Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hvaða skilaboð eru yfirvöld að senda stéttinni?“

21.03.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Formaður Félags hjúkrunarfræðinga óttast flótta úr stéttinni eftir að COVID-19 faraldrinum lýkur. Hjúkrunarfræðingar hafa verið án samnings í tæpt ár og ekkert þokast í samkomulagsátt.

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samninganefndar ríkisins funduðu í gær en lítið miðar í samkomulagsátt. Atriði eins og vaktafyrirkomulag og stytting vinnuvikunnar eru frágengin en það er launaliðurinn sem ber út af. Þar ber mikið á milli. „Það er allavega alveg nóg sem gerir það að verkum, að miðað við það sem er á borðinu í dag þá sé ég ekki hvernig ég eða samninganefndin eigum að geta lagt það fyrir félagsmenn,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Mikið álag er á stétt hjúkrunarfræðinga vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Guðbjörg segir þær aðstæður sem eru uppi í dag endurspegla hversu mikilvæg stétt hjúkrunarfræðinga er, en það mikilvægi endurspeglist ekki við samningaborðið.

Óttast hvað gerist eftir að faraldurinn gengur yfir

Hjúkrunarfræðingar hafi lagt fjölmargar lausnir á borðið sem ekki hafi hlotið hljómgrunn hjá mótaðilanum. „Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því að hjúkrunarfræðingar standi ekki sína vakt og leggja sig allir fram og vinna meira en í daglegu árferði. Það sem við þurfum líka að hugsa áfram er að eftir þennan tíma og eftir þennan hræðilega faraldur þá munum við sjá til sólar í íslensku samfélagi. Og hvað þýðir það? Ég hef áhyggjur af þeirri stöðu, þegar það er hægt að tala um þetta í orði en við sjáum ekkert á borði, hvað blasir við okkur þá? Verður flótti úr stéttinni sem aldrei fyrr? Hvaða skilaboð eru yfirvöld að gefa stéttinni? Það er ekki hægt að semja við ykkur en á sama tíma eruð þið ómssiandi.“

Næsti samningafundur hefur verið boðaður á þriðjudag, 24. mars, og verður staðan endurmetin að honum loknum segir á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.