Daði Freyr og Gagnamagnið slógu algerlega í gegn í Söngvakeppninni 2017, nördapoppið („geek-core“) sem er „Hvað með það?“ gekk fullkomlega upp, tónlistarlega sem framkomulega. Hrein unun að sjá þetta fólk dilla sér taktfast við ómótstæðilega melódíuna og með sprenghlægileg stærilæti í bland. Allt þetta flaug inn í hjarta þjóðarinnar. Daði sjálfur gat ekki gert neitt rangt á þessum tíma, sjarmerandi og launfyndinn og vafði þjóðinni um hljómborðsgítarinn sinn eins og ekkert væri. Ég tilheyri þessari þjóð líka og einhvern tíma skrifaði ég á samfélagsmiðla: „ Daði gæti sungið innihaldslýsingu á jógúrtdollu og grætt mann.“
Áberandi
Okkar maður hefur verið sæmilega áberandi síðan, bæði í fjölmiðlum almennt og á tónlistarsviðinu. Hefur haldið tónleika reglubundið og strax um sumarið 2017 gaf hann út lag í kjölfar söngvakeppninnar, lagið „ Næsta skref“ (fimm laga stuttskífu, samnefndri, var svo ofið um það lag). Fleiri stök lög hafa svo komið út, meðal annars „Endurtaka mig“ (þar sem Blær kemur við sögu) sem var nokkurs konar forsmekkur að þessari plötu. Eins og nafnið gefur til kynna, er gestkvæmt á plötunni og hinir og þessir hefja upp raust sína. Félagi Daða frá Berlín, þar sem hann býr, Don Tox, rappar í einu lagi, kona hans Árný syngur eitt lag og sömuleiðis söngkonan Ásdís María Viðarsdóttir. Stórstjörnurnar Arnar Úlfur og Króli leggja þá líka rödd á plóg.