Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvað er einiberjarunnur?

26.12.2019 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Joan Simon - Creative Commons
Flestir landsmenn þekkja vel textann „Göngum við í kringum einiberjarunn,“ sem oft heyrist sunginn yfir hátíðirnar. En hvað er þessi einiberjarunnur sem rataði í þetta sívinsæla jólalag?

Einir eina upprunalega innlenda barrtréð

Einir hefur beittar nálar og er sígrænn runni með trékenndan jarðlægan stofn og því oftast fremur lágvaxinn. Hann vex gjarnan í lyngmóum og einnig í grýttu landi, bæði hraunum og á melum. 

Einir er eina upprunalega innlenda barrtréð og er því auðþekktur frá öllum íslenskum plöntum, segir á Facebook-síðu Landgræðslunnar. Hann er þá einnig eina barrtréð sem vex villt á Íslandi og er fremur algengur víða um land en þó frekar fátíður í Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og í Skaftafellssýslu vestanverðri. 

Einirinn nefnist juniperus communis á latínu og merkir latneska heitið communis algengur. Það á vel við því einirinn er útbreiddastur allra trjáplantna og finnst um allt norðurhvel jarðar, í Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu á kaldtempruðum norðlægum breiddargráðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Viggo Johansen - Vikimedia

Einir og einiber hafa margvíslegt notagildi

Á árum áður var einirinn notaður hér á landi til að búa til jólatré eða til að skreyta heimagerð jólatré. Það gæti útskýrt hvernig hann rataði í þetta vinsæla jólalag sem talið er að hafi borist hingað fyrir árið 1920

Þá var hann einnig notaður til þess að búa til te, bragðbæta brennivín og reykja lax. Samkvæmt fornri hérlendri trú var það talið geta afstýrt húsbruna að hafa eini á heimilinu. 

Einiberin sjálf hafa þá verið nýtt á margvíslegan máta í gegnum tíðina, svo sem til lækninga og matargerðar. Berin, sem fyrst eru græn að lit, ná fullum þroska á þremur árum og verða þá dökkblá.

Á átjándu öld voru einiber talin hafa heilsubætandi áhrif og talin gagnast við fjölda kvilla, allt frá niðurgangi til holdsveiki. Þá voru þau seld eftir vigt og borðuð með harðfisk og smjöri. Í dag eru berin meðal annars nýtt sem krydd, við sósugerð og í áfengi, svo sem bjór og gin.