Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hús Garðyrkjuskólans að grotna niður

22.03.2017 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðstæður í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði eru sorglegar og óboðlegar; byggingarnar liggja undir skemmdum og sumar eru ónýtar. Þetta segir rektor Landbúnaðarháskólans. Nemendur og kennarar hafa fundið fyrir einkennum myglu. Rektor segir þær 70 milljónir sem hafi fengist á fjárlögum til framkvæmda séu hvergi nærri nóg til endurreisnar.

Sum húsin dæmd ónýt árið 2005

Garðyrkjuskóli Íslands var stofnaður á Reykjum í Ölfusi 1939. Hann sameinaðist Landbúnaðarháskóla Íslands 2005 og segir Björn Þorsteinsson rektor að þá þegar hafi ástandið á húsunum ofan Hveragerðis verið svo slæmt að það þótti ekki fært að setja þau í leigusamning skólans við Ríkiseignir, enda séu sum húsin ónýt. 
 
„Og síðan þá hefur í raun og veru ekkert svigrúm eða bolmagn verið til að halda þessum byggingum við og þær hafa nú ekki skánað neitt síðustu 12 árin við þær aðstæður,” segir Björn.

Starfsfólk og nemendur finna fyrir myglu

Í skólanum er kennd garðyrkja auk þess sem hann hýsir rannsóknarsvið. Tvær álmur voru áður heimavist og er önnur gjörónýt en hin er nýtt undir skrifstofur. Um nokkurt skeið hafa starfsmenn og nemendur kvartað undan einkennum myglu og lét Björn gera úttekt á húsnæðinu. Skýrslu er að vænta í apríl. Hann segir aðstæðurnar sorglegar og algjörlega óviðunandi.

70 milljónir einungis brot af því sem þarf

Garðyrkjuskólinn fékk 70 milljónir króna aukalega á síðustu fjárlögum til að bregðast við. 

„Ég hafði gert stjórnvöldum grein fyrir því að annað hvort þyrftum við að loka starfseminni, í ljósi ástandsins, eða þá að leggja fjármuni í að koma þarna hlutum í lag,” segir Björn og bætir við að 70 milljónir dugi þó skammt. „Þær gætu farið í að leysa brýnan bráðavanda og fara aðeins af stað með þetta. En það má gera ráð fyrir því að þetta dugi fyrir svona 10 - 20 prósent af því sem það kostar að koma þessu í almennilegt horf.”

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður

Tengdar fréttir