„Hvað er títt, krókódíll?“ – um Tsjekhov og Levítan

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons

„Hvað er títt, krókódíll?“ – um Tsjekhov og Levítan

14.01.2020 - 10:42

Höfundar

Í janúar flytur Gunnar Þorri Pétursson pistlaröð í Víðsjá sem hann kallar Varsjá. Ferðinni er heitið aftur í tímann og austur á bóginn. Í fyrsta pistli erum við stödd í Rússlandi á ofanverðri 19. öld.

Gunnar Þorri Pétursson skrifar:

Hlynur fuðrar upp í haustlitunum, fura drekkur í sig svo mikið myrkur að greinarnar slúta, úfinn og óræður himinn speglar stíginn meðfram trjágöngum — eftir honum gengur ung kona. Svartklædd og niðurlút hraðar hún sér fram hjá litlum bekk án þess að setjast. Trjágöngin þrengja að stígnum, það virðist engin undankomuleið: Það er engu líkara en örlög konunnar hafi skyndilega ummyndast í forgengilegri fegurð haustsins.

Þetta er í eina skiptið sem það sést framan í manneskju á málverki eftir rússneska listmálarann Ísak Levítan; þá sjaldan að mótar fyrir mannverum í landslagsverkum hans eru þær of langt í burtu til að hægt sé að greina svip eða fas. Raunar leitaði hinn 19 ára Levítan hjálpar hjá bekkjarbróðir sínum í Listaháskóla Moskvu, Níkolaj Tsjekhov, þegar hann málaði svartklæddu konuna í trjágöngunum. Níkolaj kynnti Levítan fyrir eldri bróður sínum, ungum læknanema sem um þessar mundir skrifaði gamansögur í vikurit undir dulnefninu Antosja Tsjekhonte; í dag þekkir hvert mannsbarn hann sem Anton Tsjekhov, einn helsta smásagnahöfund og leikritaskáld heimsbókmenntanna. Okkur hættir til að líta á Tsjekhov sem engil: algóða manneskju, lækninn sem enn getur læknað okkur af öllum kvillum með skáldskap sínum. Í gegnum einlægan vinskap — og á köflum mikinn fjandskap — Levítans og Tsjekhovs verður málið flóknara en að sama skapi fáum við dýpri innsýn í persónuleika og list þessara miklu listamanna.

Sem málari er Levítan nánast óþekktur utan Rússlands. Hvernig förum við að því að lýsa olíumálverkum hans í útvarpi?

Júlía nam staðar við lítið landslagsmálverk og virti það fyrir sér með hálfum hug. Í forgrunni streymdi lygn á, yfir hana hafði verið smíðuð timburbrú og á hinum bakkanum tók við stígur sem hvarf smám saman inn í dökkt sefið, þá tók við engi og dálítið skógarþykkni á hægri hönd. Þarna var líka hlaðinn bálköstur: við hann myndu varðmenn eflaust orna sér í nótt. Sól var í þann veginn að setjast.

Júlía ímyndaði sér að hún færi yfir brúna og gengi sem leið lægi eftir stígnum, lengra og lengra inn í ljósaskiptin, þar sem gellur í lúinni engirellu og roðinn logar í fjarska. Af einhverjum ástæðum fannst henni skyndilega að þessi ský, þessi skógur og þetta engi sem breiddi úr sér í kvöldroðanum — að allt væri þetta svo kunnuglegt, tilheyrði einhverju sem hún hefði upplifað margsinnis áður, einhvern tímann fyrir löngu síðan; hún skynjaði einsemd sína og hana langaði lengra, lengra og lengra eftir þessum stíg; þar sem kvöldroðinn brann bjó eitthvað ójarðneskt, eilíft.

Það er augljóst að þessi lýsing, tekin úr sögunni „Árin þrjú“ eftir Tsjekhov, er byggð á málverkinu „Kyrrlátt klaustur“ eftir Levítan. Lýsingin miðlar því einkar vel hve látlaus en yfirskilvitlega verk Levítans geta orkað á áhorfanda sinn. En um leið er þessi lýsingin til marks um hve margt Tsjekhov lærði af vini sínum. Stuttar gamansögur taka að lengjast og fá alvarlegri undirtón — og nú er hann einnig farinn að sjá heiminn með augum málara. Segja má að Tsjekhov hafi málað fólkið sem vantar á myndir Levítans. Að sama skapi reyndist hann málaranum stoð og stytta á erfiðum stundum — árið sem smásagan kemur út reynir Levítan að fyrirfara sér og það er Tsjekhov sem kemur honum til bjargar.

„Hvað er títt, krókódíll?“ var Levítan vanur að segja þegar hann heimsótti vin sinn. Árið 1889 deyr Níkolaj Tsjekhov úr drykkju og Anton er farinn að hósta blóði. Sem læknir veit hvað klukkan slær. Hann er kominn með berkla en fær sig ekki til að segja nokkrum manni frá því. Hvaða flóttaleið getur læknir og rithöfundur réttlætt fyrir sjálfum sér? Tsjekhov stingur upp á því við Levítan að þeir ferðist þvert yfir Síberíu og sigli þaðan til Sakhalín-eyju, fanganýlendu norður af Japan, til að skrifa um aðbúnað fanganna. Er maðurinn genginn af göflunum? Levítan fylgir honum aðeins á leið og næst hittast þeir ekki fyrr en að tveimur árum liðnum. Tsjekhov gengur ekkert að skrifa bókina um Sakhalín, Levítan mætir aftur á móti með hönd um mjöðm á Líku Mízínovu. Þetta er töfrandi ung kona sem árum saman hefur stigið í vænginn við Tsjekhov. Levítan er ástríðufullt ljón, Tsjekhov víðsýnn vatnsberi sem er fastur í því hlutverki að bjarga öllu og öllum: Fjölskyldu sinni, vinum og skjólstæðingum, föngunum á Sakhalín-eyju o.s.frv. Tsjekhov misbýður óhefluð framkoma Levítans gagnvart konunum sem hann daðrar sjálfur við; góðmennskan og meðvirknin kemur aftur á móti í veg fyrir að nokkuð meira verði úr þessum samböndum. Og þegar Tsjekhov sér Líku og Levítan saman er eins og eitthvað bresti innra með honum. Krókódíllinn fer í kaf, gremjan er slík að loftbólurnar krauma á yfirborði vatnsins. Hann stingur Sakhalín-handritinu ofan í skúffu og skrifar þess í stað smásögu í hvelli sem nefnist „Fiðrildið“. Sagan fjallar um heiðvirtan lækni og léttúðuga konu hans sem heldur framhjá með yfirborðskenndum og sjálfumglöðum landslagsmálara sem siglir upp og niður Volgu í leit að réttu augnabliki til að mála.

Einvígi og meiðyrðamáli er afstýrt á síðustu stundu; Tsjekhov og Levítan talast ekki við í þrjú ár. Báðir eru orðnir þekktir í listalífi Moskvuborgar og fiðrildasagan flýgur. Með þessari smásögu splundraði Tsjekhov raunar vinahópi sínum; um leið markar „Fiðrildið“ ásamt smásögunni „Stofu sex“ kaflaskil á ferli hans — í kjölfarið fylgja „Konan með hundinn“ og aðrar smásögur sem halda nafni hans á lofti enn þann dag í dag.

Hitt framlag Tsjekhovs til heimsbókmenntanna, leikritaskrif hans, hefjast fyrir alvöru með Mávinum. Tsjekhov er einmitt að skrifa leikritið þegar Levítan setur sig í samband við hann á nýjan leik. Það hefur dregið úr fiðrildaáhrifunum og raunar verða fagnaðarfundir þegar gamlir félagar endurnýja vinskapinn. Skömmu síðar fær Tsjekhov bréf frá ókunnri konu sem grátbiður hann um að koma: Málarinn Ísak Levítan hafi reynt að skjóta sig fyrir framan hana, hann liggi nú með höfuðið vafið í sárabindi og vilji ekki tala við neinn nema vin sinn Anton Tsjekhov. Eftir að hafa hitt Levítan og talað hann út úr sjálfsmorðinu fer Tsjekhov heim og rekur smiðshöggið á Mávinn — þar sem listamaður reynir að skjóta sig fyrir framan unnustu sína og sést næst á sviðinu með sárabindi vafið um höfuðið.

Levítan hafði ekki úthald í að fara í aðra fýlu út í vin sinn. Félagarnir sem forðum daga höfðu farið saman á veiðar og kvennafar skiptast nú á upplýsingum um heilsuhæli. „Hjartað hans slær ekki, það veinar“ — skrifar Tsjekhov um ástand vinar síns 1897. Undir lokin flyst Levítan m.a.s. til Tsjekhovs á Jöltu við Krímskaga, og á meðan þeir sitja og spjalla í stofunni á kvöldin málar Levítan lítil olíumálverk sem æ síðan skipuðu sérstakan sess í hjarta Tsjekhovs.

Þú getur ekki tekið augun af þeim, þú heldur bara áfram að horfa og horfa á þau. Tærleikinn og einföld framsetning hinstu verka Levítans er einstæð og verður að mínu viti aldrei nokkurn tímann leikin eftir.

Tsjekhov og Levítan voru báðir fæddir 1860 og dóu með nokkurra ára millibili, langt fyrir aldur fram. Levítan kvaddi aldamótaárið 1900 og átti þá aðeins nokkra mánuði í fertugt, Tsjekhov lést tæpum fjórum árum síðar.

Hlynurinn fuðrar upp í haustlitunum, furan drekkur í sig svo mikið myrkur að greinarnar slúta, úfinn og óræður himinn speglar stíginn meðfram trjágöngum — eftir honum gengur ung kona. Svartklædd og niðurlút hraðar hún sér fram hjá litlum bekk án þess að setjast. Trjágöngin þrengja að stígnum, það virðist engin undankomuleið: Það er engu líkara en örlög konunnar hafi skyndilega ummyndast í forgengilegri fegurð haustsins…

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Að geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu

Leiklist

Eyðileggur verkið og límir svo saman aftur

Leiklist

„Þetta var bara sprengikvöld“