Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvað er þetta Belti og braut?

05.09.2019 - 13:33
Erlent · Kína
Mynd með færslu
 Mynd: OECD
„Bandaríkin eru þakklát fyrir þá afstöðu Íslendinga að hafna samgöngufjárfestingum Kína á Íslandi vegna Beltis og brauta,“ sagði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, eftir fund sinn með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í gær. Ummæli varaforsetans voru mögulega full fljótfær.

Guðlaugur Þór sagði í viðtali við Kastljós í gær að ekki væri búið að hafna fjarfestingahugmyndum Kínverja, þó ekki væri búið að samþykkja þátttöku Íslands í verkefninu.

Mynd: RÚV / RÚV

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir orð varaforsetans meinfýsinn rógburð og falsfréttir. Belti og braut er stórtækt samgöngu- og viðskiptaverkefni kínverskra stjórnvalda. Nokkurs konar nýr silkivegur, og meira til. Jin Zhijian segir Belti og braut snúast um víðtækt samráð, sameiginlegt framlag og dreifðan hagnað. Verkefnið snýr að því að tengja Kína við markaði um nánast allan heim í lofti, láði og legi. Fyrirhugaðar eru umfangsmiklar járnbrautaframkvæmdir í Evrópu og Asíu, og fjöldi nýrra siglingaleiða frá Kína til Miðausturlanda og Afríku. Samkvæmt Xi Jinping, forseta Kína, er belti og brautum ætlað að stuðla að aukinni alþjóðasamvinnu. Sú samvinna verði í formi sameiginlegrar stefnu, viðskipta, fjármála og tengslanets einstaklinga. Þannig verði búinn til nýr grundvöllur fyrir alþjóðasamvinnu sem knýi fram sameiginlega þróun.

Samkvæmt vefsíðu kínverskra stjórnvalda um verkefnið taka 138 ríki þátt í belti og braut ásamt Kínverjum. Allt frá Vladivostok í austri, til Dakar í vestri, og Maputo í Suður-Afríku í suðri til Helsinki í norðri. Ísland er ekki á lista stjórnvalda, en samkvæmt greinum inni á vefsíðu verkefnisins hafa miklar þreyfingar orðið hér á landi. OECD greinir frá því að yfir 10 ára tímabil frá 2017 ætli Kínverjar að fjárfesta sem nemur þúsund milljörðum dollara, jafnvirði um 125 þúsund milljarða króna, í samgönguinnviði utan Kína. 

Auk samgangna heyra orkuflutningur og samskiptabúnaður undir Belti og braut. Í ársskýrslu Beltis og brauta er greint frá lagningu ljósleiðara frá Kína til Mjanmars, Pakistan, Kirgistan og Rússlands, auk hráolíuleiðslu frá Kína til Rússlands sem tekin verður í notkun í árslok, og Kína til Mið-Asíu sem verður klár árið 2024.

Mynd með færslu
 Mynd: OECD
Kort frá OECD sem sýnir núverandi og tilvonandi leiðir Beltis og brauta.

Kínverjar og Rússar lögðu sameiginlega fram tillögu árið 2017 um íssilkiveginn. Markmið tillögunnar er að stuðla að samvinnu og þróun á norðurslóðum. Samkvæmt grein frá apríl á þessu ári hafa Rússar og Kínverjar átt mörg samtöl um að ýta tillögunni fram. Sauli Niinisto, forseti Finnlands, er sagður hafa lýst yfir áhuga á verkefninu í opinberri heimsókn hans til Kína. Hvað Ísland varðar er greint frá undirrituðum samvinnusamningi. Þar er átt við samning sem Jóhanna Sigurðardóttir undirritaði í apríl 2013 um aukið samstarf ríkjanna. 

Aukin samvinna Íslands og Kína

Í sjöunda lið samkomulags Íslands og Kína frá 2013 er kveðið á um að ríkin auki samvinnu sína á norðurslóðum. Þar er vísað í minnisblað um samvinnu Íslands og Kína varðandi hafrannsóknir á Norðurskautinu, auk minnisblaðs um aukna samvinnu ríkjanna varðandi rannsóknir á sviði jarðhita og jarðvísinda. Þá er sagt að Ísland hafi ítrekað stuðning sinn við umsókn Kína um að fá áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu. 

Kínverska rannsóknarskipið Xue Long hefur siglt nokkrum sinnum um þær leiðir sem hafa opnast með bráðnun íss við Norðurskautið. Á vef Beltis og brauta er greint frá því að Íslendingar greini einnig mikilvægi nýrra siglingaleiða, sem leiði til lægri kostnaðar og stytti vegalengdir. Haft er eftir Gunnari Snorra Gunnarssyni, sendiherra Íslands í Kína, að það sé heiður fyrir Íslendinga að Xue Long hafi lagt fyrst að bryggju á Íslandi á langri leið sinni um norðurslóðir. Hann segir kínversk og íslensk fyrirtæki vinna að rannsóknum á smíði sterkari skipa sem þoli erfitt umhverfi norðurslóða.

Kínverjar sækjast í innviðauppbyggingu á Íslandi

Bandarísk stjórnvöld hafa lengi fylgst með áhuga Kínverja á Íslandi. Ásælni Huang Nubo í Grímsstaði fyrir nokkrum árum vakti athygli langt út fyrir landsteinana, en stjórnvöld komu í veg fyrir þau viðskipti. Eins sýndu Kínverjar áhuga á að koma að byggingu stórskipa- og olíuþjónustuhafnar í Finnafirði í Langaneshreppi. Sú framkvæmd fór til þýska félagsins Bremenport og verkfræðistofunnar Eflu. Markmið hafnarinnar er þó ekki ósvipað hugmyndum Kínverja varðandi Belti og braut. Höfnin á að vera iðnaðar- og þjónustusvæði sem tengir saman Asíu, austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu.

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hafa enn ekki samþykkt kaup kínverskra auðmanna á íslenskum jörðum, eða þátttöku kínverskra stjórnvalda í samgönguverkefnum tengdum norðurslóðum, virðist hafa komið varaforseta Bandaríkjanna fyrir sjónir sem afsvar Íslands við þreifingum Kína á norðurslóðum. Samskipti Íslands og Kína á undanförnum árum sýna þó að ekkert er útilokað í þeim efnum. Ríkin gerðu með sér fríverslunarsamning fyrir nokkrum árum og hafa, eins og áður sagði, gert með sér samkomulag um aukið samstarf. Þar á meðal á norðurslóðum.