Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hundur meðal farþega í bílslysi á Snæfellsnesi

27.06.2019 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - Lanhelgisgæslan
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til vegna áreksturs tveggja bíla seinni partinn í gær í grennd við Lágafell á Snæfellsnesi. Annar bíllinn fór yfir á rangan vegarhelming. Fimm voru í bílunum og slösuðust tveir þeirra talsvert.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til en hún var stödd í grennd við slysstað. Einnig var hundur í öðrum bílnum sem rotaðist við áreksturinn. Honum varð að öðru leyti ekki meint af. Hann var í belti en við höggið slitnaði það.

Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi, brýnir fyrir fólki að huga vel að frágangi á lausum munum í bílum og gæta sérstaklega að dýrum þegar þau eru höfð með í för.

Slysið varð á vegkafla þar sem hámarkshraði er 70 km á klukkustund og var vegkaflanum lokað á meðan rannsókn fór fram á vettvangi. Enginn farþeganna er talinn í lífshættu en ökumaður annars bílsins var fluttur með þyrlu á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Lögreglan segir að betur hafi farið en á horfðist og að allir farþegar hafi verið í belti.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV