Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hús OR endurbyggt að hluta

17.12.2019 - 15:33
Mynd: Orkuveita Reykjavíkur / RÚV
Orkuveita Reykjavíkur hefur ákveðið að endurbyggja hluta skrifstofuhúsnæðis fyrirtækisins á Bæjarhálsi. Verkið verður boðið út áður en langt um líður.

Húsið var tekið í notkun árið 2003, en árið 2017 kom í ljós að veturhluti hússins var mjög illa farinn vegna raka. Þá kom fram í fréttum að ódýrsta viðgerðin á húsinu myndi kosta 1,7 milljarða króna, en meðal kosta sem nefndir voru var að láta rífa húsið.  Útlit hússins mun taka nokkrum breytingum við þetta, einna helst að útveggir hússins verða réttir af, en þrír af fjórum útveggjum hússins slúta nú fram yfir sig.

Samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið lagðar línur fyrir það hvernig endurbyggingunni verður háttað. Meðal annars að viðurkenndar lausnir og útfærslur verði notaðar, hagkvæmni, hógværara að lágstemmdara yfirbragð og að innanrými verði heilsusamleg.

Þegar ástand hússins kom í ljós óskaði Orkuveitan eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur dómkveddi matsmenn til að kanna orsakir skemmdanna og eru matsmenn enn að störfum.. Réttarstaða fyrirtækisins verður metin þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir.