Hvað vakir fyrir Vladimir Pútín?

26.01.2020 - 07:00
epa08151492 Russian President Vladimir Putin meets with students of Russian universities and schools who made outstanding professional and social achievements, as well as with their teachers and mentors, at the Sirius Educational Centre in Sochi, Russia, 22 January 2020.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / SPUTNIK / KREMLIN POOL / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL POOL
Ríkisstjórn Rússlands fór frá völdum í síðustu viku og nýr forsætisráðherra tók við. Það er þó engin stjórnarkreppa í landinu, og en þessi óvæntu tíðindi tengjast fyrirhuguðum, og viðamiklum breytingum á stjórnarskrá landsins. Fjögur ár eru þangað til Vladimír Pútín forseti þarf að láta að völdum, og talið er að nú ætli hann tryggja áframhaldandi völd sín. Þrátt fyrir þetta þykja fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar einnig benda til þess að Rússland sé að styrkjast sem lýðræðisríki.

Maður er nefndur Mikhail Mishustin. Mihail hver, gætir þú spurt þig og ég álasa þér ekki fyrir þekkingarleysið. Mishustin þessi er þó engu að síður forsætisráðherra Rússlands, eins stærsta og valdamesta lands í heimi. „Ég þakka traustið,“ sagði Mishustin, keikur í bragði, á blaðamannafundi í vikunni, við hlið Dimitrys Medvedevs, fráfarandi forsætisráðherra, sem sagði af sér í vikunni sem leið. Og ekki bara hann, rússneska ríkisstjórnin gekk frá borði eins og hún lagði sig.

Mishustin hefur enda enga ástæðu til annars en að vera brattur, það er síður en svo stjórnarkreppa í Rússlandi, eins og maður myndi kannski ætla þegar heil ríkisstjórn segir af sér. Nei, þetta er allt saman með ráðum gert. Og það er sá sem öllu ræður sem stjórnar sýningunni, Vladimír Pútín forseti. 

Pútín kynnti viðamiklar breytingartillögur á rússnesku stjórnarskránni í sömu andrá og stjórnarskiptin gengu í gegn, sama dag og Medvedev fór út og Mishustin tók við lyklunum. Einhverjar þeirra hafa fallið vel í kramið. Aðrar hringja viðvörunarbjöllum. 

Það er nefnilega svo að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni gætu verið fyrsti liðurinn í því að tryggja það að Pútín sitji enn við völd þegar forsetatíð hans lýkur árið 2024. Þá verður Pútín 72 ára, og svo virðist sem hann sé alls ekki á þeim buxunum að setjast í helgan stein. 

Því eru skiptar skoðanir um hvort breytingarnar séu af hinu góða, eða réttara sagt, hvort þær séu í anda þess lýðræðis sem Rússland vill og segist standa fyrir - eða séu beinlínis ólýðræðislegar.

epa08148390 Russian President Vladimir Putin (R) and Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (L) attend the first meeting with members of Russian new government at the Government's headquarters in Moscow, Russia, 21 January 2020.  EPA-EFE/ALEXEI NIKOLSKY/SPUTNIK /KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Mishustin ásamt Vladimír Pútín, forseta.

Við völd í tvo áratugi

Vladimir Vladimirovich Pútín er fæddur í október árið 1952 í borginni Léníngrad, sem nú heitir Sankti Pétursborg og stendur við ánna Nevu í Norðvestur-Rússlandi, rétt við Finnska flóa eða Kirjálabotn, eins og hann er stundum nefndur. Fyrir áhugasama um uppvaxtarár Pútíns og störf hans fyrir sovésku leyniþjónustuna, KGB, er óhætt að mæla með þætti Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, um Pútín, frá því í febrúar 2016

Pútín varð fyrst forseti síðustu aldamót, þegar hann tók við embætti af hinum litríka Boris Yeltsin, sem sagði af sér vegna heilsubrests. Upphaflega stóð til að kjósa um sumarið 2000, en þar sem Yeltsín hætti óvænt á gamlársdag 1999, var kosningunum flýtt og þær haldnar í mars. Bráðabirgðaforsetinn Pútín fékk 53% atkvæða og sór embættiseið í maí. 

Pútín sat á forsetastóli til ársins 2008, en samkvæmt rússneskum lögum má forseti aðeins sitja tvö kjörtímabil í einu. Nú voru góð ráð dýr fyrir Pútín, enda hafði hann engan áhuga á því að láta af völdum. Hvað gera bændur þá? jú, Pútín brá þá á það ráð að fá Medvedev til að halda forsætinu heitu fyrir sig í fjögur ár. Á meðan sinnti hann öðrum störfum; hann var forsætisráðherra. Þeir félagar höfðu svo sætaskipti árið 2012, og hefur Pútín setið á forsetastóli síðan. Kjörtímabili hans líkur sem fyrr segir ekki fyrr en árið 2024, en ein af umdeildum lagabreytingum Pútíns var að lengja kjörtímabilið úr fjórum árum í sex. 

Í hverju felast stjórnarskrárbreytingarnar?

Breytingartillögur Pútíns á stjórnarskránni eru nokkuð viðamiklar. Meðal annars lagt til að reglur fyrir frambjóðendur til forsetaembættisins verði hertar. Frambjóðendur geti ekki haft tvöfaldan ríkisborgararétt og þurfi að hafa búið í Rússlandi í yfir 25 ár. Þá verða lágmarkslaun yfir fátækramörkum og ellilífeyrir á að fylgja vísitölu og verðbólgu. Dagný Hulda Erlendsdóttir fréttamaður er hlustendum Heimskviðna að góðu kunn, en hún er okkar helsti sérfræðingur um málefni Rússlands. Ég spurði Dagnýju út í aðrar helstu breytingarnar sem fyrirhugaðar eru á stjórnarskránni. 

„Ein breyting er sú forsetinn mun aðeins geta setið setið í tvö kjörtímabil, punktur. Eins og þetta er núna þá getur hann setið í tvö kjörtímabil í röð, svo getur hann tekið sér hlé og komið aftur, eins og Pútín er búinn að vera að gera,“ segir Dagný.

Við fyrstu sýn virðist sú tillaga bara nokkuð góð, og síst til þess fallin að Pútín geti aftur sest á forsetastól. Þá er þess einnig getið að þingið fái meiri völd, og það á kostnað forsetans. En sé rýnt nánar í tillögur forsetans, kemur annað í ljós. Fjölmargir stjórnmálaskýrendur og gagnrýnendur forsetans segja orð Pútíns flagð undir fögru skinni. Í tillögum forsetans kemur nefnilega einnig fram að hið svokallaða ríkisráð Rússlands fái aukin völd.

epa08153581 State Duma member Pavel Krasheninnikov speaks at a plenary session of the State Duma, the Lower House of the Federal Assembly of Russia, in Moscow, Russia, 23 January 2020. The State Duma (Russian parliament) is set for the first reading of President Putin's proposed Constitution amendments.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þinghald í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins.

„Þetta er svona ráðgefandi ráð í dag, Pútín er formaður en hugmyndin er að ráðið muni geta lagt línurnar fyrir þá fyrir ríkisstjórnina, bæði í innan- og utanríkismálum. Það er þetta sem fólk er svolítið hrætt við. Ráðið er tiltölulega valdalaust núna, en völdin yrðu aukin ef þessar breytingar ganga í gegn,“ segir Dagný. 

Því gæti Pútín haldið formennsku sinni í ríkisráðinu eftir að hann stígur af stóli sem forseti. Hann verði því hreint ekki valdalaus þegar forsetatíð hans ljúki. Hann hefur jú, eftir tvo áratugi á valdastóli, komið sér upp viðamiklu tengslaneti sem hann vill viðhalda, og verja fyrir komandi stjórnmálamönnum.

„Það er það sem sumir stjórnmálaskýrendur hafa nefnt, að þetta gæti verið hans leið til að fara eftir reglunum, að vera ekki forseti lengur, en halda samt einhverjum völdum. En hann hefur sjálfur ekkert gefið út um það.“

epa06260843 Russian President Vladimir Putin (R) shakes hands with Kazakhstan's President Nursultan Nazarbayev (L) during their meeting in the Black sea resort of Sochi, Russia, 12 October 2017. Kazakh President is on a working visit to Russia.  EPA
Nursultan Nazarbayev, forseti Kasakstans ásamt Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Mynd: EPA Images
Nursultan Nazarbayev, fyrrum forseti Kazakstan, með Pútín á góðri stund.

Fer Pútín sömu leið og Nazarbayev?

Hafa ber í huga að Pútín er gríðarlega efnaður maður. Komist andstæðingur hans til valda er ekkert því til fyrirstöðu að Pútín yrði sóttur til saka fyrir gamlar syndir, og eignir hans frystar eða beinlínis teknar af honum. Gegni hann formennsku í valdamiklu ríkisráði, gæti hann hins vegar komið í veg fyrir þetta.

Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í nágrannaríki Rússlands, Kazakstan, þegar Nursultan Nazarbayev, forseti til þrjátíu ára lét af völdum í fyrra. Hann er nú formaður öryggisráðs Kazakstan og titlaður landsfaðir, hvorki meira né minna. Kannski ekki forseti, en hreint ekki valdalaus. Sarah Rainsford, fréttamaður breska ríkisútvarpsins, BBC, ber þetta saman við Raul Castro, sem var forseti Kúbu frá 2008-2018, en er enn aðalritari kúbverska kommúnistaflokksins - og því langvaldamesti maður landsins. 

„Pútín er náttúrulega 68 ára. Hann verður 72 þegar kjörtímabilinu lýkur. Þótt hann sé ofsalega sprækur kall á sjötugsaldri sem spilar íshokki og gengur á fjöll, þá mun hann fara frá. Hann vill ekki að það verði þannig að þegar hann fari myndist tómarúm. Hann vill koma fólki að sem gæti tekið af honum. Það er það sem margir halda að hann sé að gera með þessum breytingum núna. Hann vill koma sínu fólki að.“

epa04862502 Russian Prime Minister Dmitry Medvedev and Slovenian Prime Minister Miroslav Cerar (not pictured) deliver a press conference in Ljubljana, Slovenia, 27 July 2015. Medvedev is on a two-day visit to Slovenia.  EPA/IGOR KUPLJENIK
Dimitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Mynd: EPA
Dimitry Medvedev, fráfarandi forsætisráðherra Rússlands og nánasti bandamaður Pútíns.

Medvedev áfram í innsta hring Pútíns

En víkjum þá aftur stjórnarskiptunum. Tímasetning þeirra hefur vakið nokkra athygli, enda er kjörtímibilið þannig séð nýbyrjað, einungis tvö ár liðin af sex. Hinn hundtryggi Medvedev víkur og við af honum tekur Mishustin, sem var áður yfir rússnesku skattstofunni. En hvers vegna er verið að stokka upp í ríkisstjórninni á þessum tímapunkti?

„Opinber skýring Medvedevs er sú að hann vilji fara frá til að gefa stjórnvöldum rými til að leiða þessar stjórnarskrárbreytingar í gegn. Hann fékk í staðinn nýtt embætti, er núna varaformaður öryggisráðs landsins, og er áfram formaður Sameinaðs Rússlands, flokks Pútíns,“ segir Dagný.

Medvedev er því hvergi nærri horfinn af sjónarsviðinu, þótt hann gegni ekki áfram embætti forsætisráðherra. Sem formaður öryggisráðsins færist hann í raun nær Pútín ef eitthvað er. Rússneski stjórnmálafræðingurinn og blaðamaðurinn Alexander Baunov, hefur sagt að Medvedev komi nú til með gegna lykilhlutverki í innsta hring Pútíns. Því má heldur ekki gleyma að Medvedev hefur alla tíð verið mjög óvinsæll í Rússlandi, þótt hann sé í uppáhaldi hjá hinum vinsæla forseta, Pútín. Að skipta honum út fyrir nýtt andlit á forsætisráðherrastóli, gæti aukið tiltrú fólks á flokknum, Sameinuðu Rússlandi. 

Breytingarnar eru því nefnilega kannski ekki svo miklar. Þótt öll ríkisstjórnin hafi sagt af sér í síðustu viku, skilaði hún sér að mestu leyti til baka þegar ný ríkisstjórn var mynduð. Einungis fjórir af ellefu ráðherrum eru nýir. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra, og Sergey Shoygu heldur velli sem varnarmálaráðherra. Dagný segir að skipan Mishustin í forsætisráðuneytið sé engin tilviljun, það sé ástæða fyrir því að Pútín vilji hafa hann þarna. Við getum því ályktað sem svo að Mishustin sé bara brúða í leikriti Pútíns. 

epa05565813 Tourists taking a selfie at the Red Square during a good weather in Moscow, Russia, 01 October 2016.  EPA/MAXIM SHIPENKOV
Bretar eru varaðir við því að ferðast til Rússlands á næstunni.  Mynd: EPA
Frá Rauða torginu í Moskvu.

Eru tillögurnar til góðs?

En gott og vel, sem fyrr segir er ýmislegt í breytingartillögum forsetans sem gefur til kynna að Rússland, sem hefur aðeins verið lýðræðisríki í 30 ár, sé að verða enn lýðræðislegra. 

„Þingið á að fá meiri völd samkvæmt þessum tillögum, og jafnvel hörðustu andstæðingar Pútíns hafa fagnað því í sjálfu sér að þingið fái meiri völd, segir Dagný.Þar af leiðandi mun þingið hafa meira að segja um hvernig ríkisstjórn er mynduð.

„Já, en svo er það vandamálið hverjir eru á þinginu. Það er náttúrulega bara gamla vandamálið, það geta ekki allir boðið sig fram.“ Alvöru stjórnarandstæðingar, með stóru s-i, geta nefnilega ekki boðið sig fram til þings í Rússlandi, og það er ekkert í breytingartillögum forsetans sem gefur til kynna að það eigi eftir að breytast. 

epa08090733 Russia's opposition leader and anti-corruption activist Alexei Navalny (R) reacts as he walks in front of police officers inside the Anti-Corruption Foundation (FBK) headquarters in Moscow, Russia, 26 December 2019. Russian police raided the headquarters of FBK, a non-governmental organization established by Russia?s opposition leader Alexey Navalny to investigate and expose corruption among high-ranking Russian government officials. Navalny was forcibly dragged out of the office, contrary to earlier reports stating that he had been briefly detained.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: EPA
Alexei Navalny er harður andstæðingur Pútíns.

Alvöru andstæðingar fá ekki að bjóða sig fram

Í þessu samhengi er vert að minnast á Alexei nokkurn Navalny, rússneskan lögfræðing og aðgerðarsinna sem hefur verið harður gagnrýnandi forsetans undanfarin ár, og heldur meðal annars úti vinsælli YouTube rás þar sem hann kemur skoðunum sínum á framfæri. Navalny er í raun ekki eiginlegur stjórnarandstæðingur, þar sem hann situr ekki á þingi. Enda má hann það ekki.

„Við á fréttastofunni tölum alltaf um hann sem stjórnarandstæðing, en hann hefur aldrei verið á þingi. Á Íslandi er fólk í stjórnarandstöðu sem myndar minnihluta á Alþingi. Í Rússlandi er þetta allt öðruvísi. Þarna er þetta fólk sem fær ekki einu sinni að bjóða sig fram,“ segir Dagný.   

Navalny yrði því hvort eð er aldrei forseti Rússlands. Hann fær ekki að bjóða sig fram, og Pútín vill tryggja það. Navalny fékk á sínum tíma dóm fyrir fjársvik, sem Navalny segir rangan, en ef þú hefur fengið dóm máttu ekki bjóða þig fram.

En svo er það hin hliðin á þessu öllu saman. Kannski vill Pútín einfaldlega ekki að annar sterkur leiðtogi fái að láta ljós sitt skína, líkt og hann hefur gert síðustu tvo áratugi. Getur verið að Pútin vilji koma í veg fyrir aðrir geti setið eins lengi og hann?

„Já það má eiginlega segja það, og sumir hafa sagt að þetta sé svolítið kaldhæðnislegt, þar sem að þessar breytingar gætu á endanum verið til góðs. En það verður bara að koma í ljós,“ segir Dagný. 

epa08148393 Russian President Vladimir Putin (R) and Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (L) arrive to attend the first meeting with members of Russian new government at the Government's headquarters in Moscow, Russia, 21 January 2020.  EPA-EFE/ALEXEI NIKOLSKY/SPUTNIK /KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Pútín ásamt Mishustin, nýjum forsætisráðherra.

Hvað vakir fyrir Pútín?

Á næstu vikum skýrist betur hvert framhaldið verður. Pútín hefur nú sett saman vinnuhóp sem samanstendur af 75 manns, sem eiga að teikna upp nýjar stjórnarskrárbreytingar og leggja þær fyrir þingið. Hann hefur þegar gefið þeim nákvæmar leiðbeiningar um hvernig hann vill að þetta fari fram. Þegar nefndin hefur skilað vinnu sinni og tillögurnar að stjórnarskrárbreytingum eru tilbúnar, ættum við að vita meira. Rússneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að í vor fái rússneska þjóðin svo að kjósa um breytingarnar, sem eru vægast sagt óvænt tíðindi. Það yrði fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrárbreytingar í landinu frá árinu 1993. En það er þó ekki alveg víst hvernig, eða hvort, slíkar kosningar fari fram. 

„Svo sagði reyndar talsmaður Kreml, Dimitry Peskov, að það væri kannski ekki alveg víst að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Fólk myndi einhvernveginn kjósa um þetta. En ég veit ekki alveg hvernig það veðrur framkvæmt. En fólkið á að fá að segja eitthvað,“ segir Dagný.

Hafa ber einmitt í huga að fari tillögurnar í þjóðaratkvæði, er alltaf sú hætta fyrir hendi að þeim yrði einfaldlega hafnað, sem væri jú nokkuð pínlegt fyrir Vladimir Vladimirovich Pútín. Hvort breytingarnar nái í gegn og hvort þær verði rússnesku þjóðinni, og lýðræði í landinu til heilla, á eftir að koma í ljós. Eins og þetta lítur út núna, virðist bæði verið að slaka á ólinni og herða hana á sama tíma. Er Pútín að bjóða gamalt vín, á nýjum belgjum?

„Það að þingið fái aukin völd er í lýðræðisátt. Það að forsetinn megi ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil, er það líka. En svo kemur á móti þetta með ríkisráðið. Verður það yfir öllu, og Pútín þar? Það vitum við ekki. Og svo er náttúrulega spurningin hvort allir fái að bjóða sig fram? Ef þingið fær meiri völd, en bara flokkar þóknanlegir stjórnvöldum fá að bjóða sig fram í kosningum, getum við ekki talað um að það sé framfaraskref í lýðræðisátt.“

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi