðum vilja hafa það. Við sjáum að hann er undir meðaltali í holdum. Hann er með smá graftarkýli þannig að okkur grunar að þetta sé ekki alveg frískt dýr,“ segir Þóra. 

Hvalurinn virðist aðeins kraftmeiri

Viðbúið er að grípa þurfi til annarra aðgerða ef ekki tekst að koma honum út á sjó. „Það er fyrsta tilraunin sem við viljum gera, það er að koma honum út og sjá hvort hann nái áttum. Hann hefur núna sýnt meiri styrk. Hann er farinn að synda aðeins meira en er enn þá svolítið að synda í hringi og er með kviðinn upp og við erum með hann í vöktun.“ Þóra segir ekki óeðlilegt að hvalir velti sér á bakið en að það sé óeðlilegt að þeir geri slíkt tímunum saman, eins og þessi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Víðir Hauksson
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir