Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvalaskoðun gæti skýrt hvalareka

05.08.2019 - 18:29
Mynd: Víkurfréttir / Hilmar Bragi
Hvalaskoðunarskip geta ruglað hvalavöður og áttaskyn þeirra, að mati líffræðings hjá Hafrannsóknastofnun. Hann segir eðlilegt að skoða hvort takmarka þurfi hvalaskoðunarferðir. Um sjötíu grindhvalir hafa drepist í sumar eftir að hafa leitað á land.

Fjórtán grindhvalir drápust í Garðskagafjöru aðfaranótt laugardags. Ellefu kýr og þrír tarfar. Hræin hafa vakið mikla athygli og fólk hefur gert sér ferð í fjöruna til að virða þau fyrir sér. Stærsti hvalurinn var fjórir og hálfur metri.   

Sverrir Daníel Halldórsson líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir líklegast að dýrin séu að elta áttavillt forystudýr. „En svo frétti ég af hópi sem var inni í Faxaflóanum, sem var sennilega þessi hópur, og það voru sex hvalaskoðunarskip í kringum hann. Þannig að mér finnst nú ekki ólíklegt að það gæti líka truflað þau. Sem sagt hávaði frá skipum,“ segir Sverrir Daníel.

Finnst þér þá þurfa að stýra aðgangi að hvalaskoðun að einhverju leyti? „Það er ekki mitt að segja til um það en mér finnst eðlilegt að það verði skoðað.“ 

Fjórar hvalavöður á grunnsævi á mánuði

Hvalavöður hafa ítrekað leitað á land í sumar. Fimmtíu grindhvalahræ fundust á Löngufjörum í júlí. Að auki var hvalavöðu snúið við á Rifi fyrr í júlí og síðustu helgi voru björgunarsveitir kallaðar út vegna grindhvalavöðu á grunnsævi á Reykjanesi.

Hlýnun sjávar, er það að einhverju leyti ástæða? „Ekki nema göngur dýranna séu að færast nær landi vegna þess. Mér þætti það ekki ólíklegt að það væri hluti af því“ segir Sverrir Daníel jafnframt. Á Löngufjörum taldi Umhverfisstofnun best að láta náttúruna um hvalshræin, þau væru byrjuð að grafast í sandinn og langt frá alfaraleið.

Hræ þeirra sem strönduðu neðan við Útskálakirkju eru hins vegar steinsnar frá Garði. Því þurfti að hafa hraðar hendur við að fjarlægja þau áður en lykt færi að berast yfir þorpið. Björgunarsveitin Ægir hefur staðið í ströngu síðustu daga við að sökkva hræjunum. Þar að auki var einn hvalur urðaður við Garðskagavita í dag en hræ hans hafði rekið út þegar flæddi að og síðan strandað aftur þar. Ekki er komið á hreint hvað þetta mun kosta sveitarfélagið Suðurnesjabæ sem bar ábyrgð á því að hræin yrðu fjarlægð.