Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hús orðin ísköld og fólk fær hjálp frá Rauða krossinum

11.12.2019 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð á Dalvík og er að undirbúa opnun á Hvammstanga. Stöðvarnar eru ætlaðar fólki sem getur ekki dvalið heima hjá sér vegna kulda, sem má rekja til langvarandi rafmagnsleysis af völdum óveðursins.

„Við vitum í rauninni ekki hvað við búumst við mörgum. Við höfum fengið beiðni um að opna fjöldahjálparstöð, sérstaklega vegna fólks sem býr í sveitunum í kring. Húsin eru bara orðin ísköld. Þannig að við erum að opna fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Hvammstanga og þangað eru að sjálfsögðu allir velkomnir sem að þurfa á hlýju að halda,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.  

Fyrr í kvöld opnaði Rauði krossinn fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Dalvík. „Það eru til dæmis mjög margir sem hafa ekki getað eldað mat í svolítið langan tíma þannig að eftir því sem tíminn verður lengri þá verður ástandið verra og húsin alltaf kaldari þannig að það er svona það sem er mest áríðandi núna. Fólki er einfaldlega kalt,“ segir Brynhildur.