Hver er hugsunin að baki þriðja orkupakkanum?
Þriðji orkupakkinn var afgreiddur úr Evrópuþinginu árið 2009. Með honum á að tryggja frjálsa samkeppni á nýjum innri markaði Evrópusambandsins með raforku og gas, þvert á landamæri aðildarríkjanna. Þriðji orkupakkinn er framhald af fyrsta og öðrum orkupakkanum sem stuðluðu að markaðsvæðingu og aðskilnaði á framleiðslu og sölu raforku.
Markmið með þriðja orkupakkanum og nýmæli eru:
- Að slíta í sundur rekstur orkuframleiðenda og dreifikerfa
- að styrkja sjálfstæði eftirlitsaðila
- stofnun ACER, yfirþjóðlegrar eftirlitsstofnunar með úrskurðarvald í ágreiningsmálum milli ríkja
- samstarf þvert á landamæri um dreifikerfi og stofnun samstarfsvettvangs fyrir rekstraraðila dreifikerfa
- aukið gagnsæi á neytendamarkaði
Til einföldunar má segja að pakkinn sé regluverk um flutning orku milli landa og um stofnun nýrrar orkustofnunar Evrópu (ACER). Stofnunin er samstarfsstofnun orkustofnana hvers aðildarríkis og hefur úrskurðarvald í deilum milli eftirlitsyfirvalda einstakra ríkja.