Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Húsleit hjá Deloitte í Malasíu vegna fjársvika

23.05.2019 - 16:14
epa06759192 Former MalaysiaN prime minister Najib Razak  (C) reacts while leaving the Malaysian Anti-Corruption Commission (MACC) headquarters in Putrajaya, Malaysia, 24 May 2018. Najib Razak was ordered to explain a suspicious transfer of 10.6 million US
Najib Razak. Mynd: EPA-EFE - EPA
Húsleit var gerð í dag hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte í Malasíu. Það sá um endurskoðun opinbers sjóðs sem fyrrverandi forsætisráðherra landsins er grunaður um að hafa rænt úr yfir fimm hundruð milljörðum króna.

Lögregla í Kuala Lumpur staðfesti í viðtali við AFP fréttastofuna að hald hefði verið lagt á gögn hjá Deloitte í borginni vegna rannsóknar á fjárdrætti úr sjóðnum 1MDB. Fyrirtækið annaðist endurskoðun hans til ársins 2016.

Talið er að Najib Razak, fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, vinir hans og samstarfsmenn hafi rænt úr honum sem nemur rúmum 560 milljörðum króna og varið til kaupa á ýmsum munaðarvarningi, allt frá skemmtisnekkjum til fágætra listmuna. Verðbréfaeftirlit Malasíu hefur þegar sektað Deloitte um 65 milljónir króna vegna mistaka við endurskoðun sjóðsins. Það sagði sig frá starfinu þegar bandarísk stjórnvöld höfðuðu mál vegna fjárdráttarins. Áður höfðu fyrirtækin KPMG og Ernst & Young annast endurskoðun sjóðsins.

Najib Razak var forsætisráðherra Malasíu á árunum 2009 til 2018. Réttarhöld hófust í síðasta mánuði yfir honum vegna fjársvikanna og fleiri afbrota. Nokkur til viðbótar hafa verið boðuð á næstu árum. Razak neitar því að hafa gert neitt af sér.