Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hús rýmd á Flateyri og Patreksfirði

16.03.2020 - 21:38
Flateyri í Önundarfirði janúar 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Hættustigi hefur verið lýst yfir á Flateyri og Patreksfirði og íbúðarhús hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu. Í nótt og í morgun hefur verið hríðarveður með miklum skafrenningi á Vestfjörðum. Spáð er Norðaustanhríð fram á miðvikudag og mikill snjór er til fjalla. 

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist grannt með þessum aðstæðum í samráði við almannavarnir.

Ákveðið var í dag að rýma íbúðarhús við Ólafstún á Flateyri. Snjóflóð féll á hús í þeirri götu í janúar og var stúlku bjargað þaðan. Einnig er búið að rýma nokkur önnur hús ofarlega í bænum og tvö íbúðarhús við Urðargötu á Patreksfirði. Nokkur snjóflóð féllu á Vestfjörðum í morgun.

Varðskipið Týr er á leið til Vestfjarða. Á níunda tímanum í kvöld var skipið statt á Breiðafirði. Þar er norðaustan stormur og sex til átta metra ölduhæð. Haft er eftir Thorben Lund, skipherra á Tý, í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að búast megi við því að töluvert bæti í vind og sjó eftir því sem vestar dregur í nótt. Gert er ráð fyrir að varðskipið verði komið vestur á firði í fyrramálið.

Mynd með færslu
Varðskipið Týr er á leið vestur. Myndin var tekin í kvöld.  Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd